Barnakór Selfosskirkju (1988-2015)

Barnakór Selfosskirkju

Barnakór Selfosskirkju en stundum nefndur í sömu andrá og Unglingakór Selfosskirkju en saga þeirra er að nokkru samofin. Umfjöllun um kóranna tvo verður þó hér í tvennu lagi.

Upphaf þess sem um tíma var kallað Barna- og unglingakór Selfosskirkju má rekja til haustsins 1988 þegar barnakór var stofnaður á vegum Selfosskirkju. Glúmur Gylfason organisti Selfosskirkju var fyrstu árin stjórnandi kórsins en 1992 og 93 var Stefán Þorleifsson einnig stjórnandi með honum. Þá voru elstu meðlimir kórsins komnir á unglingsaldur og því lá beinast við að stofna annan kór, Unglingakór Selfosskirkju. Oft var þó kórunum tveimur tvinnað saman enda sungu þeir ósjaldan saman á tónleikum.

Glúmur hélt áfram að stýra barnakórnum og var reyndar stjórnandi hans allt til haustsins 2006 þegar Edit Molnár tók við af honum. Edit var með kórinn næstu tvö árin að minnsta kosti en eftir það fór minna fyrir kórstarfinu, að minnsta kosti í fjölmiðlum en vera má að kórinn hafi verið vel virkur í safnaðarstarfinu hjá Selfosskirkju. Barnakór Selfosskirkju virðist þó hafa hætt líklega alveg 2015.