Inflammatory (1992)

Inflammatory

Inflammatory

Dauðarokkshljómsveitin Inflammatory var ein af þeim öflugri í dauðarokkssenunni upp úr 1990 og keppti í Músíktilraunum 1992, komst þar reyndar í úrslitin.

Sveitin ól af sér nokkra tónlistarmenn sem urðu þekktari fyrir annars konar tónlist síðar en dauðarokk en þeir voru aðeins fjórtán og fimmtán ára þegar sveitin kom fram á Músiktilraunum.

Meðlimir sveitarinnar þá voru Hilmar Þór Ólafsson söngvari, Kristján Jónsson bassaleikari, Bjarni Grímsson trommuleikari (Leaves o.fl.), Pétur Þór Benediktsson gítarleikari (Tristian o.fl.) og Arnar Guðjónsson gítarleikari (Leaves o.fl.).

Frægt er að sveitin átti í innri átökum á úrslitakvöldinu en þá hafði Arnar gítarleikari ákveðið að ganga til liðs við aðra sveit sem keppti í tilraununum, Condemned. Mórallinn í bandinu var því í molum þetta kvöld og þegar trommuleikarinn klikkaði á einhverju atriðinu trompaðist söngvarinn og sparkaði í vegg. Þeir sem eiga upptökur frá þessu úrslitakvöldi geta heyrt þegar hann sparkar í vegginn. Þrátt fyrir þetta endaði sveitin í þriðja sæti tilraunanna á eftir Kolrössu krókríðandi og In Memoriam.

Ekki er vitað mikið um sveitina eftir þessa miklu dramatík úrslitakvöldið en síðsumars auglýsti hún eftir söngvara, reikna má með að Inflammatory hafi lognast fljótlega útaf eftir það en engar heimildir er að finna um sveitina af því loknu.