Ólafur liljurós

Ólafur liljurós
(Lag / texti: þjóðlag / þjóðvísa)

Ólafur reið með björgum fram,
villir hann, stillir hann.
Hitti hann fyrir sér álfarann.
Þar rauður loginn brann.

viðlag
Blíðan lagði byrinn undan björgunum.
Blíðan lagði byrinn undan björgunum fram.

Þar kom út ein álfamær,
villir hann, stillir hann..
Sú var ekki Kristi kær.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

Þar kom út ein önnur,
villir hann, stillir hann.
Hélt á silfurkönnu.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

Þar kom út hin þriðja,
villir hann, stillir hann.
Með gullband um sig miðja.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

Þar kom út hin fjórða,
villir hann, stillir hann.
Hún tók svo til orða:
Þar rauður loginn brann.

viðlag

„Velkominn Ólafur liljurós”,
villir hann, stillir hann.
„Gakk í björg og bú með oss”.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

„Ekki vil ég með álfum búa”,
villir hann, stillir hann.
„Heldur vil ég á Krist minn trúa”.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

„Vendi ég mínu kvæði í kross”,
villir hann, stillir hann.
„Sankti María sé með oss”.
Þar rauður loginn brann.

viðlag

[m.a. á plötunni Icelandic folk favourites – ýmsir]

 

[mun fleiri erindi eru stundum sungin heldur en hér koma fram]