Afmælisbörn 22. febrúar 2018

EIður Gunnarsson

Fjölmörg afmælisbörn eru skráð á þessum degi hjá Glatkistunni:

Davíð Þór Hlinason gítarleikari er fjörutíu og átta ára en hann hefur birst í hinum ýmsu hljómsveitum allt frá því að hann var í Sérsveitinni árið 1989. Aðrar sveitir sem Davíð hefur verið í eru t.d. Dos Pilas, Buttercup og nú síðast Nykur þar sem hann er einnig söngvari.

Eiður Ágúst Gunnarsson bassasöngvari (f. 1936) átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 2013. Eiður starfaði mestmegnis í Þýskalandi og Austurríki eftir söngnám og kom heim og fékkst við söngkennslu allt til dauðadags. Eftir hann liggja tvær plötur sem geyma söng hans.

Jóhann G. Jóhannsson tónlistarmaður (1947-2013) fæddist á þessum degi en mörg laga hans hafa orðið landsþekkt í flutningi hans sjálfs og annarra. Meðal laga sem Jóhann samdi má nefna Don‘t try to fool me, Eina ósk, Fiskurinn hennar Stínu, Við eigum samleið og Traustur vinur en einnig var hann í mörgum af þekktustu sveitum bítla- og hippatíðar, til að mynda Óðmönnum, Póker, Skuggum, Náttúru og Töturum svo dæmi séu tekin. Jóhann var upphafsmaður Músíktilrauna.

Júlíus Agnarsson átti einnig þennan dag en hann lést 2013. Júlíus sem fæddist 1953 hafði verið gítarleikari í ýmsum hljómsveitum, Scream, Terso, Andrew og Pelican áður en hann gerðist hljóðmaður og rótari, lengst um fyrir Stuðmenn og Þursaflokkinn, og einnig við hljóðsetningu á kvikmynda- og teiknimyndaefni.