José Riba (1907-95)

Jose Riba

José Riba

José Riba starfaði við tónlist hér á landi í áratugi, hann starfrækti hljómsveitir, lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kenndi tónlist, svo áhrifa hans gætir víða.

Fiðluleikarinn José Magrina Riba (fæddur 1907 á Spáni) kom fyrst hingað til lands árið 1933 en hann var þá hluti af spænskri fjögurra manna hljómsveit sem hér var í heimsókn og lék á dansleikjum í Oddfellow-húsinu og Hótel Íslandi. Honum leist ekki verr á land og þjóð en svo að héðan fór hann heim til Spánar sex mánuðum síðar með íslenska unnustu upp á arminn.

Það var síðan eftir stríð, um miðja öldina sem þau hjónin komu aftur til Íslands en síðla árs 1950 réði hann sig til tónlistarkennslu við Tónlistarskólann á Akureyri hvar þau bjuggu í eitt og hálft ár. Norðan heiða starfrækti José hljómsveit.

1952 var José kominn suður til höfuðborgarsvæðisins og þar átti hann eftir verða búsettur síðan, utan þriggja sumra snemma á sjötta áratugnum sem hann var með eigin hljómsveit sem lék á hóteli á Akureyri.

José starfrækti einnig eigin hljómsveitir sunnan heiða, sveitir sem léku á stöðum eins og Silfurtunglinu en hann lék sjálfur einnig í öðrum hljómsveitum s.s. Hljómsveit Jan Morávek, auk þess sem hann spilaði dinnertónlist á veitingastöðum. Aðalhljóðfæri hans var fiðla en með hljómsveitunum lék hann ýmist á klarinettu eða saxófón. Hann lék ennfremur með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1962 í um tvo áratugi. Fáeinar útgefnar plötur hafa að geyma hljóðfæraleik hans.

José hlaut íslenskan ríkisborgararétt 1956 og þurfti því að taka íslenskt nafn, sem í hans tilfelli varð Ólafur Jósef Pétursson. Hann var þó aldrei kallaður neitt annað en José Riba.

Ein skemmtileg saga tengist nafni José Riba en þannig var að nokkrir Danir voru að borða á veitingastaðnum Naustinu og voru að skoða matseðilinn. Einn þeirra spurði þegar hann sá gæsarétt á matseðlinum „Er det rype (rjúpa)?“ og þjónninn svaraði um leið og hann leit upp á hljómsveitarpallinn, „Nej, det er Morávek!“, og hélt að Daninn hefði verið að spyrja um hljómsveitina.

José Riba lést 1995, þá kominn fast að níræðu.