SAS tríóið (1957-59)

sas-trioid1

SAS tríóið

SAS tríóið var söngtríó sem starfaði í árdaga rokksins á Íslandi og sendi frá sér tvö lög en annað þeirra heyrist ennþá af og til í dag á öldum ljósvakans.

Tilurð tríósins má rekja til þess að þrír skólafélagar í Reykjavík á unglingsaldri, Stefán Jónsson, Ásbjörn Egilsson og Sigurður Elíasson, komu fram á skólaskemmtun árið 1957 undir nafninu SAS tríóið en um var að ræða skammstöfun úr upphafsstöfum þeirra þriggja.

Um einu og hálfu ári síðar, eða vorið 1959 komu þeir saman aftur og sungu á tónleikum í Austurbæjarbíói sem Svavar Gests hélt og var í raun tækifæri fyrir unga dægurlagasöngvara að koma sér á framfæri. Í kjölfarið bauð Tage Ammendrup þremenningunum að syngja inn á tveggja laga plötu um sumarið og þegar hún kom út um haustið á vegum Stjörnuhljómplatna, útgáfufyrirtækis hans, sló annað laganna rækilega í gegn en það var lagið um Charlie Brown sem hafði þá fengið íslenska snörun og hét nú Jói Jóns. Minna fór fyrir hinu laginu sem hafði titilinn Allt í lagi en það var einnig erlent. Svo virðist sem Jón E. Jónsson hafi sungið inn á plötuna í stað Sigurðar.

Jói Jóns sló semsagt í gegn og þótt SAS tríóið yrði ekki langlíft eftir útgáfu plötunnar vakti hún nógu mikla athygli á Stefáni til að hann gerðist söngvari Plútó (síðar Lúdó sextetts) og varð einn ástsælasti söngvari fyrstu rokkkynslóðar Íslands. Félagar hans, Ásbjörn og Sigurður, áttu hins vegar ekki eftir að staldra frekar við í dægurtónlistarheiminum.

Lögin tvö hafa komið út á ótal safnplötum síðari tíma, þeirra á meðal má nefna Óskalögin 2, Svona var 1959, Rokklokkar, Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 og Aftur til fortíðar 50-60.

Efni á plötum