Andlát – Jóhann Jóhannsson (1969-2018)

Jóhann Jóhannsson

Tónlistarmaðurinn Jóhann (Gunnar) Jóhannsson er látinn, á fertugasta og níunda aldursári sínu.

Jóhann fæddist 19. september 1969 í Reykjavík, hann fékk snemma áhuga á tónlistariðkun og vakti fyrst athygli með undergroundsveitinni Daisy hill puppy farm. Fleiri sveitir sigldu í kjölfarið s.s. Ham, Unun, Apparat organ quartet og Lhooq en einnig minna þekktar sveitir eins og Ekta, Funktraße, Big band brutal, Íslenski hljóðmúrinn, Karanova, Evil Madness, Staff of NTOV og DIP.

Með sumum ofantaldra sveita hneigðist Jóhann til tilraunamennsku í tónlistarsköpun sinni, hann varð einn þeirra sem komu að Tilraunaeldhúsinu og þegar hann hóf sólóferil upp úr aldamótum fór hann ótroðnar slóðir í þeim efnum, blandaði gjarnan saman klassískum hefðum við elektróník.

Jóhann byrjaði að vinna tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir hér heima og má nefna leikritið Englabörn í því samhengi (2001) en plata kom út með tónlistinni úr því og telst hún vera fyrsta sólóplata hans, þá annaðist hann tónlistarþáttinn einnig í kvikmyndum eins og Dís, Englabörnum, Manni eins og ég, Strákunum okkar, Íslenska drauminum o.fl. Þá vöktu margar sólóplötur Jóhanns athygli og má þeirra á meðal nefna tvöfalda albúmið Virðulegir forsetar (2004), IBM 1401: a user‘s manual (2006), Fordlândia (2008) og Orphée (2016).

Jóhann Jóhannsson

Jóhann var fjölhæfur tónlistarmaður, hann var allt í senn hljóðfæraleikari, upptöku- og hljóðvinnslumaður, tónskáld og útsetjari, og nutu margir krafta hans hér heima, hann vann t.a.m. með tónlistarfólki eins og Páli Óskari, Heiðu Eiríksdóttur, Hildi Guðnadóttur, Möggu Stínu, Olympiu (Sigurjóni Kjartanssyni), Sigga Ármanni, Skúla Sverrissyni, Tenu Palmer, Védísi Hervör og Emilíönu Torrini, auk hljómsveita eins og Bang Gang, Singapore Sling og Caput-hópnum.

Starfsvettvangur Jóhanns færðist smám saman til útlanda og hann fann sér farveg í kvikmyndatónlist hvar hann ávann sér virðingu og verkefni, og síðast liðinn áratug samdi hann tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir og heimildamyndir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Sicario, The theory of everything, Prisoners, Arrival, Free the mind og The miner‘s hymns eru meðal mynda sem hann starfaði við. Nú fyrir fáeinum vikum kom út tónlistin úr kvikmyndinni The Mercy en það var síðasta myndin sem hann vann að. Jóhann bjó og starfaði í Berlín þegar hann lést.

Jóhann vann til fjölda verðlauna fyrir tónlist sína, m.a. Golden horse verðlaunin fyrir tónlist myndarinnar Mystery (2012) og Golden globe verðlaunin fyrir tónlistina í The Theory of everything (2015), þá hlaut hann nokkrar Grammy-, Bafta- og Óskar-tilnefninga fyrir framlag sitt til kvikmyndatónlistar. Jóhann vann ennfremur til nokkurra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum, þeirra á meðal má nefna plötu ársins 2008 (Fordlândia) og 2015 (The theory of everything), og titilinn upptökustjóri ársins 2015.