Blái hatturinn (1990-94)

Blái hatturinn

Söngkvartettinn Blái hatturinn kom víða við í íslensku tónlistar- og skemmtanalífi á fyrri hluta tíunda áratugnum.

Það mun hafa verið leikkonan Edda Heiðrún Backman sem stofnaði sönghópinn vorið 1990 en aðrir meðlimir hans voru Egill Ólafsson, Jóhann Sigurðarson og Ása Hlín Svavarsdóttir, þá var Jóhann G. Jóhannsson píanóleikari órjúfanlegur hluti hópsins.

Blái hatturinn vakti fyrst verulega athygli þegar samnefnd söngskemmtun var sett á svið á Hótel Borg en þar sérhæfði kvartettinn sig í stríðsárastemmingunni og tónlistinni frá þeim tíma. Í kjölfarið fóru þau að koma fram víðar s.s. á Hótel Sögu og sungu m.a. á erlendum vettvangi. Sjónvarpsþáttur var einnig gerður um kvartettinn, sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu um jólin 1994 eða um það leyti sem Blái hatturinn hætti störfum.