Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir (1936-2006)

Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir

Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir var kórstjórnandi, laga- og textahöfundur, útsetjari og hljóðfæraleikari sem ekki fór mikið fyrir en hún áorkaði þó heilmiklu í tónlistarstarfi fyrir eldri borgara landsins, hún sendi frá sér plötu með frumsömdu efni þegar hún var komin fast að sjötugu.

Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir fæddist á Ormarslóni í Þistilfirði vorið 1936 og þaðan hefur hún væntanlega fengið tónlistargáfuna því harmonikkuleikarinn Jóhann Jósefsson á Ormarslóni var föðurbróðir hennar. Hún bjó þar þó ekki lengi, faðir hennar var sóknarprestur og þegar hann fékk brauð á Bakkafirði fluttist fjölskyldan þangað en svo aftur á heimaslóðir þegar þau fluttu í Vog við Raufarhöfn, sem segja má að hafi verið hennar aðal æskuslóðir.

Á Raufarhöfn mun þátttaka hennar í tónlistarstarfi hafa hafist fyrir alvöru, hún söng með barnakór þar sem gekk undir nafninu Kolbrúnarkórinn og þar söng hún m.a. einsöng á tónleikum, þá var hún á unglingsárum sínum í söngtríói þar sem hún lék einnig á gítar og svo í hljómsveitinni Þaulæfð á árunum 1954-55, þar lék hún líkast til á gítar einnig.

Lungann úr ævi sinni bjó Sigurbjörg Petra eða Sifa eins og hún var iðulega kölluð, í Reykjavík og þar nam hún tónlist í formi söngs að minnsta kosti en hún hafði einnig lært söng heima á Raufarhöfn. Hún þótti mjög fjölhæf og lék á ýmis hljóðfæri s.s. gítar, píanó, harmonikku og jafnvel trommur ef svo bar undir.

Í Reykjavík söng Sifa með og starfaði með fjölmörgum kórum og reyndar einnig hljómsveitum því hún var um tíma á níunda áratugnum í hljómsveit sem gekk undir nafninu Ömmusystur. Hún söng með Kór Fella- og Hólakirkju og stjórnaði kórum eins og Kvennakór Hreyfils, Kór Gerðubergs (sem síðar hlaut nafnið Kór félagsstarfs aldraðra í Reykjavík (KFAR) og enn síðar Söngfuglar) og Glæðunum, kvennakór Kvenfélags Bústaðakirkju en síðast taldi kórinn söng m.a. lög eftir hana á tónleikum, sá kór kemur fyrir á safnplötunni Kirkjutónar: tónlistarlíf í Bústaðakirkju (1997). Sigurbjörg Petra var jafnframt undirleikari þessara kóra auk kórstjórahlutverksins, og spilaði reyndar nokkuð stóra rullu í starfi eldri borgara í Reykjavík því hún hafði umsjón með svokölluðum Söngvökum eldri borgara í Reykjavík og annaðist umsjón og hljóðfæraleik í guðsþjónustum fyrir eldri borgara á Vesturgötu 7.

Sigurbjörg Petra hafði samið tónlist frá því hún var ung að árum og árið 2004 lét hún draum sinn rætast um að gefa út plötu með frumsömdum lögum. Sú plata hlaut titilinn Kvöldgeislar: Lög Sigurbjargar Petru Hólmgrímsdóttur og á henni samdi hún öll lög plötunnar (ellefu talsins) og einhverja texta líka en annars komu textarnir úr ýmsum áttum. Fjölmargt tónlistarfólk lagði henni lið á plötunni, m.a. söngvararnir Viðar Jónsson, Stefán Helgi Stefánsson og Rakel María Axelsdóttir, en elsta lag plötunnar var um hálfrar aldar gamalt.

Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir veiktist síðsumars 2005 og þurfti þá að hætta öllu því starfi sem hún vann fyrir eldri borgara, hún sneri ekki aftur til síns starfa og lést vorið 2006 fáeinum dögum fyrir sjötugs afmæli sitt.

Efni á plötum