Þaulæfð (um 1955-60)

Þaulæfð

Hljómsveit var lengi starfandi á Raufarhöfn á sjötta áratug síðustu aldar undir nafninu Þaulæfð eða jafnvel Þaulæfðir. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu lengi sveitin starfaði  en margir höfðu þar viðkomu um lengri eða skemmri tíma. Sveitin lék mestmegnis á heimaslóðum á Sléttu og var vafalaust ómissandi þáttur í skemmtanalífinu á síldarárunum.

Staðfest er að Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir (hugsanlega söngkona og jafnvel einnig gítarleikari) var í sveitinni 1954 og 55, árið 1959 voru í henni Ingimundur Björnsson (í Hlíð) harmonikkuleikari, Matthías Friðþjófsson trommuleikari, Jón Hrólfsson harmonikkuleikari, Skjöldur Björnsson saxófónleikari og Signý Einarsdóttir söngkona og gítarleikari, og á einhverjum tímapunkti voru Stefán Magnússon (faðir Magnúsar Stefánssonar trommuleikara) og Magnfríður [?] í henni. Líklegast þykir að skipan hljómsveitarinnar hafi verið margbreytileg og mikið flæði fólks í gegnum hana.

Annað liggur ekki á lausu um hljómsveitina Þaulæfða en allar tiltækar upplýsingar um líftíma sveitarinnar sem og meðlimi hennar óskast sendar Glatkistunni.