Vinabandið [2] (1996-2013)

Vinabandið

Hljómsveitin Vinabandið starfaði í Breiðholti um fjöllangt skeið um og eftir aldamót og skemmti eldri borgurum og öðrum víða um Reykjavík og nágrenni með gömlum slögurum úr ýmsum áttum, meðlimir voru allir í eldri kantinum á sjötugs- og áttræðisaldri.

Vinabandið mun hafa byrjað í kringum starf eldri borgara í Gerðubergi líklega árið 1996 en sveitin var tengd öðru tónlistarverkefni þar, Tónhorninu. Einnig voru einhverjir meðlima sveitarinnar í Gerðubergskórnum. Til að byrja með æfði sveitin í Gerðubergi en flutti sig svo yfir á heimili hjónanna Arngríms Marteinssonar og Ingibjargar Sveinsdóttur sem voru meðlimir sveitarinnar, Arngrímur lék á harmonikku og píanó en Ingibjörg á trommur. Aðrir meðlimir Vinabandsins voru Sigmundur I. Júlíusson harmonikkuleikari, Jón Þór Guðmundsson bassaleikari, Þorgrímur Kristmundsson munnhörpuleikari, Unnur Eyfells söngkona, Jón Hilmar Gunnarsson söngvari, Einar Magnússon söngvari og Guðrún S. Kristjánsdóttir söngkona. Síðar komu við sögu sveitarinnar Haraldur Hjálmarsson og e.t.v. fleiri en ekki liggja fyrir upplýsingar um það.

Vinabandið kom margsinnis fram opinberlega í Gerðubergi, lék t.a.m. oft við opnun myndlistasýninga en einnig á dansleikjum fyrir eldri borgara bæði í Breiðholtinu og víðar um höfuðborgarsvæðið, jafnvel í nágrannabyggðalögunum – þegar mest var lék sveitin þrisvar til fimm sinnum í viku. Þegar Jón Ólafsson tónlistarmaður sá sveitina leika í sjónvarpsþætti setti hann sig í samband við hana og óskaði eftir að fá að taka herlegheitin upp en hann heillaðist af einlægninni í tónlistinni og félagsskapnum. Hann mætti svo við annan mann upp í Breiðholt og tók upp plötuna Heima í stofu sem kom út haustið 2000 á vegum útgáfufyrirtækis hans, Eyrans.

Platan hlaut lofsamlega dóma hjá Arnari Eggert Thoroddsen í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Meira pönk“, þar segir m.a.: „Tón- og fagurfræði víkur fyrir heillandi manneskjulegheitum. Hér ríða hetjur um stofur. Þegar bandið hellir sér af alefli í slagara eins og „Blítt og létt“ og „Anna í Hlíð“ verður maðu einfaldlega varnarlaus. Yndislegt.“

Vinabandið starfaði allt til ársins 2013 í einhverri mynd, eitthvað var skipan sveitarinnar misjöfn sem telst eðlilegt þar sem meðlimir hennar voru komnir af léttasta skeiðinu, þótt ungir væru í anda og fullir spilaorku.

Efni á plötum