Daisy hill puppy farm (1985-91)

Daisy Hill Puppy Farm

Daisy hill puppy farm

Saga tríósins Daisy hill puppy farm spannar tæplega sex ár en líftími sveitarinnar var þó í raun nokkuð skemmri.

Daisy hill puppy farm var stofnuð 1985 á Seltjarnarnesi en var framan af nafnlaust tríó þeirra Jóhanns Jóhannssonar söngvara og gítarleikara, Stefáns Bersa Marteinssonar bassaleikari og Ólafs Gísla Gíslasonar trommuleikara.

Það var þó ekki fyrr en í ársbyrjun 1987 sem sveitin hlaut nafn sitt en það var fengið úr teiknimyndasögunum um Smáfólkið (Peanuts) en Snati (Snoopy) mun hafa komið frá Daisy hill puppy farm. Fljótlega upp úr vori 1987 fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru.

Um þetta leyti réðist Daisy hill í upptökur og fáeinum mánuðum síðar kom safnsnældan Snarl út á vegum Erðanúmúsík sem hafði að geyma þrjú lög með sveitinni.

Sveitin hlaut nokkra athygli út á þetta og var dugleg að leika á tónleikum um sumarið ásamt öðrum skyldum hljómsveitum sem féllu undir underground senuna en Daisy hill þótt minna nokkuð á bresku sveitina Jesus and Mary Chain. Sjálfir skilgreindu þeir tónlist sína sem „hávaðasamt hrátt popp“ í blaðaviðtali.

Áður en 1987 var úti hafði önnur Snarl-snælda litið dagsins ljós, Snarl II: veröldin er veimiltíta, og þar átti sveitin tvö lög. Lögin hlutu ágætar viðtökur gagnrýnenda, reyndar eins og fyrri lögin þrjú sem komið höfðu út fyrr á árinu.

Fljótlega á nýju ári (1988) spurðist út að plata væri væntanleg með sveitinni og um sumarið kom út tveggja laga sjö tomma á vegum Erðanúmúsík og samtímis í Bretlandi á vegum nýrrar útgáfu þar, Lakeland records. Af einhverjum sökum fór lítið fyrir útgáfunni, engin gagnrýni virðist hafa birst hérlendis en í Bretlandi fékk platan ágæta dóma í Melody maker og seldist í nokkur hundruð eintökum, útgáfa sveitarinnar af Blondie laginu Heart of glass vakti athygli útvarpsmannsins kunna John Peel, sem spilaði það oft í þætti sínum. Lagið átti einnig eftir að koma út á safnsnældunni New Icelandic music, sem Grammið gaf út þetta sama ár.

Vorið 1989 kom síðan út önnur smáskífa, fjögurra laga tólf tomma sem bar titilinn Spraycan, eftir einu laganna. Platan kom út bæði hér heima og í Bretlandi líkt og fyrri platan en í þetta skipti birtust tveir plötudómar hér heima, í hinum akureyrska Degi fékk platan þokkalega dóma og góða í Þjóðviljanum.

Daisy hill puppy farm hélt sínu striki hér heima og lék reglulega á tónleikum, þó kom að þeim tímapunkti að þeir Stefán  og Ólafur heltust úr lestinni (1990) og þá var sveitin orðin eins manns sveit Jóhanns. Hann fékk þá hina og þessa bassaleikara til liðs við sig á tónleikum en hafði trommuleikinn á teipi. Undir það síðasta hafði verið klippt aftan af nafni sveitarinnar sem nú kallaðist Daisy hill.

Lög með sveitinni komu út á tveim safnútgáfum 1990 og 91, annars vegar á cd-útgáfu safnplötunnar World domation or death (1990) og hins vegar safnsnældunni Snarl III: þetta er besta spólan sem ég á! (1991).

Það sem varð e.t.v. sveitinni að falli var að Lakeland útgáfan stóð sig illa í dreifingu á plötunum og því seldust þær ekkert sérlega vel. Útgáfan fór á hausinn 1992 en gaf þó út safnplötuna Bigger than Venus Lakeland  1986-92. Á henni voru fjögur lög með Daisy hill, þar af tvö sem ekki höfðu komið út áður en þetta var gert án vitundar og vilja sveitarinnar.

Þótt Daisy hill væri hætt störfum átti enn eftir að koma út efni á safnplötu með sveitinni, hún hét Oz-Ice e.p., var fjögurra laga og kom út í Bandaríkjunum 1993 í um fimm hundruð eintökum og innihélt íslenska og ástralska tónlist. Alls komu því út vel á annan tug laga með sveitinni, þótt í smærri skömmtum væri.

Þegar Jóhann hafði hætt að starfrækja Daisy hill 1991 átti hann eftir að koma víða við í íslensku tónlistarlífi, fyrst með Ekta (ásamt Gunnari L. Hjálmarssyni) en síðan Ham, Unun, Funkstrasse og fjölmörgum öðrum þekktum sveitum áður en hann hóf sólólistaferil.

Efni á plötum