Tónhornið (1996-2003)

Tónhornið

Tónhornið var hvort tveggja í senn, horn í menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Breiðholtinu og hljómsveit kennd við staðinn.

Það mun hafa verið 1996 sem tónlistartengdar uppákomur voru fyrst settar upp í hinu svokallaða Tónhorni í Gerðubergi, það voru skemmtanir af ýmsu tagi hugsaðar fyrir eldri borgarana í hverfinu. Fljótlega varð þarna fastur kjarni hress tónlistarfólks í eldri kantinum sem farinn var að leika fyrir gesti og hlaut þá sá hópur einnig nafnið Tónhornið.

Þessi hópur eða hljómsveit var nokkuð misjafn að stærð hverju sinni en oftast nær voru þarna Steingrímur I. Júlíusson harmonikkuleikari, Benedikt Egilsson harmonikkuleikari, Ingibjörg Sveinsdóttir trommuleikari, Þorgrímur Kristmannsson munnhörpuleikari, Einar Magnússon munnhörpuleikari og Unnur Eyfells píanóleikari, nöfn annarra eru ekki kunn.

Fyrst um sinn lék Tónhornið einvörðungu á heimavelli ef svo má segja en síðar fór hópurinn víða um höfuðborgarsvæðið og lék fyrir dansi og söng, stundum ásamt Gerðurbergskórnum, fyrir eldri borgara.

Tónhornið starfaði í nokkur ár en uppákomum fór fækkandi eftir aldamótin enda var stór hluti sveitarinnar einnig viðloðandi hljómsveitina Vinabandið (sem gaf út plötu árið 2000), hópurinn hætti síðan störfum haustið 2003.