Bogomil Font (1990-)

Bogomil Font á upphafsárum sínum

Nafn Bogomil Font er iðulega tengt hljómsveitinni Milljónamæringunum en karakterinn hefur komið miklu víðar við í tónlistinni heldur en með þeirri einu sveit, t.d. kom aðeins ein plata út með Bogomil Font og Milljónamæringunum.

Það er kamelljónið Sigtryggur Baldursson trommuleikari Sykurmolanna, Þeys o.fl. sem er maðurinn á bak við Bogomil Font en hugmyndin að baki þessu aukasjálfi hans mun hafa kviknað í Zagreb í þáverandi Júgóslavíu þar sem Sykurmolarnir var að túra árið 1989, þá sátu þeir að sumbli félagarnir Sigtryggur og Bragi Ólafsson bassaleikari Sykurmolanna (síðar rithöfundur) á hótelbar þegar upp kom sú hugdetta að setja á stofn hljómsveit meðal meðlima sveitarinnar auk vina þeirra þar sem hver og einn léki á annað hljóðfæri en honum væri tamt, og sú sveit léki létta djasstónlist í anda gömlu krúneranna Frank Sinatra, Bing Crosby o.fl. Meðlimir sveitarinnar væru auk þess fínir í tauinu en spilamennskan ekki endilega hnökralaus.

Bragi tók upp nafnið Konráð Bé og tók að sér hljómsveitastjórahlutverkið en Sigtryggur valdi nafnið Bogomil Font fyrir þetta aukasjálf sitt, fyrra nafnið (Bogomil) mun hann hafa rekist á á dagatali en það mun vera verndardýrlingur fæðingardags hans, síðara nafnið kemur úr lausu lofti, af þessum sökum hefur Sigtryggur ætíð sagt Bogomil Font vera af júgóslavneskum ættum.

Í framhaldi af því var Jazzhljómsveit Konráðs Bé sett á laggirnar sumarið 1990 og innihélt hún meðlimi Sykurmolanna auk nokkurra félaga þeirra s.s. Sigurjóns Kjartanssonar píanóleikara, Möggu Stínu xýlófónleikara og fleiri en á annan tug hljóðfæraleikara skipuðu sveitina undir stjórn trommuleikarans Konráðs Bé. Bogomil Font var söngvari sveitarinnar sem gaf út eitt jólalag, Jólin alls staðar, og lék í nokkur skipti opinberlega – þar var í kynningu á sveitinni iðulega talað um hina „glaðbeittu og eggjandi rödd Bogomils Font“.

Jazzhljómsveit Konráðs Bé varð ekki langlíf og þegar Sigtryggur nefndi frekara samstarf við Braga hafði sá síðarnefndi ekki áhuga enda voru þá Sykurmolarnir í þann mund að hætta samstarfinu og hann hugði á rithöfundaferil. Sigtryggur lagði ekki árar í bát heldur vildi halda nafni Bogomils á lofti og kom fram fáeinum sinnum árið 1991, m.a. með KK-bandi og hljómsveitinni Sálarháska en einnig komu þau Sigtryggur og Margrét Örnólfsdóttir úr Sykurmolunum fram sem tvíeykið Kavíar þar sem Margrét annaðist undirspil á harmonikku og píanó en Bogomil sá um að raula sig í gegnum gamla slagara a la Haukur Morthens og fleiri. Þetta sama ár (1991) birtist karakterinn einnig á plötu Current 93 og Hilmars Arnar Hilmarssonar, Island en sú útgáfa plötunnar mun hafa verið eingöngu gefin út í Bretlandi.

Bogomil Font and Milljónamæringarnir

Það var svo vorið 1992 sem Milljónamæringarnir komu til sögunnar en þeir Sigtryggur og Steingrímur Guðmundsson trommuleikari stofnuðu þá sveit sem reyndar átti einungis upphaflega að koma fram í tvö skipti yfir eina helgi en raunin varð allt önnur. Sigtryggur hefur lýst því í blaðaviðtölum að í fyrstu hefði fólk átt erfitt með að taka Bogomil Font alvarlega en smám saman breyttist það og þegar á leið sumarið urðu hann og Milljónamæringarnir feikivinsælir með prógramm sitt sem samanstóð af gömlum slögurum og segja má að þeir hafi startað mambó-æði sem gekk yfir landið næstu tvö árin.

Mikið var að gera hjá Sigtryggi þetta sumar (1992) og langt fram á haustið, Milljónamæringarnir spiluðu tvisvar til þrisvar í viku, og sjálfur kom Bogomil stundum fram með smærri sveitum og jafnvel einn sem kynnir á skemmtunum o.þ.h. Reyndar kom hann einnig fram í nokkur skipti á kaffihúsum og víðar í Bandaríkjunum þegar Sykurmolarnir voru á sínum síðasta tónleikatúr (ásamt U2 á Zooropa-túrnum) þar í landi um haustið, ekki liggur þó fyrir hvort Jazzhljómsveit Konráðs Bé var þá endurvakin.

Milljónamæringarnir höfðu einnig yfirið nóg að gera um veturinn 1992-93 og þessar óvæntu vinsældir nýttu þeir sér næsta sumar þegar herlegheitin voru tekin upp á tveimur dansleikjum í Hlégarði í Mosfellssveit í mars 1993 og gefin út af Smekkleysu snemma um sumarið á plötunni Ekki þessi leiðindi.

Platan, fimmtán laga, sló rækilega í gegn og varð söluhæsta plata sumarsins, seldist í á níunda þúsund eintaka og fjölmörg laganna nutu vinsælda breiðs aldurhóps það sumarið. Hæst bar þar eina frumsamda lagið, Marsbúa cha cha cha sem heyrist enn reglulega spilað í útvarpi en einnig má nefna lög eins og Hæ mambó, Fly me to the moon, Kaupakonan hans Gísla í Gröf og Rock calypso í réttunum. Ekki þessi leiðindi hlaut ágæta dóma í Vikunni, Tímanum, Degi, Morgunblaðinu og DV. Platan var helguð minningu Hauks Morthens sem lést 1992.

Bogomil Font og Milljónamæringarnir voru þar með orðin vinsælasta ballsveit sumarsins enda töluvert öðruvísi en sveitaballaböndin en þetta sumar keppti sveitin við Pláhnetuna, SSSól og Pelican auk fleiri sveita. Þetta sumar átti Bogomil Font einnig lag (Nice and easy) í kvikmyndinni Stuttur frakki, lag sem síðan kom út á plötu með tónlist úr myndinni sem og lagið Papermoon sem kom út á safnplötunni Íslenskt sumar 1993. Hvorugt laganna var á plötu Milljónamæringanna.

Bogomil Font

En það var ljóst að dagar Bogomil með Milljónamæringunum væru taldir að minnsta kosti í bili þar sem Sigtryggur flutti til Bandaríkjanna en eiginkona hans var þá á leið í nám þar um haustið 1993.

Milljónamæringarnir héldu þó samstarfinu áfram enda engin ástæða fyrir þá að hætta við svo búnar vinsældir, nýr söngvari, Páll Óskar Hjálmtýsson tók við og síðar komu fleiri söngvarar við sögu sveitarinnar s.s. Bjarni Arason, Stefán Hilmarsson, Ragnar Bjarnason og fleiri. Bogomil átti þó eftir að syngja með sveitinni einnig þegar hann kom til landsins.

Eðlilega fór nú mun minna fyrir Bogomil Font næstu misserin, um veturinn var sýnd í Ríkissjónvarpinu hálftíma löng mynd um raularann undir nafninu Leitin að Bogomil Font (e. Martein Þórsson og Sigtrygg Baldursson) en hún fjallaði um „eistneskan sjónvarpsmann“ sem kemur til Íslands til að gera heimildamynd um Bogomil Font.

Sigtryggur bjó vestra næstu árin og sinnti því Bogomil hlutverkinu minna en ella, hann kom reyndar reglulega heim til Ísland og tók lagið með Milljónamæringunum en þar sem Páll Óskar var þá orðinn söngvari sveitarinnar kom það jafnvel fyrir að hann skemmti í samkeppni við gömlu hljómsveitarfélaga sína, með hljómsveitum eins og Öreigunum og Gráa fiðringnum.

Í einni af Íslandsferðum sínum gaf Bogomil sér tíma til að syngja dúett með Páli Óskari og Milljónamæringunum í gamla slagaranum Something stupid, sem varð síðan vinsælasta lag nýrrar plötu Milljónamæringanna sem kom út um sumarið 1994.

Plata Bogomil Font og Milljónamæringanna, Ekki þessi leiðindi sem komið hafði út sumarið 1993 kom nú út í Bretlandi haustið 1994 á vegum One little indian og var henni fylgt lítillega eftir þar í landi en Bogomil Font kom þá fram í nokkur skipti í London fyrir milligöngu Jakobs Frímanns Magnússonar, sem þá gegndi hlutverki menningarfulltrúa sendiráðs Íslands í Bretlandi.

En Sigtryggur vann að nýrri plötu Bogomils í Bandaríkjunum, hann hafði tekið ástfóstri við tónlist hins þýska Kurts Weill og fékk bandaríska tónlistarmenn með sér í upptökur á plötu sem síðan fékk nafnið Út og suður: Bogomil Font syngur lög Kurt Weill, og kom út á vegum Smekkleysu fyrir jólin 1995. Hún kom út í tveimur útgáfum, með og án lagsins Bilbao song en einnig kom út þriggja laga smáskífa.

Út og suður var með allt öðru sniði en fyrri plata Bogomil Font, Milljónamæringarnir voru til að mynda víðs fjarri en tónlistin sem var að megninu til eins konar söngleikjatónlist var ekki eins aðgengileg og slagararnir sem allir þekktu af fyrri plötunni. Út og suður hlaut þó ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi, og mjög góða í DV.

Tvö lög af plötunni Út og suður nutu nokkurra vinsælda, Hrollvekjan um Makka hníf og Speak low en myndband við síðarnefnda lagið var tilnefnt til MIDEM-verðlauna árið eftir.

Bogomil Font

Sigtryggur kom til landsins til að kynna plötuna og fylgja henni lítillega eftir, þótt ekki væri farið í ballspilamennsku af sama krafti og einu og hálfu ári fyrr kom hann fram bæði með stærri og minni sveitum s.s. djasstríóum enda hæfði tónlistin þess konar stærð af hljómsveitum. Bogomil endurnýjaði þá einnig kynnin við Milljónamæringana og þá hafði hann áður einnig komið fram ásamt Bubba Morthens og Agli Ólafssyni með Tamlasveitinni. Árið 1995 kom Bogomil Font einnig við sögu á plötu Ásgeirs Óskarssonar, Veröld smá og stór.

Sigtryggur sparaði Bogomil Font næstu árin og minna fór því fyrir söng hans, hann kom þó heim til Íslands með reglulegu millibili, m.a. til að syngja með Milljónamæringunum en einnig með Jagúar, Endurskoðendunum og fleiri sveitum. Hann söng t.a.m. tvö lög á plötu Milljónamæringanna, Þetta er nú meiri vitleysan, sem kom út 2001.

Á árunum 2000-03 bjó Sigtryggur í Hollandi en þá flutti hann heim til Íslands og kom Bogomil aðeins fram á sjónarsviðið aftur, hann söng t.a.m. lagið Reykjavík á safnplötunni Sólargeislar og Skítamórals-slagarann Farin á safnplötunni Svona er sumarið 2004 árið 2004 en sama ár hóf samstarf hans við Flís tríóið. Reyndar sagði hann í viðtali að á þeim tímapunkti hefði hann verið kominn að því að leggja Bogomil Font endanlega á hilluna en þeir Flís-liðar hefðu eiginlega komið í veg fyrir það. Um það leyti hóf hann einnig að syngja með Stórsveit Reykjavíkur og árið 2006 komu út tvær plötur þar sem hann söng með Flís og Stórsveitinni.  Báðar plöturnar slógu nokkuð í gegn.

Plata Bogomils og Flís, Bananaveldið var gefin út af Smekkleysu og fékk góða dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hún fékk tilnefningu í flokki dægurtónlistar sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum. Flís var reyndar ekki alveg tríó á plötunni og fékk til aðstoðar nokkra aukamenn sem hæfðu þeirri kalypsó tónlist sem á plötunni var en lagið Veðufræðingar (Veðurfræðingar ljúga) naut nokkurra vinsælda og gerir enn þegar þannig ber undir.

Hin platan, Majones jól, með Bogomil Font og Stórsveit Reykjavíkur, sló ekki síður í gegn en hún er jólaplata eins og nafnið gefur til kynna og fær því árlega athygli. Lög eins og titillagið Majones jól, Ég sá mömmu kyssa jólasvein og Hinsegin jólatré heyrast fyrir hver jól og síðast talda lagið er að öllum líkindum fyrsta jólalagið sem fjallar um samkynhneigt jólatré. Þess má geta að lagið Jólin allstaðar er að finna á plötunni en það var einmitt lagið sem kom Bogomil Font fyrst á kortið með Jazzhljómsveit Konráðs Bé. Majones jól fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu en hún var tileinkuð minningu Sæbjörns Jónssonar trompetleikara sem m.a. hafði stjórnað Stórsveit Reykjavíkur en hann lést 2006. Stórsveit Reykjavíkur gaf plötuna sjálf út.

Grái fiðringurinn og Bogomil Font

Bakverðirnar var hljómsveit sem Bogomil Font kom að 2007 en með þeirri sveit söng hann gamla slagarann Skagamenn skoruðu mörkin sem kom út á samnefndri safnplötu, það sama ár 2007 söng hann einnig fjögur lög á plötu Milljónamæringanna, Alltaf að græða sem þá höfðu tekið upp nafnið Millarnir.

Lítið hefur farið fyrir Bogomil Font allra síðustu ár enda hefur Sigtryggur haft mikið að gera í öðrum tónlistartengdum verkefnum en söngvarinn hefur þó birst á plötum Helga Björnssonar (Helgi Björnsson syngur dægurperlur ásamt gestum) árið 2011 og Tómasar R. Einarssonar en á síðarnefndu plötunni sem kom út 2016 er platan í nafni Tómasar, Sigríðar Thorlacius og Bogomils Font, hún ber heitið Bongó. Þá hefur Bogomil komið stundum fram ásamt Sigríði undir nafninu Bógó & Lóló, einnig með Orgeltríói Karls Olgeirssonar og troðið upp í sjónvarpsþáttum Sigtryggs, Hljómskálanum.

Söng Bogomils Font má heyra á fjöldanum öllum af safnplötum s.s. Jól í Rokklandi (2008), 100% sumar (2006), Pottþétt sumar (1999), Sólargeislar (2000), Salaveisla aldarinnar (1996) og Íslensku tónlistarverðlaunin 2006 (2007) en einnig hefur hann sungið á plötum eins og með Ragnari Bjarnasyni, Vertu ekki að horfa: afmælisútgáfa (2004), Sigríði Thorlacius og Heiðurpiltum, Á Ljúflingshól (2009), Kata rokkar (lög eftir Theódór Einarsson) (2005) og Lögreglukór Reykjavíur, Gas (2011).  Ekki er þó alltaf ljóst hvort Sigtryggur Baldursson eða Bogomil Font er söngvarinn.

Sögu Bogomils Font er a.m.k. hvergi nærri lokið og er ekkert sem bendir til að hann sé að leggja sönginn á hilluna þórr minna fari fyrir honum nú en áður.

Efni á plötum