Jazzhljómsveit Konráðs Bé (1990-91)

Jazzhljómsveit Konráðs Bé

Djasshljómsveit Konráðs Bé

Jazzhljómsveit Konráðs Bé er líklega ein af þeim sveitum sem hefur fengið á sig nánast goðsagnakenndan blæ án þess þó að hinn almenni borgari hafi nokkurn tímann heyrt af henni, margir kannast þó við eina lag sveitarinnar sem hún sendi frá sér og er spilað um hver jól í útvarpi.

Sveitin sem var súperband, myndað úr meðlimum Sykurmolanna, Ham, Risaeðlunnar og Langa Sela og Skugganna meðal annarra, starfaði í um eitt og hálft ár og átti sinn þátt í að skapa vinsældir Milljónamæringanna síðar, þótt ótrúlegt sé.

Forsagan er sú að þegar hljómsveitin Sykurmolarnir voru á hátindi frægðar sinnar, voru þau að leika á tónleikum í fyrrum Júgóslavíu haustið 1989. Þá sátu þeir Bragi bassaleikari og Sigtryggur trommuleikari á bar á hóteli í Zagreb þegar Bragi viðraði þá hugmynd um að stofna hliðar- eða dótturhljómsveit Sykurmolanna sem myndi leika lög í anda Franks Sinatra og annarra slíkra söngvara. Skilyrði var þó að leika ekki á sitt eigið hljóðfæri enda væri hugmyndin að sveitin spilaði lögin illa, meðlimir væru fínir í tauinu og helst í glasi.

Hugmyndin varð síðan að veruleika sumarið 1990 þegar Jazzhljómsveit Konráðs Bé var formlega stofnuð og hún átti eftir að spila vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið um haustið og næsta ár, fyrst kom sveitin fram í útgáfuhófi á vegum Smekkleysu, útgáfufyrirtækis Sykurmolanna.

Jazzhljómsveit Konráðs Bé varð eðlilega mjög fjölmenn hljómsveit (allt upp í fjórtan manns) enda var um stórsveit að ræða, flestir meðlimir hennar gengu undir dulnefnum og skal fyrstan nefna sjálfan hljómsveitarstjórann Konráð Bé (Braga Ólafsson) trommuleikara, aðrir voru Bogomil Font (Sigtryggur Baldursson) söngvari, Sólveig Hrafnsdóttir hristuleikari, Siggi Best (Sigurjón Kjartansson) píanóleikari, Ívar Bongó (Ívar Ragnarsson) ásláttarleikari, Jón Skuggi (Jón Steinþórsson) kontrabassaleikari, Betúla Jónasson (Björk Guðmundsdóttir) klarinettuleikari, Magga Stína (Margrét Kristín Blöndal) sýlófónleikari, Dóra Wonder (Halldóra Geirharðsdóttir) saxófónleikari, Adler Papafoti (Einar Örn Benediktsson) trompetleikari, Böggi (Björgúlfur Egilsson) rafgítarleikari, Margrét Örnólfsdóttir harmonikkuleikari og Kommi (Kormákur Geirharðsson) básúnuleikari. Þór Eldon var með í sveitinni í upphafi en hætti, og eitthvað var Þórarinn Kristjánsson gítarleikari einnig viðloðandi hana. Johnny Triumph (Sjón) kom stundum fram með sveitinni sem gestasöngvari.

Jazzhljómsveit Konráðs Bé1

Sveitin með Konráð Bé fremstan í flokki

Jazzhljómsveit Konráðs Bé lagði upp laupana um svipað leyti og þegar Sykurmolarnir fóru hverjir í sína átt en hugmyndin hafði gripið Sigtrygg og hann vildi halda áfram með sinn karakter, Bogomil Font, og stofna nýja sveit sem þó væri minni í sniðum en Jazzhljómsveit Konráðs Bé. Bragi tók illa í hugmyndina enda hafði hann þá ákveðið að hætta allri tónlistariðkun og verða rithöfundur. Það varð því úr að Sigtryggur stofnaði nýja sveit upp úr þessu ævintýri og kallaði hana Bogomil Font og Milljónamæringana. Það er svo önnur saga.

Eitthvað var tekið upp af efni með Jazzhljómsveit Konráðs Bé en eitt þeirra laga kom út og fær reglulega spilun í útvarpi, það er jólalagið Jólin alls staðar, sem finna á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld. Einnig hefur Smekkleysa sýnt kvikmyndaupptökur frá tónleikum sveitarinnar svo eitthvað er varðveitt með henni í mynd.