Júdas [1] (1968-70 / 1973-76)

Júdas 1968

Júdas 1968

Hljómsveitin Júdas var partur af þeirri tónlistarvakningu sem kennd hefur verið við Keflavík en sveitin var einna fyrst til að spila soul og funk hérlendis, sjálfsagt má að einhverju leyti tengja það við veru varnarliðsins í næsta nágrenni og þá erlendu strauma sem því fylgdi.

Þeir félagar, Ólafur Júlíusson trommuleikari (bróðir Rúnars Júl.), Vignir Bergmann gítarleikari og bræðurnir Finnbogi Kjartansson bassaleikari og Magnús Kjartansson hljómborðsleikari voru ungir að árum þegar þeir stofnuðu Júdas sumarið 1968, þeir voru þá á aldrinum sextán til átján ára en höfðu þó leikið í nokkur ár með hljómsveitum eins og Echo, og Magnús hafði m.a. verið í Óðmönnum. Að hluta til var Júdas sama sveit og Echo.

Ekki voru allir sáttir við nafngift sveitarinnar en það var að öllum líkindum í fyrsta skipti á Íslandi sem hljómsveitarnafn hafði trúarlega skírskotun, meðlimir sögðu síðar nafnið hafa verið valið eingöngu til að skapa umræðu og hneykslan. Ein sagan segir að Þorsteinn Eggertsson hafi komið með nafnið.

Segja má að saga Júdasar skiptist í tvennt og á fyrra skeiði hljómsveitarinnar lék hún rokk í anda bítla og hippa, í ársbyrjun 1969 fór sveitin í upptökusal Ríkisútvarpsins og tók upp tvö þekkt erlend lög sem búið var að íslenska, Þú ert aldrei einn á einn (You´ll never walk alone) og Mér er sama (Everybody loves a lover) en Ingvi Steinn Sigtryggsson söng lögin sem gestasöngvari, hann gekk síðar til liðs við þá Júdasarmenn. Ekki gengu upptökurnar í Útvarpshúsinu alveg þrautalaust fyrir sig en ítrekað komu þulir úr þulastofu til að kvarta yfir hávaðanum í sveitinni og urðu þeir að draga nokkuð úr hávaðastyrknum við upptökurnar sem voru í höndum Karls J. Sighvatssonar en hann var ráðinn sérstaklega sem „pródúsent“ við verkið, það var í fyrsta skipti sem slíkt var gert hérlendis.

Einnig spurðist út að lag með sveitinni myndi koma út á væntanlegri safnplötu (Pop festival ´70) en það var eftir Magnús hljómborðsleikara. Júdas hlaut þannig ágæta kynningu og til að mynda kom sveitin fram í sjónvarpsþætti sem þótti síður en svo sjálfsagt á þessum tíma.

Júdas 1969

Hljómsveitin Júdas árið 1969

Sem fyrr segir gekk Ingvi Steinn til liðs við sveitina en einnig höfðu orðið trommuleikaraskipti í sveitinni er Hrólfur Gunnarsson tók við af Ólafi sem hætti.

Vorið 1970 bauðst Magnúsi að ganga til liðs við Trúbrot sem þá var án nokkurs vafa stærsta hljómsveit landsins. Þar með var framtíð Júdasar í lausu lofti á sama tíma og tveggja laga platan var að koma út en útgáfa hennar hafði þá tafist nokkuð. Svo fór að sveitin hætti um sumarið og sögu hennar hefði þar með átt að ljúka en svo varð þó ekki, þarna lauk einungis fyrra skeiði hennar.

Magnús starfaði því með Trúbroti um skeið og aðrir meðlimir Júdasar störfuðu í hljómsveitunum Júbó og Steinblómum auk annarra verkefna.

Þannig liðu þrjú ár, Trúbrot hætti störfum, hinar sveitirnar liðu undir lok, og sumarið 1973 fór Magnús Kjartansson til London til að vinna sólóefni sem síðar kom út á smáskífu og breiðskífu sem bar titilinn Clockworking cosmic spirits. Sér til fulltingis hafði hann Hrólf, Finnboga og Vigni fyrrum félaga sína úr Júdasi og má segja að með þessu verkefni hafi verið lagður grunnurinn að síðara skeiði hljómsveitarinnar.

Það var þó ekki fyrr en um haustið sem Júdas kom fram opinberlega en það var á tónleikum þar sem sveitin lék ásamt Change sem þá var að reyna að hasla sér völl erlendis eins og fleiri íslenskir tónlistarmenn þá um mundir, reyndar með litlum árangri.

Júdas 1974

Júdas 1974

Í kjölfarið hóf Júdas að láta á sér kræla á tónleikum og á böllum víða um land, sveitin hitaði meðal annars upp fyrir hljómsveitina Nazareth sem kom til landsins sumarið 1974 en lék einnig á tónleikum ásamt hljómsveit John Miles en sú hljómsveit gaf síðar út lag Magnúsar, To be grateful á plötu en Trúbrot hafði gefið lagið út á plötunni …Lifun (1971) og er löngu orðið klassík í íslenskri tónlist. Júdas lék ennfremur mikið á „Vellinum“ hjá bandaríska hernum en einnig kom sveitin fram á nemendasýningu Verzlunarskóla Íslands vorið 1975 en sú sýning var tileinkuð tónlist Brian Wilson og Beach boys.

Bandaríski gítarleikarinn Clyde Autrey lék með sveitinni um nokkurra mánaða skeið frá áramótum 1974-75 en um vorið var sveitin aftur orðin að kvartett.

Tónlist Júdasar hafði þarna breyst frá því að sveitin var stofnuð 1968, heilmikil svört áhrif mátti heyra í henni og sálarkennt fönk réði nú orðið ríkjum á prógrammi sveitarinnar þó jafnvel með prog-ívafi, Rúnar Georgsson saxófónleikari lék stundum með sveitinni og setti mikinn svip á tónlistina en hann varð þó aldrei fastur meðlimur Júdasar.

Sveitin gaf það út að hún hygði á upptökur fljótlega og nefndi Þýskaland í því samhengi en Þórir Baldursson hafði þá starfað þar í landi við góðan orðstír, af þeirri hljóðversvinnu varð þó ekki.

Júdas og Kiddi rót

Júdas ásamt Kidda rót (lengst til hægri)

Þegar þarna var komið sögu var Júdas orðin hrein og klár atvinnusveit ein sú vinsælasta á landinu, auk þess að spila mikið á böllum og skemmtunum var sveitin tíður gestur í hljóðverum og lék undir á plötum hjá ýmsu tónlistarfólki, t.d. á litlum plötum hjá Gunna & Dóra annars vegar og hins vegar Bjarka Tryggva, og á stórum plötum Megasar (Millilending), Ruthar Reginalds (Simmsalabimm) og Sigrúnu Harðar (Shadow lady), þeir félagar voru þó þarna fyrst og fremst sem session menn fremur en hljómsveit.

Júdas fór þó samhliða þessu að taka upp eigin plötu þótt ekki færu þeir til Þýskalands til þess, þeir höfðu verið á mála hjá umboðs- og útgáfufyrirtækinu Demant frá því það var stofnað í upphafi árs 1975 en slitu sig frá því um sumarið og stofnuðu eigið útgáfufyrirtæki samnefnt hljómsveitinni. Það fyrirtæki gaf einmitt út plöturnar (með Megasi o.fl.) sem nefndar eru hér að framan.

Þetta sama sumar var gerður sjónvarpsþáttur um Júdas og síðsumars fóru þeir félagar til Mallorca og léku þar soulfunk á skemmtistöðum við nokkuð misjafnar en þó heilt yfir jákvæðar undirtektir. Og þegar sveitin hafði kynnst spilamennsku á annað borð erlendis, var stefnan sett á Bandaríkin til að slá í gegn á heimsvísu en margir íslenskir tónlistarmenn sáu heimsfrægðina í hillingum á þessum tíma, hina fyrrnefndu Change má þar nefna en einnig Gunnar Þórðarson, Paradís o.fl.

Plata Júdasar kom út um haustið 1975 og bar heitið Júdas No:1. Hún hlaut ágætis viðtökur og fékk hvarvetna góða dóma, þokkalega dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, Tímanum og Þjóðviljanum og ágæta í Vísi, Dagblaðinu, Vikunni og Morgunblaðinu. Helst var að menn fyndu að því að sveitin flytti lög sín á ensku, flest þeirra voru eftir Magnús en einnig má heyra á henni eitt lag eftir John Miles en þar með hafði Magnús kvittað fyrir sig. Sérstaka athygli vakti umslag plötunnar en það prýddi málverk eftir Ríkeyju Valdimarsdóttur af meðlimum sveitarinnar auk annarra.

Draumar Júdasar um frægð og frama í Bandaríkjunum koðnuðu smám saman og ýmist var Magnús einn á leiðinni vestur um haf eða þeir allir, svo fór að lokum að hljómsveitin fór líklega yfir hafið og var þar í stuttan tíma utan þess að Vignir gítarleikari hætti í sveitinni.

Júdas1

Júdas

Ekki er að sjá að Ameríkuförin hafi gert nokkuð fyrir sveitina og fljótlega voru þeir Júdasar farnir að vinna að sinni annarri breiðskífu í Hljóðrita í Hafnarfirði án þess þó að vera raunverulega starfandi. Vignir var hættur og Arnar Sigurbjörnsson lék mest allan gítar inn á plötuna en fleiri gestir komu við sögu hennar, m.a. Vilhjálmur Vilhjálmsson sem söng eitt lag. Vilhjálmur átti einnig texta á plötunni sem og Gylfi Ægisson og Þorsteinn Eggertsson en allir textar plötunnar voru á íslensku og var tónlistin öllu léttari en á fyrri plötunni, flestir komu þeir Júdasar-liðar að lagasmíðunum.

Einhverjar hugmyndir voru uppi um að byrja að spila aftur opinberlega um vorið en af því varð ekki þótt sveitin léki eitthvað lítillega á böllum, þá var Ingvi Steinn aftur með þeim en hann var einnig með í plötuupptökunum.

Platan, Eins og fætur toga, kom út um haustið 1976 en Júdas var þá raunverulega löngu hætt og sveitin fylgdi plötunni því ekki eftir. Hún fékk fremur slaka dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, sæmilega í Alþýðublaðinu en ágæta í barnablaðinu Æskunni.

Endalok Júdasar miðast við árið 1976 en sveitin hefur komið fram í þó nokkur skipti síðan, þá með Vigni innbyrðis. Júdas kom til dæmis fram á balli í Festi ári eftir að hún hætti en kom einnig fram 1980, 1987 og 2003 svo nokkur ártöl séu tilgreind. Með hálfgerðum sanni mætti segja að Júdas hafi aldrei hætt.

Meðlimir Júdasar fóru í ýmsar áttir, Ingvi Steinn fór til Svíþjóðar og starfaði þar með íslensku hljómsveitinni Lava, Hrólfur, Finnbogi og Vignir gengu í Geimstein auk þess sem þeir tveir fyrrtöldu léku með Fresh, og Magnús starfaði mestmegnis í hljóðverum næstu árin en lék einnig með Brunaliðinu og fleiri sveitum.

Þótt tvær breiðskífur og ein smáskífa teljist vera það sem liggur eftir Júdas lék sveitin á fjölmörgum plötum eins og fram kemur hér að ofan. En lög sveitarinnar hafa einnig komið út á nokkrum safnplötum, þar má nefna Pop festival ´70, Svona var það 1975 (2008), Bara það besta (1977) og Bítlabærinn Keflavík (1998).

Efni á plötum