Júlíus Agnarsson (1953-2013)

Júlíus Agnarsson 1988

Júlíus Agnarsson á heimavelli við mixerborðið

Júlíus Agnarsson kom víða við í tónlist, allt frá því að leika á gítar hljómsveitum og fást við lagasmíðar til hljóðupptaka og hljóðstjórnunar.

Júlíus fæddist í Reykjavík 1953 og var alla tíð miðborgarbarn. Á unglingsárum lék hann á gítar í hljómsveitum á borð við Terso og Combói Kalla Matt [sr. Karls Matthíassonar] og síðar í sveitunum Scream og Andrew, sem var samstarfsverkefni hans og Andra Clausen en þeir voru þá í Menntaskólanum í Reykjavík.

Andrew gaf út breiðskífuna Woop sem var tekin upp á skömmum tíma en Júlíus samdi einhver laganna á plötunni. Þegar platan kom út í fremur litlu upplagi segir sagan að Júlíus hafi gengið milli stærstu plötuverslana borgarinnar, talað ensku við verslunarstjórana og sagt sveitina vera að slá í gegn á heimsvísu. Þannig hafi upplag plötunnar selst upp á fáeinum klukkustundum.

Eftir stúdentspróf fór Júlíus til Kaupmannahafnar (1977) ásamt Ómari Óskarssyni til að vinna tónlist þess síðarnefnda, þar starfaði Júlíus í því sem kallað hefur verið danska útgáfan af Pelican en var það sveit sem Ómar starfrækti undir nafninu Pelikan (með k-i).

Júlíus spilaði tónlist í Danmörku til ársins 1981 en þá kom hann heim og nýr kafli hófst í lífi hans. Hann hafði alltaf haft áhuga á hljóðvinnslu og hljóðupptökum hvers konar og hafði sankað að sér einhverjum tækjum sem hann kom með til Íslands. Hann fór að vinna við upptökur og aðra hljóðvinnslu með Agli Ólafssyni og félögum í hljóðverinu Grettisgati og varð í raun einn af Þursaflokknum en hann starfaði með þeim sem hljóð- og ljósamaður á tónleikum og sem upptökumaður í hljóðverinu, hann annaðist einnig upptökustjórn og hljóðblöndun.

Júlíus varð ennfremur hljóðmaður Stuðmanna og starfaði með þeim, m.a. við hljóðvinnslu kvikmyndanna Með allt á hreinu og Hvítum mávum auk þess að fara með lítil smáhlutverk í myndum þeirra, hann fór m.a. með sveitinni tónleikahalds til Kína 1986 en sveitin (sem kallaði sig Strax í það skiptið) var aðeins önnur vestræna popphljómsveitin sem heimsótti Kína. Júlíus kom einnig að hljóðvinnslu annarra kvikmynda s.s. Rokk í Reykjavík.

Júlíus Agnarsson og Ringo

Júlíus ásamt Ringo Starr í Atlavík 1984

Hann kom að upptökum á fleiri plötum en með Stuðmönnum og Þursaflokknum, hann var upptökustjóri við fjöldann allan af plötum með öðrum listamönnum og lét það ekki eftir sér að leika inn á þær líka ef þurfti, hann brá t.a.m. fyrir sig bæði bassa- og trommuleik á plötum sem hann vann við.

Júlíus varð þekktur í bransanum, hóf að vinna auglýsingar fyrir útvarp og sjónvarp, lék t.d. sjálfur í sumum auglýsinganna og aukinheldur í þáttunum um Bibbu á Brávallagötunni. Hann stofnaði eigið fyrirtæki 1986, Stúdíó eitt en það sérhæfði sig einmitt í gerð auglýsinga og sjónvarpsefnis.

Hljóðsetningarferill Júlíusar fór einnig af stað og þegar yfir lauk hafði hann annast hljóðsetningu á annað hundrað teikni- og kvikmynda, auk sjónvarpsefnis fyrir börn.

Júlíus þótti sérlega hnyttinn persónuleiki og tilsvör hans og uppátæki eru tilefni ógrynni sagna sem sagðar hafa verið af honum, margar þeirra er að finna í bókum Stuðmannanna Tómasar M. Tómassonar og Egils Ólafssonar.

Júlíus lést 2013, aðeins sextugur.