Afmælisbörn 19. apríl 2018

Steinunn Birna Ragnarsdóttir

Í dag eru afmælisbörn Glatkistunnar tvö:

Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari er sextug og á því stórafmæli, hún lauk einleikaraprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Hún var ráðin tónlistarstjóri Hörpunnar þegar hún opnaði og gegndi því starfi þar til fyrir um ári síðan þegar hún tók við starfi óperustjóra Íslensku óperunnar. Steinunn Birna hefur gefið út plötur ein og í samstarfi við aðra hljóðfæraleikara, leikið á ýmsum tónleikum hér heima og erlendis, starfað fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið, og haldið utan um tónlistarhátíðina Reykholtshátíð, svo dæmi séu tekin.

Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur og bassaleikari Brúðarbandsins á einnig stórafmæli en hún er fertug á þessum degi. Hljómsveit hennar, Brúðarbandið, gaf út plötuna Meira! árið 2004 en síðan hefur lítið spurst til Unnar Maríu á tónlistarsviðinu en þeim mun meira á sirkussviðinu.