Þorgeir Ástvaldsson (1950-)

Þorgeir Ástvaldsson

Flestir þekkja fjölmiðlamanninn Þorgeir Ástvaldsson en hann á einnig tónlistarferil sem er töluvert fyrirferðameiri en marga grunar.

Þorgeir er Reykvíkingur, fæddur 1950 en á ættir að rekja vestur í Dali. Þorgeir mun hafa lært eitthvað á hljóðfæri á yngri árum, a.m.k. á fiðlu en faðir hans, Ástvaldur Magnússon var einn Leikbræðra svo tónlist var Þorgeiri að einhverju leyti í blóð borin.

Á unglingsárum sínum varð Þorgeir þekktur sem einn úr hljómsveitinni Tempó sem starfaði í Langholtsskóla en sú var bítlasveit og vann sér það m.a. til frægðar að hita upp fyrir Kinks og Swinging blue jeans um miðjan sjötta áratuginn, Þorgeir lék á orgel og söng í Tempó. Eftir að Tempó hætti kom Þorgeir lítið opinberlega að tónlist um langan tíma en hann söng á þessum árum með karlakórnum Fóstbræðrum, hann mun einnig eitthvað hafa gutlað við hljómborð og harmonikku, auk þess að semja tónlist. Þorgeir nam landafræði við Háskóla Íslands og starfaði við fagið um tíma.

Það var svo 1977 sem fjölmiðlaferill Þorgeirs hófst, hann stjórnaði útvarpsþættinum Popphorninu hjá Ríkisútvarpinu og síðar var hann einnig með vinsæla sjónvarpsþætti, s.s. Skonrokk sem margir muna eftir. Þegar Rás 2 tók til starfa 1983 var Þorgeir ráðinn forstöðumaður stöðvarinnar, þar var hann í nokkur ár en síðar á öðrum útvarpsstöðvum eins og Stjörnunni og Bylgjunni en hann starfar enn við dagskrárgerð í útvarpi þegar þetta er ritað.

Samhliða störfum sínum í fjölmiðlum varð Þorgeir áberandi í skemmtanalífinu og var birtingarmynd þess með ýmsum hætti þar, hann kom mikið fram sem kynnir á tónleikum og hvers kyns skemmtunum, stjórnaði bingóum, var plötusnúður og veislustjóri svo dæmi séu tekin, og eftirsóttur sem slíkur.

Það var svo í kringum 1980 sem Þorgeir fór aftur að verða áberandi í tengslum við tónlist. Hann hóf að starfa með félaga sínum Magnúsi Ólafssyni og þeir fóru m.a. að skemmta sem jólasveinarnir Hurðaskellir og Stúfur, sá síðarnefndi (Þorgeir) var þar oft vopnaður harmonikku. Þeir félagar voru síðan teknir inn í skemmtikraftahópinn Sumargleðina sumarið 1980, og þegar hópurinn átti ári síðar tíu ára starfsafmæli (1981) þótti við hæfi að gefa út plötu en hún hlaut nafnið Sumargleðin syngur. Þeir Magnús áttu þar sinn hvorn stórsmellinn, Magnús með lagið um Prins Póló en Þorgeir með lagið Ég fer í fríið, lagið hefur fylgt honum síðan og heyrist enn reglulega spilað í útvarpi.

Þorgeir ásamt Magnúsi Ólafssyni

Frumraun Þorgeirs sem söngvari á plötu Sumargleðinnar var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi og fáeinum mánuðum síðar birtist hann á plötunni Himinn og jörð en sú plata hafði að geyma lög eftir Gunnar Þórðarson. Mörg laganna á þeirri plötu nutu gríðarlegra vinsælda, titillagið Himinn og jörð og Vetrarsól flutt af Björgvini Halldórssyni, Þitt fyrsta bros með Pálma Gunnarssyni og svo Fjólublátt ljós við barinn flutt af Þorgeiri og „Klíkunni“, sem voru söngkonurnar Bryndís Scheving og Dagný Emma Magnúsdóttir, og hlutu þarna sína fimmtán mínútna frægð.

Um haustið (1981) komu þeir félagar, Hurðaskellir og Stúfur, einnig fram á jólaplötunni Við jólatréð en þar lék Þorgeir einnig á harmonikkuna, hann hafði reyndar þreytt frumraun sína sem hljóðfæraleikari á plötu fyrr á árinu þegar hann spilaði á nikkuna í stórsmelli Eiríks Fjalar (Ladda), Skammastu þín svo. Sagan segir reyndar að Þorgeir hafi áður leikið á harmonikku á plötu Brimklóar, …eitt lag enn, sem kom út 1978 en það hefur ekki fengist staðfest.

Þeir Magnús og Þorgeir fóru mikinn í jólasveinahlutverkinu allan þennan áratug (þ.e.a.s. í kringum jólin) og tvær plötur með þeim litu dagsins ljós, Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki (1982) og Hurðaskellir og Stúfur snúa aftur (1989) en þær voru báðar gefnar út af Steinum.

Þorgeir sem um árabil hafði verið kunnastur fyrir Popphorns- og Skonrokksþætti sína var skyndilega orðinn þekktur aftur sem tónlistarmaður og árið 1982 varð enn stærra í því samhengi. Tveggja laga plata með leynihljómsveitinni Valla og Víkingunum sló í gegn um vorið og hafði að geyma lögin Úti alla nóttina og Til í allt, Valli var enginn annar en Þorgeir og Víkingarnir hljómsveitin Start í dulargervi.

Það var svo um haustið 1982 sem sólóplata Þorgeirs, Á puttanum, leit dagsins ljós en það var Fálkinn sem þar var útgefandi. Á plötunni kom Þorgeir fram sem lagahöfundur en hann samdi öll lög plötunnar við texta Bjartmars Guðlaugssonar, textaskálds sem þarna var að stíga sín fyrstu skref á tónlistarferlinum. Á puttanum fékk ágætis viðtökur og titillagið naut gríðarmikilla vinsælda, reyndar sem og lagið Gamla húsið sem flutt er af Ellenu Kristjánsdóttur og fæstir hafa tengt Þorgeiri Ástvaldssyni. Bæði lögin heyrast enn spiluð. Þorgeir bar sjálfur uppi aðalrödd plötunnar en fékk til liðs við sig nokkrar söngkonur, auk áðurnefndar Ellenar komu Helga Möller, Shady Owens og Diddú við sögu á henni. Gunnar Þórðarson stjórnaði upptökum og útsetningum en upptökurnar fóru að mestu fram í London. Gagnrýnendur DV og Tímans gáfu plötunni ágæta einkunn.

Þorgeir Ástvaldsson 1982

Og framlagi Þorgeirs til tónlistarsköpunar var ekki enn lokið því á árinu 1982 kom hljómsveitin Tempó saman á nýjan leik eftir áratuga hvíld en tilefnið var fimmtíu ára afmæli Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) en blásið var til stóntónleikaveislu og herlegheitin tekin upp. Þar með komst Tempó á plast en á plötunni flytja þeir Peter & Gordon lagið True love ways.

Framan af árinu 1983 var Þorgeir áfram áberandi í íslensku tónlistarlífi, hann gaf út plötu með Magnúsi samstarfsmanni sínum Ólafssyni en hún fékk nafnið Út um hvippinn og hvappinn og var gefin út af Geimsteini Rúnars Júlíussonar en Þorgeir hafði einmitt verið sögumaður á einni ævintýraplötu Gylfa Ægissonar sem gefin var út af sömu útgáfu. Þórir Baldursson annaðist flesta þá þætti sem við átti, lék á flest hljóðfæri, útsetti, tók upp og hljóðblandaði. Þorgeir samdi nokkur laganna og kom einnig að textagerð ásamt Magnúsi og fleirum. Nokkur laganna fengu nokkra spilun í útvarpi, m.a. titillagið en einnig lög eins og Áfram með smjörið, upp með fjörið, Konni kokkur, Ég mana þig og svo gamli smellurinn Hagavagninn eftir Jónas Jónasson, sem margir hafa spreytt sig á í gegnum tíðina.

Það var svo um haustið 1983 sem Þorgeir tók til starfa á nýstofnaðri Rás 2 og þá má segja að tónlistarferli hans hafi að mestu lokið en síðan þá hefur hann að mestu helgað sig fjölmiðlastarfinu. Hann hefur þó lítillega komið við sögu á fáeinum plötum og má þar nefna harmonikkuleik á plötunni Birtir af degi, sem hafði að geyma ljóð Björns Stefáns Guðmundssonar frá Reynikeldu (1991) og á plötu Dr. Spock – Falcon Christ (2008), sömuleiðis má heyra Þorgeir syngja á nokkrum plötum, mismikið þó, en þar má nefna Sumargleðiplötuna Af einskærri sumargleði (1984), Framlögin (1990), Maggi með öllu með Magnúsi Ólafssyni (1988), og plötunum Með hangandi hendi (2005) og Lögin sem ekki mega gleymast (2008) með Ragnari Bjarnasyni. Þorgeir hefur einnig komið einstöku sinnum fram með húshljómsveit Stöðvar 2, La bella lúna end ðe lúní tjúns, sem starfað hefur frá 1987.

Eðli málsins samkvæmt hafa lög Þorgeirs ratað inn á nokkrar safnplötur í gegnum tíðina enda nutu sum þeirra vinsælda eins og fram hefur komið, má þar nefna plöturnar 100 íslensk lög í ferðalagið (2009), Í sumarsveiflu (1992), Næst á dagskrá (1982) og Óskalögin 5 (2001), auk nokkurra jólaplatna.

Efni á plötum