
Unun
Hljómsveitin Unun var ein af þeim sveitum sem var grátlega nálægt því að „meika það“ á erlendum vettvangi, óheppni var þó líklega stærst ástæða þess að ekkert varð úr.
Unun var til upp úr samstarfi þeirra Gunnars L. Hjálmarssonar (dr. Gunna) og Þórs Eldon en báðir voru þrautreyndir í íslensku tónlistarlífi þegar hér var komið sögu haustið 1993, Gunnar með sveitum á borð við S.h. draumi og Bless en Þór með Sykurmolunum og fleiri sveitum.
Gunnar og Þór fóru að vinna tónlist saman og fljótlega ákváðu þeir að fá söngkonu til liðs sig, tvær söngkonur spreyttu sig með sveitinni áður en endanleg niðurstaða fékkst og önnur þeirra, Kristín Jónsdóttir (síðar jarðskjálftafræðingur) syngur reyndar í fyrsta laginu sem sveitin sendi frá sér. Það var lagið Hann mun aldrei gleym‘enni og kom út á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld, vorið 1994 (og á plötu Rúnars Júlíussonar, G hliðinni, ári síðar). Söngurinn í laginu var reyndar að mestu leyti í höndum Rúnars sem tók vel í bón þeirra um að syngja það, öfugt við Hallbjörn Hjartarson sem afþakkaði boðið – sagðist fremur syngja lög sem honum fyndist skemmtileg.
Hann mun aldrei gleym‘enni sló rækilega í gegn sumarið 1994 og vakti þannig athygli á sveitinni. Lagið, þjóðlagakennt kántrípopp, var þó á engan hátt einkennandi fyrir þá tónlist sem sveitin átti síðar eftir að senda frá sér.
Ekki varð framhald á samstarfi þeirra Gunnars og Þórs við Kristínu en tónlistin (og textarnir) sem þeir félagar voru að vinna var samin sérstaklega með kvenrödd í huga enda gátu þeir ekki hugsað sér að syngja sjálfir. Það var ekki fyrr en þeir duttu niður á hina keflvísku Ragnheiði Eiríksdóttur (Heiðu) um sumarið 1994 að bandið small saman fyrir alvöru.

Unun 1994
Á þessum tímapunkti var sveitin að vinna sína fyrstu breiðskífu en hún kom síðan út á vegum Smekkleysu um haustið. Á plötunni, sem fékk titilinn Æ, naut þríeykið fulltingis Jóhanns Jóhannssonar hljómborðsleikara og forritara (síðar kvikmyndatónskáld) sem jafnframt annaðist upptökustjórn ásamt Eyþóri Arnalds, og trommuleikaranna Arnars Geirs Ómarssonar og Sigtryggs Baldurssonar en sjálfir léku þeir Gunnar og Þór á bassa og gítar. Auk þess að syngja lék Heiða einnig á gítar í Unun.
Tónlistin á plötunni var eins konar melódískt pönkað popp og féll strax í góðan jarðveg hlustenda, lög eins og Ást í viðlögum, Ég sé rautt og þó sérstaklega Lög unga fólsins slógu í gegn og platan fékk góða gagnrýni poppskríbenta, mjög góða dóma í Helgarpóstinum, Morgunblaðinu og Degi og ágæta í DV. Æ var aukinheldur kjörin plata ársins hjá miðlum eins og DV og Degi, hún vann ennfremur titilinn poppplata ársins 1994 í uppgjöri Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þótt ótrúlegt sem það kann að hljóma seldist platan þó ekkert sérlega vel.
Unun fylgdi Æ eftir með linnulítilli spilamennsku og þau fengu til liðs við sig trommuleikarann Ólaf Björn Ólafsson (ÓBÓ) auk þess sem Jóhann lék áfram með sveitinni þannig að Unun var þarna orðin fimm manna band sem fór mikinn á tónleika- og ballmarkaðnum næstu mánuðina. Sveitaböll voru ekki beinlínis sú leið sem þetta tónlistarfólk var vant að fara og í blaðaviðtölum við sveitarmeðlimi má lesa nokkurn pirring út í þann markað. Svo fór jafnvel að Unun lék tónlist sína í sjónvarpsþáttum á borð við Bingó lottóið og Á tali hjá Hemma Gunn en Dr. Gunni hafði skömmu áður haft uppi fremur neikvæð orð um síðarnefnda þáttinn á opinberum vettvangi.
Í lok ársins 1994 spurðist út að áhugi væri hjá bresku útgáfunni One little indian fyrir að gefa plötuna út fyrir erlendan markað. Þeir Ununar-liðar hófust þá handa við að vinna enskar útgáfur af lögunum og þótt að ekkert yrði af samningum við OLI var boltinn farinn að rúlla og fleiri möguleikar áttu eftir að koma upp á yfirborðið í kjölfarið.

Unun í lyftu
Svo fór að Bad taste, undirmerki Smekkleysu gaf Æ út undir titlinum Super shiny dreams í Bandaríkjnum og í Evrópu. Reyndar gekk eitthvað illa að koma plötunni út í Bandaríkjunum þar sem kynning á plötunni fór fyrir ofan garð og neðan, og lyktaði þeim málum með að platan var þar gefin út þrívegis, hún hlaut ágætar viðtökur ytra. Enska útgáfan var örlítið frábrugðin þeirri íslensku að því leyti að á henni var aukalagið Far, sem kom út um þetta leyti á safnplötunni Ís með dýfu, undir titlinum Ýkt döpur. Bad taste útgáfan dreifði ennfremur fjögurra laga promo-snældu í þúsund eintökum til kynningar á sveitinni.
Árið 1995 var stærsta ár Ununar, sveitin kom að tónlist tveggja íslenskra kvikmynda sem frumsýndar voru á árinu, Einkalíf og Ein stór fjölskylda, og átti reyndar stóran hluta af tónlist fyrrnefndu myndarinnar. Unun túraði um landið þvert og endilangt um sumarið, lék ennfremur á Rykkrokk, árlegum tónleikum við Fellahelli og á UXA 95, stórri tónlistarhátíð sem haldin var við Kirkjubæjarklaustur um verslunarmannahelgina. Minnstu munaði að dr. Gunni næði ekki að spila með sveitinni eystra en hann hafði ekki fundist um morguninn þegar hljómsveitarrútan lagði af stað úr Reykjavík og var því skilinn eftir. Þegar hann loks vaknaði eftir djamm næturinnar þurfti hann að punga út fyrir leigubíl austur í Skaftafellssýslu, sem kostaði skildinginn.
Á UXA-hátíðinni frumflutti Unun m.a. lagið Ástin dugir sem sveitin flutti ásamt Páli Óskari Hjálmtýssyni en Páll Óskar átti eftir að koma nokkrum sinnum fram með bandinu. Lagið sló í gegn og kom út ásamt öðru lagi á safnplötunni H-spenna.
Um þetta leyti bárust þær fréttir að Ólafur trommuleikari og Jóhann hljómborðsleikari væru að hætta í sveitinni og myndu ekki fara með til Evrópu og Bandaríkjanna í tónleikatúra sem þá stóðu fyrir dyrum. Svo fór að Valgeir Sigurðsson og Matthías M.D. Hemstock leystu Jóhann og Ólaf af hólmi en Evróputúrinn stóð í nokkrar vikur frá september og fram í nóvember, einnig lék Margrét Örnólfsdóttir hljómborðsleikari stundum með sveitinni.

Hljómsveitin Unun 1996
Að Evróputúr loknum tók Unun smá pásu áður en haldið skyldi til Bretlands í janúar m.a. til að hita upp fyrir Björk, í millitíðinni (um áramótin 1995-96) náði dr. Gunni að brjóta á sér ökklann og því spilaði hann sitjandi í gifsi fyrstu vikur ársins 1996.
Lítið gerðist fréttnæmt framan af ári hjá sveitinni en um sumarið bárust þær fréttir að hún hefði gert útgáfusamning við breskt fyrirtæki, Go! Discs, undirfyrirtæki Polygram. Reyndar varð bið á að samningurinn yrði undirritaður og svo fór að útgáfufyrirtækið leystist upp þegar stærra fyrirtæki keypti það upp og þar með var úti um samninginn. Slíkt getur vart flokkast undir annað en óheppni.
Þær mannabreytingar urðu í Unun þetta sama sumar að Birgir Baldursson tók við trommuleiknum af Matthíasi, sveitin lék lítið innanlands þetta árið en eitthvað erlendis þó.
Ein smáskífa kom út með sveitinni í Evrópu á vegum Bad taste / Smekkleysu, lagið I see red / Ég sé rautt af Æ en einnig átti sveitin lög á safnplötunni Ávextir: blandaðir flytjendur.
Það var ekki fyrr en um vorið 1997 að eitthvað fór að kveða að sveitinni á nýjan leik en útgáfumálin höfðu þá verið í biðstöðu í langan tíma. Um sumarið gerði Unun samning við breska útgáfufyrirtækið Deceptive og fóru kynningarmál í fullan gang á nýjan leik, sveitin lék m.a. á Hróarskeldu-hátíðinni í Danmörku en hún hafði einnig um vorið hitað upp Skunk Anansie í Laugardalshöllinni. Þegar dr. Gunni var spurður um tilvonandi heimsfrægð í einhverjum íslensku fjölmiðlanna svaraði hann því til að hann hefði fengið leikfangabelju í höfuðið frá litháískum aðdáanda á Hróarskeldu.

Sveitin árið 1998
Nokkrar smáskífur komu út með Unun undir Deceptive merkinu árið 1997, You do not exist var nýtt lag með sveitinni og I see red / Ég sé rautt kom aftur út á vegum útgáfunnar, hvort tveggja á sjö tommu vínyl og geislaplötu. Um haustið flutti sveitin auk þess lagið Heilræðavísur á safnplötunni Megasarlög, sem gefin var út listamanninum til heiðurs. Stelpurokk var síðan enn ein safnplatan þar sem Unun kom við sögu á árinu 1997.
1998 gekk í garð og framan af gerðist lítið fréttnæmt af Unun. Enn ein smáskífan, hin fjögurra laga Bones, leit dagsins ljós og kom út á vegum Smekkleysu um sumarið en á þeirri skífu var m.a. að finna live-upptöku frá Gauki á Stöng af laginu Heim á Hellissand, hún hlaut ágæta dóma í einu gagnrýninni sem birtist, í DV. Um svipað leyti kom sveitin fram á tónleikum sem haldnir voru í tengslum við kvikmyndina Popp í Reykjavík, hvar sveitin birtist en einnig lék hún eitthvað erlendis þetta sumar. Enn eitt lagið kom út á safnplötu þetta sumarið, á safnplötunni Fire and ice.
Unun hafði byrjað að vinna nýja breiðskífu um vorið í Gróðurhúsinu en í miðjum upptökum fækkaði meðlimum hennar heldur betur þegar þeir Valgeir, Birgir og Þór, annar stofnandi sveitarinnar, hættu. Þau Heiða og Gunnar voru þá ein eftir í bandinu og þannig luku þau tökum á plötunni, sem hlaut titilinn Ótta og kom út um haustið á vegum Smekkleysu. Dúóið fékk þó til liðs við sig nokkurn fjölda tónlistarfólks til að leika inn á plötuna, m.a. strengjakvartettinn Amiinu (sem þá kallaðist reyndar Anima) og harmonikkuleikarana Reyni Jónasson og Guðmund Steingrímsson.
Ótta fékk ágætar viðtökur en minna fór þó fyrir henni en fyrri breiðskífunni, platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta einnig í Degi og Fókus en vinsælasta lagið af henni varð Sumarstúlkublús.

Síðasta útgáfa Ununar 1999
Til að fylgja plötunni eftir var ráðist nokkuð í spilamennsku um haustið og óhjákvæmilega þurfti að manna sveitina nánst upp á nýtt, Viðar Hákon Gíslason bassaleikari og Þorvaldur H. Gröndal trommuleikari sem komu úr Kvartett Ó. Jónson & Grjóni bættust í hópinn sem og hljómborðsleikarinn Birna Helgadóttir, dr. Gunni færði sig hins vegar yfir á gítar við þessar mannabreytingar og þannig átti hún eftir að vera skipuð þar til yfir lauk.
Einhvern veginn lá í loftinu að Unun ætti ekki eftir að starfa langt fram á árið 1999, sveitin spilaði þó eitthvað í Finnlandi snemma sumars en dr. Gunni hafði notið nokkurrar athygli og vinsælda þar í landi með sólóefni sitt, fáeinum vikum síðan kom síðan út opinber dánartilkynning um endalok sveitarinnar og þar var saga hennar öll.
Tvær breiðskífur, fjöldinn allur af smáskífum, lög á safnplötum hér heima og erlendis (m.a. Eurospotting Copenhagen 1996 (1996), Deceptive fifty (1998) og Eurospotting Copenhagen 98 (1998)), aragrúi tónleika innlendis sem erlendis og vinnsla við kvikmyndatónlist, auk viðurkenninga og verðlauna var afrakstur sveitarinnar, og hefðu meðlimir flestra sveita sætt sig við minna.
Þess má geta að stúlknasveitin Nylon gerði eigin útgáfu af laginu Lög unga fólsins, sem naut nokkurra vinsælda og kom út á plötu þeirra, og nokkrum safnplötum.
Tónlistaráhugafólk er enn minnt á sveitina með útgáfum safnplatna en síðustu árin hafa lög með Unun komið út á plötum eins og Alltaf sama svínið (2002) / Lobster or fame (2003), Smekkleysa: 20th anniversary – new Icelandic music (2004) og Stuð stuð stuð (2011), auk þess heyrist reglulega að sveitin hyggi á kombakk einn góðan veðurdag. Það verður þó tíminn einn að leiða í ljós.