Theódór Árnason (1889-1952)

Theódór Árnason

Theódór Árnason var framan af þekktastur fyrir fiðlufærni sína en síðar vann hann fórnfúst starf sem kórstjórnandi og söngkennari í byggðum sem fram að því höfðu ekki haft kórsönghefð.

Theódór fæddist 1889 á Akureyri en ólst að mestu upp á Seyðisfirði þar sem hann kynntist tónlistinni fyrst, þar var hann m.a. í fiðlukvartett á unglingsárunum (um 1904-06) en það var án nokkurs vafa ein fyrsta hljómsveitin sem starfaði hér á landi, og áreiðanlega ein sú allra fyrsta á landsbyggðinni.

Þegar Theódór fluttist til Reykjavíkur 1907 hóf hann að syngja með Karlakór Ungmennafélags Reykjavíkur en ekki liggur fyrir hvort hann hafði sungið eitthvað eystra.

Hann vakti þó fljótlega athygli fyrir fiðluleik sinn og hélt oftsinnis tónleika áður en hann fór utan til Kaupmannahafnar í eitt ár og síðan til Íslendingabyggða í Winnipeg í Kanada. Þar fékk hann fljótlega starf við að leika á fiðlu undir sýningum í kvikmyndahúsum, einnig stjórnaði hann þar einhvers konar hljómsveit sem hann lék einnig með. Theódór var þó fyrst og fremst í fiðlunámi ytra en hann hafði fengið einhverja leiðsögn hér heima, fyrst hjá föður sínum en síðan Oscari Johansen, sænskum tónlistarkennara sem hér starfaði um tíma. Samhliða tónlistarnáminu í Winnipeg fékkst hann einnig við tónlistarkennslu sjálfur.

Theódór kom hingað til Íslands vorið 1915 og hélt hér tónleika en var síðan alkominn heim tveim árum síðar en þá hafði hann verið í Kaupmannahöfn í nokkra mánuði aftur.

Hingað kominn fékkst Theódór ekki jafn mikið við fiðluleik og hann hafði sjálfur reiknað með enda var ekki mikið að gera á Íslandi fyrir fiðluleikara við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri. Hann gerði þó tilraun til að stofna fjórtán manna hljómsveit með strengja- og blásturshljóðfæraleikurum en sú tilraun virðist hafa mistekist.

Theódór Árnason

Þess í stað fór hann að starfa á allt öðrum vettvangi, hann starfrækti um tíma bóka- og ritfangaverslun í Reykjavík en fékkst einnig nokkuð við þýðingar og greinaskrif en hann var vel ritfær og reit fjölmargar bækur, þeirra á meðal var bókin Tónsnillingar sem innihélt greinar sem Theódór hafði ritað um ýmis þekkt tónskáld í tímaritinu Fálkanum. Meðal þýðinga hans má nefna Grimms ævintýri I-V en einnig þýddi hann höfunda eins og Charles Dickens.

Theódór var alls ekki hættur að leika á fiðluna þótt hún væri ekki aðalstarf hans, en hann lék reglulega á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu.

Það var síðan um og eftir 1930 sem hálfgerð skil urðu á lífi Theódórs en hann fluttist þá austur í Fljótsdal og hóf þar að kenna söng og orgelleik við Húsmæðraskólann í Hallormsstað auk þess að stjórna Bændakór Fljótsdæla og blönduðum kór einnig í sveitinni.

Theódór var um tveggja ára skeið fyrir austan en 1934 fluttist hann til Ólafsfjarðar og sinnti þar svipuðu hlutverki, kenndi söng og stofnaði sönghóp sem gekk fyrst undir nafninu Kátir piltar en varð síðan að Karlakór Ólafsfjarðar en honum stjórnaði Theódór í um þrjú ár. Einnig stjórnaði hann blönduðum kór á staðnum.

Hann kom við á fleiri stöðum á fjórða áratugnum, hann var á Flateyri og stjórnaði þar Karlakórnum Örnum en fór síðan suður til Akraness þar sem hann var líklega fram á miðjan fimmta áratuginn, stýrði þar karlakórnum Svönum og blönduðum kór.

Enginn vafi liggur á því að starf það sem Theódór innti af hendi á þessum landsbyggðarstöðum varð til að efla sönglífið á þeim enda hafði það verið fábreytilegt fram að því, þetta var því merkilegt frumkvöðlastarf sem hann vann fyrir litlar tekjur. Það þarf varla að taka fram að hann kenndi einnig á fiðlu á þessum stöðum og meðal nema hans má nefna Sigursvein D. Kristinsson. Með greinaskrifum sínum og ritun bóka kynnti Theódór landsmönnum einnig tónlist sem og í gegnum útgáfu nótnabóka sem hann stóð fyrir. Þá má ekki gleyma félagsstörfum hans fyrir tónlistarfólk en hann var fyrsti ritari FÍH.

Theódór fluttist aftur til Reykjavíkur þar sem hann bjó síðustu æviárin en hann lést 1952 á sextugasta og þriðja aldursári.