Trió ´72 (1972-93)

Tríó ´72

Tríó ´72 starfaði í um tvo áratugi undir styrkri stjórn Bjarna Sigurðssonar harmonikkuleikara frá Geysi en það gekk einnig undir nöfnunum Tríó ´87, Tríó ´88 og Tríó ´92 eftir auglýsingum hvers tíma fyrir sig að dæma.

Bjarni Sigurðsson stofnaði sveitina 1972 og lék sjálfur á harmonikku og bassa en með honum í byrjun voru Grétar Guðmundsson söngvari og trommuleikari og Vilhelm Guðmundsson söngvari og harmonikku- og orgelleikari.

Tríóið var fyrst um sinn starfandi á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins en fljótlega fóru þeir félagar að spila um allt land, þorrablót og þess konar skemmtanir með blandaðri tónlist var aðal vettvangur tríósins enda skilgreindu þeir tríóliðar sveitina sem danstríó. Mottó sveitarinnar var lengi vel „Tríó ´72 er öllum falt – og fer um allt“.

Fjölmargir meðlimir fóru í gegnum tríóið og 1976 voru til að mynda Stefán P. Þorbergsson söngvari og gítarleikari og Már Elíson trommari og söngvari með Bjarna í því, og ári síðar voru Jón Engilbertsson gítarleikari og söngvari og Eggert Sveinbjörnsson trommuleikari í sveitinni með honum.

1978 skipuðu þeir Bjarni, Grétar og Kristinn Rósantsson Tríó ´72 en söngvarinn John Quirk var einnig með þeim um tíma sem fjórði meðlimur.

Tríó ´72 árið 1977

Litlar sögur fara af tríóinu næstu árin en ekki er þó víst að starfsemi þess hafi að öllu leyti legið niðri, haustið 1987 voru meðlimir sveitarinnar auk Bjarna, þeir Gunnar Árnason trommuleikari og Anton Kröyer gítarleikari. Þannig skipuð gæti tríóið hafa verið skipað uns yfir lauk 1993 þegar hún mun hafa hætt endanlega störfum, þá hafði söngkona að nafni Kolbrún [?] sungið með þeim um tíma haustið 1990.

Fjölmargir aðrir hafa verið viðloðandi Tríó ´72 í gegnum tíðina en upplýsingar vantar um hvenær, þannig mun Gylfi Ægisson hafa verið orgel-, gítar- og harmonikkuleikari í sveitinni um tíma, þá var Rúnar Þór Pétursson trommuleikari um skamman tíma í henni, sem og Ólafur Guðmundsson [?], Birgir Gunnlaugsson [?], Einar Gunnarsson gítarleikari, Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari, Rafn Sigurbjörnsson trommuleikari.

Allar frekari upplýsingar um Tríó ´72 eru vel þegnar.