Óðinn G. Þórarinsson (1932-)

Óðinn G. Þórarinsson

Nafn Óðins G. Þórarssonar tónskálds og harmonikkuleikara er ekki það þekktasta í íslenskri tónlist en hann hefur samið fjöldann allan af lögum sem eru þekkt, þekktast þeirra allra er þó vafalaust lagið Nú liggur vel á mér.

Óðinn Gunnar Þórarinsson fæddist 1932 austur á Fáskrúðsfirði en flutti þrettán ára gamall með fjölskyldu sinni til Akraness en hann átti eftir að vera með annan fótinn þar og fyrir austan lungann úr ævinni. Á Skaganum hóf hann að spila á harmonikku en í fyrstu hljómsveitinni sem hann starfaði með lék hann þó á trommur í fyrstu áður en hann hóf að spila á nikkuna, sú sveit hét Fjarkinn og starfaði í Gagnfræðiskólanum á Akranesi.

Óðinn var enn á barnsaldri þegar hann var farinn að leika á harmonikku á böllum í nærsveitunum en hann gekk síðan til liðs við E.F. kvintettinn sem starfaði á Akranesi og með þeirri sveit lék hann líklega allt til 1958, það ár flutti hann aftur austur á Fáskrúðsfjörð með eiginkonu og börn, tuttugu og sex ára gamall. Hann hafði þá lítillega lært á píanó og harmonikku og átti eftir að fást við tónlistarkennslu síðar, og reyndar einnig skólastjórn tónlistarskóla bæði fyrir austan og á Skaganum en aðalstarf hans um starfsævina snerist um sjómennsku og múrverk.

Ungur fór Óðinn að semja og á sjötta áratugnum samdi hann fjölda laga sem rötuðu í dægurlagakeppnir sem m.a. voru haldnar á vegum SKT og FÍD. Hann varð þannig þekktur lagahöfundur og vann til verðlauna í nokkur skipti, t.d. hlaut hann önnur verðlaun fyrir lagið Síðasti dansinn í nýju dansa-flokknum í keppni SKT 1954, lagið Heillandi vor fékk fyrstu verðlaun í sama flokki 1955 og Nú liggur vel á mér hlaut fyrstu verðlaun einnig í keppni Félags íslenzkra dægurlagahöfunda 1958. Síðast talda lagið varð feikivinsælt í flutningi Ingibjargar Smith og er enn sungið á mannamótum en hin lögin voru sungin og gefin út á plötum með Alfreð Clausen og Ingibjörgu Þorbergs og nutu einnig þokkalegra vinsælda. Meðal annarra laga sem Óðinn samdi má nefna Blíðasti blær, Haust fyrir austan og Kominn heim. Fjölmargir söngvarar hafa spreytt sig á lögum hans í gegnum tíðina og gefið út en hann hefur samið bæði söng- og kóralög.

Eftir að Óðinn fluttist aftur austur á Fáskrúðsfjörð 1958 átti hann eftir að spila með hljómsveitunum Mánum sem var sérhæfði sig í gömlu dönsunum og síðar Góbí sem var bítlasveit en með þeirri sveit lék hann með mun yngri tónlistarmönnum. Sú sveit starfaði líklega allt til 1970.

Árið 1997 gaf austfirska sveitin Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar út plötuna Við tónanna klið: Lög Óðins G. Þórarinssonar, en hún hafði að geyma nítján lög Óðins í flutningi sveitarinnar og gesta hennar (Óðinn lék sjálfur m.a. á harmonikku), þess má geta að sonur Óðins, Árni Jóhann Óðinsson var í sveitinni. Danshljómsveit Friðjóns gerði reyndar gott betur því sveitin sendi frá sér aðra plötu með lögum Óðins árið 2019, tvöfalda safnplötu (Þá og nú: Lög Óðins G. Þórarinssonar) með þrjátíu og sjö lögum flutt af sveitinni og öðrum flytjendum, m.a. áður útgefnum lögum sungnum af Ingibjörgu Smith, Ingibjörgu Þorgbergs, Bubba Morthens o.fl. Við það tækifæri var einnig gefið út nótnahefti undir sama titli.

Á seinni árum hefur Óðinn búið á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Fáskrúðsfirði en hann hefur hin allra síðustu ár verið búsettur á Skaganum. Óðinn hefur jafnvel starfrækt hljómsveit undir eigin nafni þrátt fyrir að vera kominn á níræðis aldur.

Efni á plötum