Tríó Elfars Berg (1966-72)

Tríó Elfars Berg

Tónlistarmaðurinn Elfar Berg starfrækti í nokkur ár tríó í kringum 1970. Hljómsveitin var ýmist nefnd Tríó Elfars Berg eða Hljómsveit Elfars Berg og fór það eftir stærð hennar hverju sinni en yfirleitt var tríó skipanin við lýði. Sveitin var húshljómsveit í Klúbbnum en lék einnig eitthvað á öðrum skemmtistöðum borgarinnar.

Meðlimir Tríós Elfars Berg voru Hans Kragh trommuleikari, Gunnar Pálsson bassaleikari og Elfar sjálfur sem lék á píanó og orgel en Mjöll Hólm var lengst af söngkona sveitarinnar.

Einhverjar breytingar urðu á skipan sveitarinnar en Garðar Karlsson gítarleikari og Guðmar Marelsson trommuleikari voru í sveitinni með Elfari 1967 auk þess sem Þór Nielsen gítarleikari og Berti Möller bassaleikari og söngvari komu einnig við sögu hennar ef um stærri útgáfu hennar var að ræða. Þá söng Anna Vilhjálms með sveitinni um tíma.

Tríó / Hljómsveit Elfars Berg starfaði til ársins 1972, og kom aftur saman árið 1989.