Thor’s hammer (1965-68)

Thor’s hammer

Hljómsveitin Hljómar, ein vinsælasta hljómsveit allra tíma á Íslandi og sú allra vinsælasta á tímum bítla og hippa, reyndi fyrir sér í útlöndum undir meiknafninu Thor‘s hammer, hafði ekki erindi sem erfiði og sneri aftur á heimaslóðir reynslunni ríkari. Sveitin gaf þó út nokkrar smáskífur undir því nafni og hefur á síðustu árum öðlast þá viðurkenningu sem hún leitaði eftir á síðari hluta sjöunda áratugarins.

Hljómar voru vinsælasta sveit landsins haustið 1965 enda höfðu þeir félagar slegið í gegn sem fyrsta alvöru bítlasveitin hérlendis. Nokkrar mannabreytingar höfðu orðið á sveitinni frá upphafsárum hennar og þegar hér var komið sögu voru meðlimir hennar Gunnar Þórðarson gítarleikari og lagahöfundur, Erlingur Björnsson gítarleikari, Rúnar Júlíusson söngvari og bassaleikari og Pétur Östlund trommuleikari sem þá hafði nýverið tekið af Engilbert Jensen.

Hljómar voru meðhöndlaðir sem hinir íslensku bítlar og frægð þeirra hafði náð hæðum sem ekki hafði áður þekkst hér á landi, þeir höfðu gefið út tvær smáskífur og voru á toppi tilverunnar á allan hátt sem ungir íslenskir tónlistarmenn gátu verið. Þeir höfðu einnig fengið forsmekkinn af lífinu í bítlaborginni Liverpool þegar þeir léku þar í Cavern klúbbnum, þeim sama og The Beatles höfðu upphaflega slegið í gegn í, og fengið forsmekkinn af smá útlendri frægð í þeirri heimsókn.

Það var þó líklega aldrei yfirlýst markmið Hljóma að slá í gegn erlendis en þegar Dan Stevens, félagi þeirra af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, kom þeim í samband við EMI í Bretlandi og gerðist umboðsmaður þeirra utan Íslands fóru hjólin að snúast. Haraldur Ólafsson hjá Fálkanum hjálpaði þeim einnig í samskiptum við Bretana og kostaði þá til utanfarar þegar Svavar Gests, sem hafði gefið út smáskífurnar tvær, treysti sér ekki í það stóra verkefni.

Þeir félagar fengu boð um að koma til höfuðstöðvar EMI í London í lok nóvember 1965, þar hittu þeir einhverja ráðamenn útgáfufyrirtækisins sem buðu þeim plötusamning og strax í kjölfarið voru tekin upp níu lög í Lansdowne hljóðverinu, það voru lög eftir Gunnar Þórðarson við enska texta Péturs Östlund.

Thor’s hammer með eintök af fyrstu smáskífunni

Lögin voru nokkuð frábrugðin þeim sem voru á smáskífunum tveim, hrárri og líkara því sem bítlasveitir erlendis höfðu verið að gera. Á þeim tíma hafði Gunnar eignast svokallað Fuzz-box sem bjagaði gítarhljóminn en hann mun hafa verið einn sá fyrsti sem tileinkaði sér þá tækni í tónlistinni.

Mikið var látið með þennan útgáfusamning hér heima og meikið sem var framundan, og má segja að fjölmiðlar hafi farið vel fram úr sér með frásögnum af verðandi heimsfrægð kappanna. Sjálfir voru þeir félagar ekki til að draga úr væntingum með orðfæri sínu í viðtölum og einhvern veginn lá ljóst fyrir að hinir íslensku Hljómar yrðu heimsfrægir innan fáeinna mánaða.

Það var Pétur trommuleikari sem stakk upp á nafninu Thor‘s hammer og var það samþykkt þrátt fyrir að aðalsprauta sveitarinnar, Gunnar Þórðar væri ekki alls kostar sáttur við nafngiftina – og varð reyndar aldrei.

Það var svo í mars 1966 sem smáskífan A memory / Once kom út á vegum Parlophone merkisins hjá EMI, fyrst á Íslandi en fáeinum dögum síðar í Bretlandi. Þá hafði verið gert opinbert að kvikmynd um hljómsveitina væri í burðarliðnum og yrði frumsýnd fljótlega eftir útgáfu smáskífunnar. Þeir félagar stóðu í þeirri meiningu að fjörutíu mínútna mynd um þá væri í bígerð sem átti skila þeim milljónum en þeir kostuðu gerð hennar að langmestu leyti sjálfir, myndin sem fékk nafnið Umbarumabamba var tekin á nokkrum sveitaböllum á Suðurlandi undir leikstjórn og framleiðslu Reynis Oddssonar og var hennar beðið með mikilli eftirvæntingu.

Framleiðslu Umbarumbamba og útgáfu seinkaði þó aftur og aftur þegar hún var loks frumsýnd í Keflavík um miðjan júní 1966 urðu vonbrigðin mikil en hún var þá aðeins um þrettán mínútna löng, illskiljanleg og illa gerð í alla staði. Svo fór að hún var sýnd sem aukamynd í fáein skipti í kvikmyndahúsum en hefur vart sést síðan, aðeins var gert eitt eintak af myndinni og það „týndist“ en fannst mörgum árum síðar í fórum leikstjórans Reynis, sem þá hafði varðveitt hana öll þessi ár. Hljómsveitin stórtapaði því fjárhagslega á þessu kvikmyndaævintýri sínu og orðspor þeirra beið aukinheldur álitshnekki.

Thor’s hammer eins og teiknari sá þá 1965

Thor‘s hammer héldu þó sínu striki og um svipað leyti og Umbarumbamba var frumsýnd kom út tvöfalt smáskífualbúm sem einnig bar titilinn Umbarumbamba. Plöturnar tvær höfðu að geyma sex lög og þar var m.a. að finna lagið If you knew, sem áður hafði komið út á fjögurra laga plötu Hljóma undir nafninu Ertu með. Hin lögin fimm höfðu ekki komið út áður en þeirra á meðal lagið I don‘t care sem Erlingur gítarleikari söng.

Sem von var mikið tilstand í kringum útgáfu plötunnar og sveitina almennt en fjölmiðlar fóru sem fyrr mikinn í umfjöllun sinni. Í þeim var talað um að sveitin færi brátt í tónleikaferð um Bandaríkin sem verið var að skipuleggja, þá var Ríkissjónvarpið að taka til starfa um haustið og gera átti kynningarþátt um sveitina áður en þeir færu á vit ævintýranna. Aldrei varð hins vegar af þessari Bandaríkjaferð og fæst gekk reyndar Thor‘s hammer í vil í þessum meiktilraunum sínum, platan gekk illa í Bretlandi og seldist illa svo áhugi EMI fór snarminnkandi og ekki varð meira úr plötuútgáfu þar í landi.

Vonbrigðin urðu nokkur þegar draumurinn um frægð í Bretlandi dó en það hafði einnig áhrif á móralinn innan sveitarinnar og svo fór að Pétur trommuleikari hætti seint á árinu 1966 og Engilbert Jensen tók aftur við gamla starfinu sem trymbill og söngvari. Thor‘s hammer tók aftur upp gamla Hljómanafnið, tók sér pásu um tveggja mánaða skeið og ákvað að herja síðan á Íslandsmarkaðinn en fljótlega eftir áramótin bárust hins vegar þær fréttir að sveitinni hefði boðist plötusamningur við CBS Columbia í Bandaríkjunum í gegnum vin þeirra af Vellinum. Úr varð að Gunnar flaug vestur um haf og tók upp þrjú lög ásamt bandarískum session leikurum, og þeir Gunnar, Rúnar og Engilbert fóru síðan til London þar sem þeir sungu inn á upptökurnar.

Á þessum tímapunkti fór orðið mesta púðrið aftur í Hljómar fremur en Thor‘s hammer, og sveitin fór að vinna að sinni fyrstu breiðskífu en hún var tekin upp í London og síðan gefin út af SG-hljómplötum haustið 1967. Þar var í raun um að ræða skref afturábak tónlistarlega séð þar sem tónlist Hljóma var alls annars eðlis en Thor‘s hammer, tónlistin á stóru plötunni var það sem mætti skilgreina sem nokkuð gamaldags og að hluta til ábreiður af erlendum lög á meðan Thor‘s hammers tónlistin var hrárri og meira í ætt bítlanna sjálfra og á ensku þar að auki.

Platan sló hins vegar í gegn hér heima og Hljómar endurheimtu fyrri frægð og virðingu sem þeir höfðu að nokkru leyti glatað á meðan meiktilraunir stóðu yfir.

Thor’s hammer

Tveggja laga smáskífan (Show me you like me / Stay) kom út í Ameríku um svipað leyti og stóra platan kom út hér heima en mun ekki hafa gert neinar rósir, einhverjar sögur bárust af því að hún hefði ýmist náð sjötta eða sextánda sæti á vinsældalista vestra en þegar málið var kannað betur var um að ræða lista einhverrar útvarpsstöðvar í Michigan.

Snemma árs 1968 tók Þráinn Kristjánsson við umboðsmennsku Hljóma og notaði tengsl sem hann hafði í Skandinavíu til að keyra á þann markað, en sveitin var þá bókuð á tónlistarhátíð í Svíþjóð, Pop festival, þar sem hún kom fram í mars undir Thor‘s hammer nafninu. Guðlaugur Bergmann, sem þá starfrækti tískuvöruverslunina Karnabæ sá um að klæða hljómsveitina í gæruskinnsvesti og skinnskó og þannig múnderuð steig hún á svið. Ennfremur blönduðu þeir Thor‘s hammer-liðar tónlist sína rímnastefjum og íhuguðu jafnvel að notast við langspil á hátíðinni en af því síðarnefnda varð þó ekki.

Þegar heim var komið héldu þeir félagar sínu striki áfram sem Hljómar en Thor‘s hammer var þó ekki alveg dauð úr öllum æðum, eða öllu heldur draumurinn um heimsfrægð Thor‘s hammer, því þegar Ameríkani sem þeir félagar þekktu af Vellinum og var að ljúka herskyldu, bauð þeim um sumarið 1968 í þriggja mánaða tónleikatúr um Bandaríkin var enn og aftur blásið í herlúðra.

Tvær stjörnur úr íslensku popplífi voru því sjanghæjaðar í Thor‘s hammer sveitina í því skyni að styrkja hana fyrir túrinn, það voru Gunnar Jökull Hákonarson trommari úr Flowers og ung söngkona sem var farin að vekja athygli með Óðmönnum, Shady Owens. Þegar í ljós kom að ekkert yrði úr fyrirhuguðum Ameríkutúr þar sem ekkert heyrðist meira af félaganum af Vellinum, hætti Jökullinn við að ganga til liðs við sveitina en Shady Owens ílengtist í Hljómum enda höfðu Óðmenn hætt störfum þegar þeir misstu söngkonuna sína.

Þar með fór síðasta tækifæri Hljóma / Thor‘s hammer til að slá í gegn á erlendri grundu og sú tilraun endaði nokkuð sneypulega fyrir sveitina að öllu leyti. Hljómar einbeittu sér hins vegar nú að heimaslóðum á norðurhjaranum og gleymdu öllu meikbrölti í útlöndum enda hafði það engu skilað nema vonbrigðum og löskuðu orðspori. Önnur stór plata kom út í kjölfarið, með Shady innanborðs og sveitin endurheimti svo um munaði toppsætið í íslensku popplífi.

Thor’s hammer með Gunnari Jökli og Shady Owens innan borðs

Meiktilraunir Thor‘s hammer gleymdust smám saman og sjálfir voru Hljómar ekkert endilega að halda þeim á lofti sjálfir, helst var að poppfræðingar seinni tíma rifjuðu málið upp en tónlist Thor‘s hammer var þó síður en svo gleymd.

Spor sendi árið 1997 frá sér ferilsafnplötuna Umbarumbamba… and more en hún innihélt öll lögin sem Thor‘s hammer hafði tekið upp, auk nokkurra laga með Hljómum til uppfyllingar. Og 2001 kom út svipuð plata á vegum bandarísku plötuútgáfunnar Ace records en hún hlaut titilinn Thor‘s hammer from Keflavík …with love.

Um svipað leyti (ártal óskráð en hugsanlega árið 1999) kom út sjóræningjaútgáfa með lögum Thor‘s hammer í formi fjögurra laga vínylplötu en sú plata hét einfaldlega Umbarumbamba. Skráð útgáfa plötunnar var Zönophone records en ekki var vandað sérlega til verka fremur en á öðrum sambærilegum og ólöglegum útgáfum, til að mynda var myndin á framhlið umslagsins af sænsku hljómsveitinni The Friends, sem starfaði um miðjan sjöunda áratuginn líkt og Thor‘s hammer.

Að síðustu er hér nefnd ferilsafnplatan If you knew: Icelandic punk & beat ´65-´67! sem gefin var út í Kanada árið 2013 af Ugly pop records en með þeirri útgáfu var sveitinni gert nokkuð hátt undir höfði, hundrað eintök af plötunni voru t.a.m. pressuð á hvítan vínyl. Í framhaldi af því má nefna að Thor‘s hammer er orðið töluvert þekkt nafn meðal tónlistaráhugamanna sem sérhæfa sig í early-beatmusic og allrahanda sýrurokki, plötur þeirra eru orðnar eftirsóttar og sjaldséð eintök af tvöfalda smáskífualbúminu Umbarumbamba fara kaupum og sölum dýrum dómum milli safnara, sem og reyndar flestar smáskífur sveitarinnar.

Þá hafa lög með sveitinni komið út á öðrum safnplötum innanlands sem erlendis, þar má nefna Nuggets II (2001), Mind blowers 17 (2008), Diggin‘ for gold Volume 1 (1997), Maximum freakbeat (1998), Earthshakers Volume 1 (2002), Rokkland 2007 (2008) og Bítlabærinn Keflavík (1998).

Að endingu er hér nefnt að í Chicago hefur verið starfandi hljómsveit, Spectors, sem haft hefur lög Thor‘s hammer á prógrammi sínu og má m.a.s. sjá myndskeið af þeirri sveit taka lagið My life á Youtube-vefnum.

Efni á plötum