Trompet (1998-2001)

Trompet

Hljómsveitin Trompet hafði verið starfandi í um tvö ár sem hálfgerður klúbbur þegar hún birtist skyndilega á sjónarsviðinu með plötu aldamótaárið 2000.

Meðlimir Trompets, sem vel að merkja var langt frá því að vera lúðrasveit heldur popprokksveit með kristilegu ívafi, voru Grétar Þór Gunnarsson (Gismo) bassaleikari, Oddur Carl Thorarensen söngvari, Jón Örn Arnarson gítarleikari, Einar Sigurmundsson gítarleikari, Ólafur Schram orgelleikari og Brynjólfur Snorrason trommuleikari.

Sveitin var stofnuð árið 1998, spilaði þó líklega fremur lítið opinberlega framan af og æfði með hléum þar sem tveir meðlimir sveitarinnar voru búsettir í Vestmannaeyjum en hinir fjórir á höfuðborgarsvæðinu. Það var svo árið 2000 sem sveitin gaf út plötu samnefnda henni og í kjölfarið reyndu þeir félagar að koma meira fram, komu m.a. á tónlistarhátíðinni Reykjavik music festival um sumarið. Platan fékk þokkalega dóma í DV og mjög góða í Morgunblaðinu.

Trompet starfaði eitthvað áfram eftir útgáfu plötunnar, að minnsta kosti fram undir áramót 2001-02. Í lokin virðist sem sveitin hafi í meiri mæli snúið sér að gospeltónlist.

Efni á plötum