Jóhann G. Jóhannsson [1] (1947-2013)

Jóhann G. Jóhannsson4

Jóhann G. Jóhannsson

Jóhann G. Jóhannsson telst án efa meðal stærstu nafna í íslenskri tónlistarsögu en hann lék og söng með mörgum af þekktustu hljómsveitunum á uppgangsárum hippa- og rokktímans auk þess sem hann átti farsælan sólóferil, aukinheldur er hann meðal þekktustu lagahöfundum þjóðarinnar og skipta lög hans hundruðum.

Jóhann (Georg) Jóhannsson fæddist í Ytri Njarðvík og fékk snemma áhuga á tónlist þótt henni væri ekki haldið neitt sérstaklega að honum, hann lærði til að mynda ekki á neitt hljóðfæri en spilaði síðar á bassa, gítar, hljómborð og sjálfsagt miklu fleiri hljóðfæri. Hann þótti á hinn bóginn efnilegur í myndmennt og fékk nokkra hvatningu þ.a.l. í skólanum en það átti eftir að verða „hin“ listgreinin hans. Jóhann var þó á allan hátt listhneigður og textasmíði hvers konar lá fyrir honum einnig, í hvaða formi hún svosem var.

Fyrstu tilraunir Jóhanns í tónlist var á gagnfræðiskólaárum hans í Keflavík en þar var starfrækt hljómsveit um og upp úr 1960 sem hann lék með sem gítarleikari. Sú sveit bar síðar heitið Skuggar en mun þó ekki hafa komið fram opinberlega meðan Jóhann var í henni, því má víst kenna feimni hans en meðal kunnra tónlistarmanna sem skipuðu þessa sveit síðar má nefna Maríu Baldursdóttur, Gunnar Þórðarson og Erling Björnsson, sem öll áttu eftir að verða hluti þeirrar Keflavíkur-kynslóðar sem spratt fram og blómstraði fáeinum árum síðar í íslensku tónlistarlífi.

Þegar Jóhann lauk námi sínu á heimaslóðum lá leið hans til Bifrastar í Borgarfirði þar sem hann lagði stund á nám í Samvinnuskólanum. Næstu árin (1962-65) lék hann með skólahljómsveitinni sem þar starfaði og reyndar starfaði sú sveit eitthvað áfram að samvinnuskólaprófi loknu, undir nafninu Straumar, Jóhann var á þessum árum þegar farinn að semja tónlist.

Jóhann G. Jóhannsson 1974

Jóhann

Þarna var boltinn tekinn að rúlla og alvöru áhugi til staðar til að skapa tónlist, og þegar Straumar hættu stofnaði Jóhann (á bassa) ásamt Eiríki bróður sínum hljómsveitina Óðmenn (hina fyrri). Sú sveit starfaði í Keflavík á árunum 1966-68, spilaði eins konar afbrigði af bítlatónlist og gaf út eina fjögurra laga plötu. Hún gekk ágætlega en eitt laga hennar var bannað í útvarpinu þar sem það var flutt á ensku. Sveitin gekk í gegnum einhverjar mannabreytingar en þegar söngkona sveitarinnar, Shady Owens gekk til liðs við hljómsveit númer eitt á Íslandi, Hljóma, hættu Óðmenn – í bili.

Þrátt fyrir að Jóhann hefði ætlað að hætta í tónlistinni og snúa sér að myndlist lét hann þó til leiðast og lék með húshljómsveit Þjóðleikhúskjallarans, Musica Prima veturinn 1968-69. Næsta haust endurreisti hann síðan Óðmenn sem tríó og nú var tónlistin með allt öðrum hætti en í fyrra skiptið. Óðmenn léku nú framúrstefnulegt hippa- og blúsrokk mikið til samið af Jóhanni, gaf út tvær smáskífur og tvöfalda breiðskífu – svokallað albúm, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Sveitin tók ennfremur þátt í uppfærslu á poppleiknum Óla sem settur var á svið í Tjarnarbíói, en Jóhann átti hvað stærstan þátt í að skapa tónlistina í uppfærslunni.

Þegar Óðmenn hættu störfum haustið 1970 tók hljómsveitin Tatarar við kefli sveitarinnar í poppleiknum og við það tækifæri lék Jóhann með Töturum þar til sýningum á Óla lauk. Hann lék síðan í fáeina mánuði með Náttúru árið 1971 en þegar hann hætti í þeirri sveit var hljómsveitaferli hans í raun lokið og sólóferill tók við. Með eilítilli undantekningu þó.

Samhliða tónlistarsköpun fékkst Jóhann nú orðið heilmikið við myndlistina og um tíma lagði hann stund á indverska heimspeki, hann hélt sína fyrstu málverkasýningu 1971 og átti eftir að halda þær nokkrar, oft þó í trássi við myndlistaelítuna.

Jóhann hafði nú þegar hér var komið sögu skapað sér heilmikið nafn sem laga- og textahöfundur og Ámundi Ámundason umboðsmaður tónlistarmanna sá sér um þetta leyti leik á borði að hefja plötuútgáfu með Jóhann í huga en Ámundi varð síðar nokkuð afkastamikill á því sviði. Þá hafði hann heyrt óútgefin lög eftir Jóhann sem hann vildi gefa út, m.a. lag sem bar titilinn Don‘t try to fool me, hann sá í því lagi alþjóðlegan smell sem fleiri eru reyndar sammála um að hefði átt að komast á þann stall. Jóhann samþykkti að Ámundi gæfi út þetta lag og fleiri smáskífur með því skilyrði að fyrsta platan hefði að geyma tvö ákveðin lög sem Jóhann tók sjálfur upp á segulband heima hjá sér, sem og Ámundi samþykkti.

Jóhann G. Jóhannsson1

Jóhann G. með gítar í sjónvarpssal

Og þegar platan, sem hlaut útgáfunúmerið ÁÁ 001, kom út 1972 setti menn hljóða. Á fyrri plötuhliðinni var að finna „lagið“ Þögnin rofin, en þar er þögn framan af sem síðan var rofin með öskri. Seinni plötuhliðin hafði að geyma lagið Brotinn gítar, og geta lesendur svosem giskað á hvernig það hljómaði. Umslagið utan um plötuna þótti einnig nokkuð sérstakt en það hafði að geyma þrjár hliðar og var platan innsigluð í það. Þetta var í fyrsta og langt frá því síðasta skipti sem Jóhann fór ótroðnar slóðir í útgáfusögu sinni. Platan skilaði hagnaði öllum að óvörum en í einu gagnrýninni sem birtist um plötuna (í Morgunblaðinu) var gagnrýnandinn nánast orðlaus.

Í kjölfarið komu út tvær smáskífur 1973, með lögunum Don‘t try to fool me / 5th floor og Asking for love / Joe the mad rocker en þær voru teknar upp í London. Fyrst nefnda lagið er löngu síðan orðið dæmi um klassískan poppsmell hér á landi en af einhverjum ástæðum varð lagið ekki sá alþjóðlegi „hit-ari“ sem vonast hafði verið til, sjálfsagt hefur þar fyrst og fremst verið um að kenna reynsluleysi í markaðsmálum. Fyrri smáskífan fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu, Vísi og Tímanum og gagnrýnendurnir voru nokkuð sammála um að platan væri það besta sem hefði komið út í íslensku poppi. Svipaða sögu má segja um síðari skífuna sem kom út fáeinum mánuðum síðar, þótt ekki væri tekið eins sterkt til orða en hún fékk mjög góða dóma í Alþýðublaðinu, Vísi og Morgunblaðinu. Það þarf því auðvitað ekki að koma á óvart að Jóhann var kjörinn lagahöfundur ársins og söngvari ársins í vinsældakosningu Vikunnar.

Jóhann var nú rækilega kominn á tónlistarkortið og því var eðlilegt í framhaldinu að hann ynni að breiðskífu. Hún var að verulegu leyti unnin í London og var Derek Wadsworth hægri hönd Jóhanns við upptökurnar en hann var þekktur útsetjari og session maður í Englandi. Þegar Langspil, en svo hét platan, kom út fyrir jólin 1974 var það á vegum Sun records, útgáfufyrirtækis í eigu Jóhanns en samningar hans og Ámunda um áframhaldandi samstarf höfðu ekki tekist. Jóhann fór ennfremur nýja leið við fjármögnun á plötunni þegar hann fékk fyrirtæki til að auglýsa á „nærbuxunum“ en svo var innra umslag vínylplatna iðulega kallað. Þær auglýsingar sem voru í léttum dúr teiknaði Jóhann sjálfur en sjálft plötuumslagið hafði að geyma olíumálverk af honum sjálfum, einnig málað af honum.

Langspil hlaut almennt góðar viðtökur, ágæta dóma í Alþýðublaðinu og Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar og mjög góða í Vísi en þokkalega í Tímanum. Aðeins Don‘t try to fool me af smáskífunum var að finna á plötunni en önnur lög voru ný ef svo má að orði komast. Platan seldist ágætlega og var endurútgefin tvívegis, 1992 og 2004.

Jóhann G. Jóhannsson 1973

Jóhann G. Jóhannsson 1973

Og Jóhann fór fleiri ótroðnar slóðir í tekjuöflun sinni, samstarf hans við flugfélagið Loftleiði leiddi til þess að hann samdi og gaf út smáskífuna Icelandic airlines / What‘ya gonna do vorið 1975 en flugfélagið styrkti hann á móti og keypti einnig af honum málverk. Þarna má segja að fyrsta samstarfið og alls ekki það síðasta hafi orðið til á milli flugfélags og tónlistarmanna á Íslandi. Smáskífan fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum, Tímanum, Morgunblaðinu og Vísi.

Myndlistin fékk aukið pláss hjá Jóhanni næstu mánuðina og hélt hann m.a. málverkasýningar heima hjá sér en hann bjó við Vífilsstaði á þessum tíma. Samhliða þessu var hann þó að reyna að koma Langspili í útgáfu erlendis og leggja drög að nýrri plötu, sem síðan var tekin upp síðsumars 1976 í Hljóðrita í Hafnarfirði en það var þá nýtekið til starfa.

Platan kom síðan út fyrir jólin, fékk titilinn Mannlíf og var gefin út af Jóhanni sjálfum. Íslenskir tónlistarmenn komu að upptökunum að þessu sinni, sem voru undir stjórn Tony Cook. Umslag plötunnar var eins og á Langspili málað af Jóhanni sjálfum, í þetta skiptið var um vatnslitamynd að ræða.

Og eins og á fyrri breiðskífunni voru auglýsingar á innra umslaginu en auk þess textablað og lítill miði sem hafði að geyma getraun þar sem kaupendur plötunnar gátu unnið plötur frá Skífunni í veðlaun. Ýmislegt var því gert til að selja plötuna. Mannlíf fékk ágæta dóma í Alþýðublaðinu, Tímanum, Vísi, Æskunni, Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar og Morgunblaðinu en þrátt fyrir það seldist hún ekki nándar nærri eins vel og Langspil.

Nokkuð var um að gagnrýnendur nefndu texta Jóhanns sérstaklega í dómum sínum og þóttu þeir ærið misjafnir að gæðum, hann gerði þó um þetta leyti gangskör í því að vinna ljóð og texta og gaf m.a. út ljóðabókina Flæði árið 1977.

Á þessum tíma var Jóhann farinn að semja lög og texta fyrir aðra tónlistarmenn enda hafði hann þá fyrir löngu sannað að hann ætti auðvelt með að skapa auðmeltar melódíur. Fiskurinn hennar Stínu er einmitt dæmi um slíkan slagara en það lag kom út á plötu með Haukum um þetta leyti og hefur síðan komið út í nokkrum útgáfum, annað lag fylgdi í kjölfarið, Tóm tjara með Ruth Reginalds og svo koll af kolli.

Jóhann G. Jóhannsson 1977

Jóhann um það leyti sem Mannlíf var að koma út 1977

Þetta varð til þess að fleiri komu að máli við Jóhann á næstu árum til að fá lög og/eða texta og hljómsveitir og flytjendur eins og Upplyfting, Herbert Guðmundsson, Dúmbó og Steini, Logar, Björgvin Halldórsson, Stjórnin, Erna Eva Erna og ótal margir aðrir hafa notið þess, og oftar en ekki notið mikilla vinsælda í kjölfarið. Þarna má nefna lög og texta eins og Glaumbær, Traustur vinur, Hjálpum þeim, Eina ósk, Hvers vegna varst‘ekki kyrr, Dagar og nætur, Við eigum samleið, Furðuverk, Aldrei ég gleymi og Fljúgum hærra, svo fáein dæmi séu tiltekin sem allir þekkja. Alls voru útgefin á þriðja hundrað laga og texta eftir Jóhann sem gerðu hann að einum virtasta og ástsælasta lagasmið þjóðarinnar..

Það fór fremur lítið fyrir Jóhanni um tíma utan þess sem hann var að semja fyrir aðra, hann stundaði myndlistina og hélt áfram að sýna og selja verk sín en síðan birtust nokkuð óvænt fréttir um að hann hefði gengið til liðs við hljómsveitina Póker sem þá stefndi á heimsfrægð hvorki meira né minna. Jóhann (sem lék á bassa) staldraði þó stutt við en þessi skamma vera hans í sviðsljósi tónlistarinnar virðist hafa nægt til að hann fór nú að semja efni á þematengda plötu sem síðar hlaut nafnið Kysstu mig.

Kysstu mig kom út 1979 á vegum Ámunda Ámundasonar undir hljómsveitarnafninu Íslensk kjötsúpa en sú hljómsveit starfaði einungis í fáeina mánuði við kynningu og gerð þessarar einu plötu. Lagið Íslensk kjötsúpa varð nokkuð vinsælt en það sungu Sigurður Sigurðsson sem þá hafði gert garðinn frægan í Eik og María Helena Haraldsdóttir síðar eiginkona Bjartmars Guðlaugssonar. Platan hlaut almennt fremur neikvæða gagnrýni, reyndar svo að hún varð tilefni heilmikilla blaðaskrifa, platan hefur þó á síðari árum verið tekin í sátt meðal tónlistaráhugafólks. Tveggja laga smáskífa (12 tomma) var gefin út samhliða plötunni í þúsund eintökum, en afar sjaldgæft er að finna þá skífu í dag, reyndar svo mjög að fæstir vita af henni.

Í upphafi árs 1979 hafði „reyklausi dagurinn“ verið haldinn á Íslandi (23. janúar) en þá var gefin út smáskífa til styrktar átaki gegn reykingum. Jóhann, sem einmitt hafði samið lagið Tóm tjara sem kom út á plötu Ruthar Reginalds 1977, hélt áfram baráttu sinni gegn reykingum og samdi lögin tvö sem heyra mátti á plötunni en flutningurinn var í höndum Brunaliðsins og Ernu Evu Ernu. Brunaliðið hafði þó ekki beinlínis verið fyrirmynd í hollustu eða heilbrigðu líferni en það er auðvitað allt önnur saga.

Næsta ár, 1980 réðist Jóhann í sérlega mikið stórvirki en þá endurútgaf hann í einum pakka sólóplöturnar tvær, kjötsúpuplötuna og tvöfalda albúm Óðmanna undir titlinum Jóhann G. Jóhannsson: heildarútgáfa 1970-79. Eintökin voru tölusett og árituð af honum sjálfum. Slík útgáfa var auðvitað nýlunda hérlendis.

Jóhann G. Jóhannsson2

Jóhann G. Jóhannsson

Framan af níunda áratugnum fór lítið fyrir Jóhanni við tónlistarflutning en þeim meira fór fyrir lögum hans í flutningi annarra listamanna. Sjálfur fór hann á fullt í að berjast fyrir réttindamálum tónlistarmanna en hann var stofnandi SATT (Samtök alþýðutónskálda og tónlistarmanna) sem m.a. unnu að því að koma Músíktilraunum á koppinn, þær gengu einmitt undir nafninu Músíktilraunir SATT og Tónabæjar, í upphafi.

Önnur félagsmál voru Jóhanni hugleikin, hann sat í stjórn FTT (var einn af stofnendum þess) og STEFs, og gekk hvað harðast fram í því að höfundar „léttari“ tónlistar nytu sömu réttinda og höfundar „æðri“ tónlistar, hann var ennfremur einn þeirra sem stofnuðu og ráku Púlsinn við Vitastíg um árabil en þar naut lifandi tónlist sín. Jóhann var síðar heiðraður fyrir margs kyns framlag sitt til tónlistar og félagsmála tónlistarfólks sem og myndlistarmanna.

Það var ekki fyrr en haustið 1988 sem Jóhann G. Jóhannsson sendi frá sér næstu sólóplötu á eftir Mannlífi en þá kom út platan Myndræn áhrif, sem Jóhann vann sumarið á undan í Hljóðrita í Hafnarfirði. Þessi plata fór ekki hátt og hefur verið talað um hana sem algjört flopp en ekki mun þó hafa orðið mikið tap á útgáfu hennar, hún fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum og DV en slaka í Tímanum.

Hvort sem það var vegna dræmrar sölu Myndrænna áhrifa eða eitthvað annað þá dró Jóhann sig aftur í hlé frá sviðsljósinu en hann var þeim meira áberandi í söngakeppnum á þessum árum, og reyndar fyrr. Hann tók þátt í undankeppnum Eurovision keppninnar, tók þátt í erlendum sönglagakeppnum eins og American song festial, Castlebar, Song of the year og Unisong, að ógleymdri fyrstu Landslagskeppninni 1989 hér heima sem hann sigraði með lagið Við eigum samleið, í flutningi Stjórnarinnar.

1991 gaf Skífan út safnplötuna Gullkorn en hún hafði að geyma sautján lög eftir Jóhann, flest í flutningi annarra listamanna og höfðu komið út á tuttugu ára tímabili.

Tveimur árum síðar (1993) sendi saxófónleikarinn Halldór Pálsson frá sér plötuna Gullinn sax: instrumental en hún hafði að geyma lög Jóhanns, flest í ósungnum útgáfum en einnig söng Svíinn Nils Landgren nokkur laganna. Skífan gaf plötuna út en útgáfan var sögð vera í tilefni þess að Jóhann ætti þrjátíu ára starfsafmæli.

Jóhann hafði tvívegis samið lög gegn reykingum og sumarið 1994 birtist fyrst í plötuformi barátta hans fyrir náttúruvernd en það var smáskífa sungin af Björgvini Halldórssyni og hét Yrkjum Ísland, hún var af samnefndu náttúruverndarátaki gefin út til styrktar Landgræðslunni.

Jóhann G. Jóhannsson 1997

Jóhann 1997

Þrjú ár liðu áður en næsta plata leit dagsins ljós en það var haustið 1997. Forsagan var sú að Jóhann hafði verið gestur Ingólfs Margeirssonar og Árna Þórarinssonar í þættinum Á elleftu stundu um vorið en þar lék Jón Ólafsson á píanó. Eftir þáttinn hafði Jón samband við Jóhann í því skyni að fá hann til samstarfs og í kjölfarið varð platan Asking for love til sem Jón gaf út undir merkjum Eyrans. Á henni sungu nokkrir þekktir söngvarar s.s. Stefán Hilmarsson, Ellen Kristjánsdóttir og Emilíana Torrini auk Jóhanns sjálfs, lög hans frá ýmsum tímum en aðeins titillagið hafði komið út áður. Asking for love fékk prýðilega dóma í Morgunblaðinu.

Jóhann hafði fáeinum árum áður byrjað að læra að semja og vinna tónlist í gegnum tölvur undir handleiðslu Hilmars Þórðarsonar og Ríkharðs H. Friðrikssonar, og haustið 1999 leit ný plata dagsins ljós með raftónverkum eftir hann. Hún hlaut nafnið 3 pýramídar: Raftónverk eftir Jóhann G. Jóhannsson og var gefin út í tvö þúsund númeruðum og árituðum eintökum. Efni hennar sem var tilraunakennt, var skipt upp í þrennt, fortíð – nútíð – framtíð í tilefni af þeim tímamótin sem aldamótin voru, og tengdist myndverkinu Tindaseríu sem Jóhann hafði unnið, þriggja mynda seríu sem byggðist á þríhyrningsforminu. Tónlistin var langt frá því að vera „mainstream“ en platan hlaut þó góða dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins, þeim eina sem treysti sér til að rita um plötuna.

Sumarið 1999 vann Jóhann nokkur lög við ljóð Þórarins Eldjárn en þau voru síðan frumflutt í söng- og ljóðadagskránni Meira fyrir eyrað – Best að borða ljóð í Þjóðleikhúsinu en tilefnið var hálfrar aldar afmæli ljóðskáldsins og um leið Þjóðleikhússins árið 2000. Lögin, sem alls urðu tuttugu og fjögur komu út á plötunni Best að borða ljóð þar sem fjölmargir söngvarar komu við sögu. Útgáfan var styrkt af Menniningarsjóði Félags íslenskra hljómlistarmanna.

Áður hefur verið nefnd barátta Jóhanns gegn reykingum og árið 2002 var enn eitt hvatningarátakið sett af stað en að þessu sinni með fyrirmyndum nýrra tíma, þau Birgitta Haukdal, Hreimur Örn Heimisson, Jóhanna Guðrún, Jónsi í svörtum fötum og fleiri sungu þá þrjú lög eftir Jóhann á plötunni Hættum að reykja: Hvatningarátak. Á plötunni voru lögin Tóm tjara, Furðuverk og Svæla, svæla reykjarsvæla í nokkrum mismunandi útgáfum.

Safnplatan Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar kom út á vegum btb-útgáfunnar en að baki þeirrar útgáfu stóðu Kári Sturluson og Sölvi Blöndal jafnan kenndur við rappsveitina Quarashi, en sú sveit hafði flutt lagið Orð morð eftir Jóhann í sjónvarpsþættinum Mósaík sem Jónatan Garðarsson stýrði haustið 2003. Útgáfa þeirra Quarashi-liða á Orð morð var ekki að finna á plötunni heldur upprunaleg útgáfa Óðmanna, rappsveitin gaf lagið hins vegar síðar út á eigin plötu.

Hljómsveitin Sixties heiðraði Jóhann með plötunni Hvað er, hvað verður? árið 2006 þar sem mörg af vinsælustu lögum hans var að finna, fleiri hljómsveitir höfðu einnig og hafa síðan gefið út þekkt lög Jóhanns í eigin útgáfum og má þar nefna sveitir og tónlistarmenn eins og Á móti sól, Sniglabandið, Joe Gæ band, Þú og ég, Felix Bergsson og Gis Johannsson (með enskum texta). Sænska söngkonan Anita Strandell flutti lagið Don‘t try to fool me undir titlinum Lögn á eigin plötu árið 1977 og án efa fleiri erlendir listamenn.

Árið 2009 greindist Jóhann með krabbamein en nokkuð áður hafði góðkynja æxli verið fjarlægt úr líkama hans. Hann ákvað að hafna lyfjameðferð og takast á við meinið án lyfja. Mitt í þeirri baráttu sendi hann frá sér plötuna Á langri leið sem Sena gaf út en hún hafði að geyma tíu lög úr ranni Jóhanns. Fljótlega var hægt að kaupa plötuna á niðurhali á vefsíðu hans en slíkt var þá nýlunda. Á langri leið fékk góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og þokkalega á vefsetri Halldórs Inga Andréssonar, plötudómar.com.

Jóhann G.1Og Jóhann hélt áfram að koma út efni þrátt fyrir veikindi sín. Ári síðar, 2010 kom út tvöföld safnplata á vegum hans sjálfs, JohannG in english en hún var eins og titillinn gefur til kynna, á ensku. Fyrri platan hafði að geyma safn laga sem Jóhann söng sjálfur og var frá ýmsum tímum, mestmegnis af fyrstu breiðskífunni Langspil. Á síðari plötunni sungu ýmsir þekktir söngvarar lög Jóhanns (líkt og á safnplötunni Asking for love). Flest laganna höfðu komið út áður. Um mjög veglega útgáfu var að ræða og fylgdi heilmikið lesefni útgáfunni. JohannG in english hlaut þokkalega dóma í Fréttablaðinu og Fréttatímanum en mjög góða í Morgunblaðinu.

Um þetta leyti kom út plata með söngkonunni Kristínu Birgittu Ágústsdóttur (sem kallaði sig Stínu August) en hún bjó í Kanada. Platan innihélt eingöngu lög Jóhanns og hét Concrete world, þeirra á meðal mátti heyra hið margumtalaða Don‘t try to fool me auk tólf annarra. Hún hlaut ágætar viðtökur.

Að því kom að Jóhann hlyti að láta undan veikindum sínum og sumarið 2013 lést hann eftir langa baráttu. Þar með var saga þessa mikla tónlistarmanns öll. Eftir hann liggja fimm breiðskífur, fjórar smáskífur, nokkrar plötur með hljómsveitum, safnplötur og plötur sem aðrir fluttu lög hans.

Þá eru ótaldar safnplötur sem hafa að geyma einstök lög Jóhanns, breiðskífur hljómsveita einnig en þau lög skipta tugum sem slegið hafa í gegn og orðið sígild. Svo telst til að á þriðja hundrað laga eftir hann hafi komið út á um fjögurra áratuga tímabili.

Þá kom Jóhann við sögu á plötum fjölmargra annarra tónlistarmanna, hann söng og lék inn á hljómplötum listamanna eins og Valgeirs Guðjónssonar, Upplyftingar, Björgvins Gíslasonar, Björgvins Halldórssonar, Torfa Ólafssonar, Pálma Gunnarsson og Ruthar Reginalds svo fáeinir séu upptaldir, auk þess að koma að hljómsveitastjórn, útsetningum og upptökustjórn. Hann vann oft á tíðum með sér mun yngra tónlistarfólki og segja má að tónlist hans hafi brúað margar kynslóðir Íslendinga og virðingin fyrir henni sé tímalaus.

Efni á plötum