Eiður Gunnarsson (1936-2013)

Eiður Gunnarsson2

Eiður Gunnarsson bassasöngvari

Eiður Ágúst Gunnarsson bassasöngvari var ekki líklegur til að verða atvinnusöngvari lengi vel en eftir hvatningu lét hann verða að því um þrítugt að fara utan í söngnám og eftir það var ekki aftur snúið.

Eiður (f. 1936) starfaði um árabil við akstur, m.a. strætisvagna og sendibíla áður en hann lét verða af því að fara til Þýskalands í tónlistarnám, áður hafði hann reyndar numið söng hjá Þorsteini Hannessyni og Sigurði Demetz hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Óperuskólanum í Reykjavík en þó aldrei af þeirri alvöru sem atvinnusöngmennska krafðist.

Eiður lærði í Þýskalandi 1966-71 og starfaði aðallega í Þýskalandi og Austurríki eftir nám, hann kom þó einstöku sinnum heim til Íslands og söng hér heima, t.d. í óperuuppfærslu á La bohéme 1981. Hann kom einnig nokkrum sinnum heim í fríum og í einu slíku tók hann upp plötu á vegum SG-hljómplatna sem kom út 1975 og hafði að geyma fjórtán íslensk sönglög.

Í tveimur heimsóknum Eiðs til Íslands (1983 og 84) hafði hann sungið ljóðaflokkana Svanasöng eftir Franz Schubert og Ástir skálds eftir Robert Schumann við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar í útvarpssal, verkin voru á sínum tíma flutt nokkrum sinnum í útvarpi en voru flestum gleymd þegar Eiður keypti útgáfuréttinn af þeim af Ríkisútvarpinu og gaf út árið 2010 á tveimur plötum. Reyndar keypti hann einnig réttinn af öllu sem hann hafði sungið í útvarpinu en það hefur þó ekki verið gefið út.

Eiður kom heim alfarið til Íslands 1987 eftir tuttugu og tveggja ára veru í Þýskalandi og Austurríki og starfaði eftir það við söngkennslu hér heima, hann hætti nokkru síðar sjálfur alveg að syngja er hann fékk krabbamein í háls og raddbönd hans og barki urðu ekki söm eftir það. Hann hélt þó áfram að kenna söng.

Lög sungin af Eiði hafa einnig komið út á öðrum plötum en þeim sem að ofan eru taldar, t.d. söng hann lag á plötu sem tileinkuð var tónskáldinu Árna Björnssyni (1980), hann söng einnig með Hljómkórnum á plötu Diddúar, Jólastjörnu (1997) og plötunni Út um græna grundu með lögum eftir Skúla Halldórsson (1994).

Eiður lést 2013 eftir veikindi.

Efni á plötum