Barna- og unglingakór Akureyrarkirkju (1992-)

Barna- og unglingakór Akureyrarkirkju

Saga Barna- og unglingakórs Akureyrarkirkju er eilítið flókin þar eð um tvo eiginlega kóra er/var að ræða sem hafa sungið við ýmis opinber tækifæri norðanlands og víðar reyndar, bæði innan kirkjunnar og utan hennar.

Upphaf kórastarfsins nær aftur til haustsins 1992 þegar barnakór var settur á laggirnar við Akureyrarkirkju en hann var ætlaður börnum níu ára og eldri, kórinn hlaut nafnið Barnakór Akureyrarkirkju og var Hólmfríður S. Benediktsdóttir fyrsti stjórnandi hans.

Fyrstu þrjá veturna var aðeins um þessa einu kóreiningu að ræða en 1995 var farið að kalla kórinn Barna- og unglingakór Akureyrarkirkju, þá voru elstu söngfélagarnir komnir á unglingsaldur. Jón Halldór Finnsson var með kórinn frá 1996 og fram yfir aldamót þegar Sveinn Arnar Sæmundsson tók við, og síðan Petra Björk Pálsdóttir áður en Eyþór Ingi Jónsson hóf að stjórna honum árið 2003.

Um það leyti hafði kórnum verið skipt aftur í tvær einingar, annars vegar Barnakór Akureyrarkirkju og hins vegar Unglingakór Akureyrarkirkju sem síðan hlaut nafnið Stúlknakór Akureyrarkirkju þegar síðasti drengurinn yfirgaf kórinn. Sá kór starfar enn í dag undir því nafni.

Eyþór Ingi var stjórnandi Barnakórs Akureyrarkirkju (og stúlknakórsins einnig) áfram en Arnór Vilbergsson tók við af honum og stýrði honum uns Sigrún Magna Þórsteinsdóttir leysti hann af.

Kórinn hefur hin síðustu ár verið tvískiptur í yngri og eldri kór þar sem aldursskiptingin er 7-9 ára og 10-12 ára.