Unglingakór Selfosskirkju (1993-2015)

Unglingakór Selfosskirkju

Unglingakór Selfosskirkju var stofnaður upp úr öðrum kór, Barnakór Selfosskirkju þegar meðlimir kórsins komust á unglingsaldur. Svo virðist sem kórarnir tveir hafi um tíma verið starfandi sem ein eining enda kom hann stundum fram undir nafninu Barna- og unglingakór Selfosskirkju.

Eftir 1995 virðist unglingakórinn þó hafa slitið sig alveg frá yngri kórnum en meðlimir gengu þó yfir í eldri kórinn þegar við átti, líklega var unglingakórinn að mestu eða jafnvel eingöngu skipaður stúlkum.

Glúmur Gylfason var stjórnandi Unglingakórs Selfosskirkju fyrst um sinn, og jafnvel Stefán Þorleifsson líka en haustið 1997 tók Margrét Bóasdóttir við kórnum og var með hann allt til ársins 2005 en Stefán tók þá aftur við. Hans naut þó ekki lengi við en Jörg E. Sondermann var stjórnandi 2006-08 og Edit Molnár eftir það, kórinn virðist hafa starfað til 2015.

Unglingakór Selfosskirkju tók virkan þátt í helgihaldi Selfosskirkju á sínum tíma en einnig kom hann við á ýmsum öðrum uppákomum utan kirkjunnar, þá tók hann þátt í ýmis konar tónlistartengdum viðburðum í samstarfi við aðra kóra og hljómsveitir, og fór utan í tónleikaferðalög í nokkur skipti, m.a. til Spánar, Danmerkur og Bandaríkjanna.

Unglingakór Selfosskirkju hefur komið við sögu á fáeinum kórasafnplötum, fyrst 1995 á plötunni Ég get sungið af gleði, þá á þremur plötum árið 1999, Kom englatíð: tólf íslenskir barnakórar syngja jólalög fyrir jafnaldra sína í þrælaánauð á Indlandi, Trúartónum og Söngur í Selfosskirkju en síðast nefndu plötuna gaf Selfosskirkja út, hún hafði að geyma tuttugu lög með kórum kirkjunnar.

Kórinn sendi síðan sjálfur frá sér plötuna Margt er sér til gamans gert árið 2001 en sú plata innihélt tónlist úr ýmsum áttum, Margrét Bóasdóttir var þá stjórnandi kórsins en platan var tekin upp í Hveragerðiskirkju af Sveini Kjartanssyni.

Efni á plötum