Júbó (1970-72)

Júbó 1971

Júbó

Hljómsveitin Júbó var ein af fjölmörgum Keflavíkursveitum sem starfræktar voru á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar.

Júbó var stofnuð sumarið 1970 upp úr tveimur keflvískum sveitum, annars vegar Júdas sem þá hafði misst Magnús Kjartansson til Trúbrots og hætt í kjölfarið, hins vegar Bóluhjálmum sem einnig hafði hætt um þessar mundir. Eins og glöggir lesendur hafa vafalaust áttað sig á var nafn Júbós myndað úr upphafsstöfum Júdasar og Bóluhjálma.

Meðlimir sveitarinnar til að byrja með voru Finnbogi Kjartansson bassaleikari Oddur Garðarsson gítarleikari, Hrólfur Gunnarsson trommuleikari og hugsanlega var Pétur „kapteinn“ Kristjánsson orgelleikari í þessari upprunalegu mynd, hann kom þá allavega síðar inn.

Júbó tók þátt í hljómsveitakeppni sem haldin var um verslunarmannahelgina 1970 í Húsafelli, þar voru engin stórvirki framin og í framhaldinu fór lítið fyrir sveitinni um haustið, hún birtist aftur eftir áramótin 1970-71 og var meðal þeirra sveita sem léku á Saltvíkur-hátíðinni uppi á Kjalarnesi um hvítasunnuhelgina 1971. Þá var Sigurður Björgvinsson í sveitinni og hafði líklega verið það um tíma en síðustu mannabreytingarnar sem urðu í Júbó voru þær að Ingvi Steinn Sigtryggsson píanóleikari tók við af Pétri.

Sveitin var ennþá starfandi sumarið 1972 en hætti líklega þá um haustið.

Júbó verður e.t.v. einna helst minnst fyrir það að Jón Ólafsson (síðar kenndur við Skífuna) var titlaður framkvæmdastjóri sveitarinnar og markaði það upp umboðsmennsku- og útgáfuferils hans.