Afmælisbörn 12. júlí 2018

Ólafur Garðarsson

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Ríó-liðinn góðkunni Ágúst Atlason er sextíu og átta ára gamall í dag en hann er eins og allir vita einn af þeim sem skipuðu Ríó tríó, sem gaf út fjölda platna á árum áður. Ágúst hafði verið í Komplex, Næturgölum og Nútímabörnum áður en hann gekk til liðs við Ríóið en einnig hefur hann verið í hljómsveitum eins og Alfa beta, sem gaf út plötu seint á níunda áratugnum. Ágúst er faðir Telmu Ágústsdóttur er söng Tell me í Eurovision keppninni árið 2000.

Ólafur Garðarsson trommuleikari er einnig sextíu og átta ára á þessum degi. Ólafur lék með ógrynni þekktra hljómsveita á sínum tíma og má þeirra á meðal nefna Tilveru, Óðmenn, Change, Trúbrot, Pónik, Acropolis, Celsíus, Náttúru og Tempó svo aðeins brot af þeim séu talin upp. Þá þarf vart að nefna að hann lék inn á fjölda platna á trommaraferli sínum.

Að síðustu er hér nefndur söngvarinn Guðjón Guðmundsson eða Gaupi eins og hann er oft nefndur en hann er þekktastur í dag fyrir íþróttafréttamennsku sína. Gaupi, sem í dag er sextíu og fjögurra ára gamall var hins vegar söngvari í nokkrum hljómsveitum á áttunda áratugnum og eru þær helstu Jeremías, Námsfúsa Fjóla, Fjóla, Goðgá og Ernir.