Stefán Jónsson [2] (1942-)

Stefán Jónsson í SAS tríóinu

Söngvarinn Stefán Jónsson eða Stebbi í Lúdó eins og hann er reyndar oft kallaður er meðal allra fyrstu rokksöngvara Íslands en hann kom kornungur fram á sjónarsviðið laust fyrir 1960 og varð jafnframt sá fyrsti af þeirri kynslóð rokksöngvara sem söng inn á plötu. Stefán söng með nokkrum hljómsveitum en Lúdó sextett er þeirra allra þekktust, naut mikilla vinsælda á sjöunda áratugnum og þegar hún kom fram aftur eftir nokkurra ára hlé og gaf út tvær plötur með gömlum rokkslögurum má segja að sveitin hafi aftur slegið í gegn. Stefán var jafnframt ómissandi liður í þeirri vakningu sem varð á níunda og tíunda áratugnum þegar rokk-kynslóðin rifjaði upp gömlu tónlistina á Broadway, Þórscafé og víðar.

Stefán fæddist haustið 1942 og var líklega fimmtán ára þegar hann kom fyrst fram en það mun hafa verið á skólaskemmtun Gagnfræðaskóla verknáms þar sem hann kaus að syngja ekki fyrr en búið var að slökkva ljósin, svo feiminn var hann. Litlu síðar söng hann á árshátíð skólans ásamt tveimur félögum sínum, þeim Ásbirni Egilssyni og Sigurði Elíassyni undir nafninu SAS-tríóið sem var skammstöfun úr nöfnum þeirra. Þeir félagar komu síðan fram ásamt fleiri ungum dægurlaga- og rokksöngvurum á skemmtun í Austurbæjarbíói og í kjölfar þess kom út tveggja laga smáskífa með tríóinu þar sem lagið Jói Jóns sló í gegn og gerði Stefán landsþekktan en hann var þá 17 ára gamall.

Þó svo að SAS tríóið yrði ekki langlíft og félagar Stefáns hyrfu úr tónlistinni hélt hann sjálfur áfram að syngja, fyrst um skamman tíma með hljómsveit sem hlaut líklega aldrei nafn en síðan bauðst honum að syngja með hljómsveitinni Plútó sem fyrst um sinn var kvartett en stækkaði síðan upp í kvintett og enn síðar í sextett, reyndar stóð sveitin í stappi um nafnið og tapaði því reyndar í málaferlum fyrir silfursmiðjunni Plútó sem tók ekki einu sinni í mál að þeir tækju upp nafnið Plúdó en úr varð að sveitin tók upp nafnið Lúdó sextett. Á þessum fyrstu árum Stefáns sem söngvari söng hann einnig eitthvað tímabundið með öðrum hljómsveitum og kom þá t.a.m. fram með KK-sextettnum.

Stebbi í Lúdó

Lúdó varð smám saman ein þekktasta hljómsveit hinnar ungu rokkkynslóðar og sveitin lék víða á dansleikjum við miklar vinsældir næstu árin, þegar hún hafði fest sig í sessi var hún ráðin á staði eins og Storkklúbbinn (síðar Glaumbæ) og Þórscafé yfir vetrartímann en geystist meira um landsbyggðina yfir sumarið, sveitin var t.d. þekkt fyrir að leika í Hlégarði í Mosfellssveit langt fram á haust fyrst hljómsveita en þangað flykktust ungmennin úr Reykjavík. Til marks um vinsældir sveitarinnar má nefna að þeir félagar komu fram upp í 6-7 sinnum í viku um margra ára skeið, og til gamans má geta að sveitin frumflutti lagið Ég veit þú kemur á þjóðhátíð Vestmannaeyinga sumarið 1962.

Lúdó og Stefán sendu frá sér tvær smáskífur um miðjan sjöunda áratuginn þar sem Stefán söng vinsæl lög eins og Því ekki að taka lífið létt og Laus og liðugur (Sigurður er sjómaður) sem voru ekki beinlínis bítlalög eins og tíðarandinn kallaði á heldur fremur í anda frumrokksins enda þótt mörgum Stefán hljóma eins og Fats Domino, það kom ekki í veg fyrir vinsældir sveitarinnar og reyndar fylgdi hún nýjustu straumum og stefnum á dansleikjum sínum og lék þar bítlalög.

Lúdó sextettinn hætti störfum haustið 1967 en kjarni sveitarinnar hélt hópinn undir nafninu Sextett Jóns Sigurðssonar með Stefán sem söngvara og lék sú sveit mikið á Vellinum hjá Kananum en einnig í Þórscafé og víðar. Sú sveit sendi frá sér eina smáskífu með fjórum lögum en þau nutu ekki mikillar hylli. Þegar sveitin hætti störfum árið 1970 hélt Lúdó-kjarninn starfinu áfram undir nafninu Hljómsveit Elfars Berg með Stefán fremstan í flokk og undir því nafni störfuðu þeir til 1972 þegar þeir tóku upp nafnið enska nafnið The Robots en ástæða þess var sú að sveitin starfaði þá einvörðungu á Vellinum.

Stefán hafði haft sitt lifibrauð af tónlistinni frá því að hann byrjaði að syngja með Plútó sextettnum enda hafði þá verið yfirið nóg að gera í bransanum en árið 1967 þegar Lúdó hætti störfum hóf hann störf hjá bílaumboðinu Ræsi og var þá í fyrsta sinn í dagvinnu, þar átti hann svo eftir að starfa til starfsloka en söng þá samhliða þeirri vinnu um kvöldin og helgar en í miklu minni mæli en áður.

Þegar Róbótarnir liðu undir lok var söngferli Stefáns síður en svo lokið, Lúdó var endurreist – fyrst í stað undir nafninu Þyrnar, og lék þá á Hótel Sögu en svo tóku þeir upp gamla nafnið á nýjan leik. Árið 1974 kom sveitin m.a. fram í sjónvarpsþætti en hún var þá mestmegnis í árshátíðarbransanum og á einni slíkri árshátíð sá Svavar Gests Lúdó og Stefán leika og fékk þá hugmynd að gefa út stóra plötu með sveitinni sem var þó ekki beint að spila nýjustu tónlistina. Það varð úr að breiðskífa var hljóðrituð og gefin út árið 1976 og öllum að óvörum sló tónlistin í gegn og gamlir slagarar eins og Átján rauðar rósir, Vertu sæl María, Ólsen-ólsen, Halló Akureyri, Í bláberjalaut og Úti í garði urðu feikivinsæl í meðförum þeirra félaga sem nutu nú ekki aðeins vinsælda sinnar kynslóðar heldur einnig þeirra yngri. Svavar sá ekki annað í stöðunni en að hamra járnið meðan það var heitt (enda seldist platan í tæplega 10.000 eintökum) og önnur plata var gefin út ári síðar (1977), sú náði reyndar ekki nándar nærri sömu hæðum en lög eins og Pabbi og mamma rokkuðu, Er ég þér gleymdur?, Þú talar of mikið og Bless bless urðu töluvert vinsæl. Þannig var Stefán í sviðsljósinu og í raun miklu meira en á sínum yngri árum enda um tvær breiðskífur að ræða og breyttar aðstæður í tónlistinni.

Stefán árið 1977

Lúdó starfaði áfram en minna fór fyrir sveitinni og Stefáni á næstu árum enda keyrðu þeir félagar mest á árshátíðir og önnur slík einkasamkvæmi, þannig starfaði sveitin nokkuð sleitulítið framan af en síðar með meiri hléum. Stefán söng þá einnig með sveitum eins og húshljómsveitinni Glæsi í Glæsibæ og síðar með Rokkbræðrum, tríói sem var skipað þeim Stefáni, Þorsteini Eggertssyni og Garðari Guðmundssyni, allt kunnum söngvurum úr gamla rokkinu – þeir bræður gáfu út eina plötu en hún fór ekki hátt. Þess má og geta að þegar FÍH hélt upp á 50 ára afmæli sitt með pomp og prakt árið 1982 var blásið til tónleika sem voru hljóðritaðir og gefnir út á tvöfaldri plötu, og er Lúdó og Stefán að finna á þeirri plötu.

Þegar Ólafur Laufdal og fleiri hófu veg rokkkynslóðarinnar til virðingar á nýjan leik á níunda áratugnum með tónlistarsýningum var Stebbi í Lúdó einn af mörgum sem komu þar fram en hann var þá ólíkt flestum söngvurunum í þokkalegu söngformi en margir gullaldarsöngvaranna höfðu lítið sem ekkert sungið síðan um 1960. Slíkar skemmtanir voru haldnar við miklar vinsældir á Broadway, Hótel Íslandi, Þórscafé og víðar, og svo vinsælar voru þær að farið var einnig út á land með sumar þeirra.

Þó svo að Lúdó væri ekki að koma mikið fram á þessum árum (á síðari hluta níunda áratugarins og fram á þann tíunda) var Stefán töluvert að syngja á stöðum eins og Skálafelli, Næturgalanum og víðar ásamt undirleikurum eins og Stefáni Jökulssyni og Garðari Karlssyni, þar var sungið fyrir matargesti en hann var einnig að koma nokkuð fram með hljómsveitum eins og Danssveitinni. Lúdó hætti þó aldrei störfum og spilaði nánast eitthvað á hverju ári og undir lok aldarinnar lék sveitin töluvert mikið á stöðum eins og Ásbyrgi á Hótel Íslandi, og á nýrri öld hélt hún uppteknum hætti en á mun fleiri stöðum. Þá kom að því að sveitin sendi árið 2005 frá sér plötuna 45 rokkár en sveitin var um það leyti 45 ára gömul, platan vakti sem slík ekki mikla athygli en hætti fljótlega eftir það en einhver ágreiningur hafði þá orðið um útgáfu hennar innan sveitarinnar. Stefán hélt hins vegar áfram að koma eitthvað fram næstu árin, m.a. á tónlistarsýningunni Rokk og ról í 50 ár í Austurbæ haustið 2005, ásamt fleiri rokksöngvurum í Kringlukránni 2009 og Players 2010 og svo á tónleikum í Salnum í Kópavogi árið 2017 þar sem nokkrir af frumherjum rokksins komu fram, tveimur árum fyrr hafði Stefán sungið inn á plötu með Sniglabandinu og er það líklega það síðasta sem gefið verður út með honum og tilvalinn endapunktur á útgáfusögu þessa farsæla söngvara en segja má að söngferill Stefáns hafi spannað nokkuð samfellt í um sextíu ár.

Eins og hægt er að ímynda sér er söng Stefáns víða að finna á safnplötum, mörg Lúdó-laganna hafa lifað góðu lífi í gegnum slíkar útgáfur og enn heyrast reglulega leikin í útvarp gamlir rokkslagarar eins og Ólsen-ólsen, Laus og liðugur, Því ekki að taka lífið létt, Í bláberjalaut og þannig mætti áfram telja.

Efni á plötum