Thule records [útgáfufyrirtæki] (1995-)

Thule records, einnig nefnt Thule musik, er útgáfufyrirtæki sem hefur sérhæft sig í jaðartónlist af ýmsu tagi.

Thule records var stofnuð 1995 en stofnandi þess og eigandi er Þórhallur Skúlason, sem fengist hefur við raftónlist um árabil. TMT entertainment er undirútgáfa Thule.

Útgáfan hefur fyrst og fremst verið vettvangur fyrir ýmsa raftónlist, ambient- techno- og tilraunatónlist en hún hefur einnig gefið út annars konar tónlist í neðanjarðarsenunni. Aðal markaður útgáfunnar var framan í Þýskalandi en Thule hefur gefið út og dreift tónlist sinni víða um heim s.s. í Noregi, Bretlandi og víðar, auk Íslands.

Tugir platna hafa komið út á vegum fyrirtækisins, sem var öflugast á fyrstu starfsárum þess og til ársins 2002 en þá lagðist útgáfan í dvala, hún hefur þó aftur komið inn á síðustu árum með endurútgáfum og breyttu fyrirkomulagi en útgáfan hefur að mestu færst yfir á veraldarvefinn, þó hefur vinylútgáfan færst aftur í vöxt en slík útgáfa var aðalvettvangur útgáfunnar fyrrum.

Meðal listamanna sem Thule records hefur gefið út má nefna Cold, Exos, Sanasol, Ozzy, Hugh Jazz, Kanada, múm og Ampop, svo einungis fáein nöfn séu nefnd.