Afmælisbörn 7. desember 2017

Jórunn Viðar

Tónlistartengd afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú í þetta skipti:

Jórunn Viðar tónskáld hefði orðið níutíu og níu ára gömul í dag en hún lést fyrr á þessu ári. Jórunn nam tónsmíðar í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Austurríki á sínum tíma og samdi fjöldann allan af þekktum lögum s.s. Það á að gefa börnum brauð, Kall sat undir kletti og tónverkið Únglíngurinn í skóginum. Jórunn samdi aukinheldur tónlist fyrir kvikmyndir og ballett, og var reyndar brautryðjandi í því hér á landi. Hún hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003.

Elín (Matthíasdóttir) Laxdal söngkona og tónskáld (1883-1918) átti einnig afmæli á þessum degi. Elín nam söng í Kaupmannahöfn og var þekkt söngkona á sínum tíma en hún var einnig framarlega í félagsmálum kvenna og var meðal annars ein af stofnendum kvenfélagsins Hringins.

Eiríkur (Bjarnason) á Bóli harmonikkuleikari (1909-81) hafði ennfremur þennan afmælisdag, hann var blindur en lét það ekki koma í veg fyrir spilamennsku á böllum í gamla daga en hann fór víða um Suðurland í því skyni.