Bliss (1994)

Ballhljómsveitin Bliss var starfandi árið 1994, sendi frá sér lag á safnplötunni Heyrðu 4 og túraði með Pláhnetunni á lendum sveitaballanna þá um sumarið.

Meðlimir sveitarinnar voru sagðir vera þeir Jochum Jóel Matthíasson söngvari, Þiðrekur Ólafsson bassaleikari, Pétur Hallgrímsson trommuleikari og Grímur Helgason gítarleikari. Tvö fyrst nefndu nöfnin finnast hins vegar hvergi í þjóðskrá og er hér með óskað eftir nánari upplýsingum um þá.

Sumarsmellur sveitarinnar, Lilla Jóns þekktu flestir í meðförum Guðbergs Auðunssonar frá árinu 1959, en færri muna eftir Bliss-útgáfunni sem fékk fremur litla spilun og athygli.

Ekki heyrðist meira frá sveitinni en haustið 1997, þremur árum síðar, lék sveit með sama nafni á tónleikum á Akureyri. Óljóst er um hvort sömu sveit er að ræða.