Tónlistarsamband alþýðu [félagsskapur] (1976-)

Tónlistarsamband alþýðu (einnig skammstafað TÓNAL eða TÓN. AL.) eru eins og nafnið gefur til kynna hagsmunasamtök sem snúa að alþýðutónlist, sambandið er aðili að norrænu samstarfi í því samhengi (Nordiska arbetarsangar- och musikerforbundet) og hefur tekið þátt í norrænum mannamótum þ.a.l. hér heima og annars staðar á Norðurlöndunum.

TÓNAL var stofnað haustið 1976 af Lúðrasveit verkalýðsins, Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Kór Trésmiðafélags Reykjavíkur en síðan þá hefur fjöldi kóra og annarra hópa gerst aðili að samtökunum, sumir um skamman tíma en aðrir lengur. Meðal annarra má nefna Álafosskórinn, Reykjalundarkórinn, Söngfélaga SVR, Hreyfilskórinn, UMFÍ kórinn, Landsbankakórinn, Grundartangakórinn og RARIK kórinn svo einhverjir séu nefndir.

Sambandið hefur að markmiði að efla áhuga fólks á tónlist og iðkun hennar, hvetja til þátttöku í tónlistarstarfi með stofnun kóra og hljómsveita og vinna að auðugra menningarlífi og félagslegum þroska, sambandið hefur staðið fyrir tónleika- og námskeiðahaldi auk þess sem það gaf út safnplötuna Tónaltóna árið 1990. Torfi Karl Antonsson var lengi formaður TÓNAL.

Eftir því sem næst verður komist er Tónlistarsamband alþýðu enn starfandi.

Efni á plötum