Jazzhátíð Egilsstaða [tónlistarviðburður] (1988-)

Jazzhátíð Egilsstaða logoJazzhátíð Egilsstaða er elsta djasstónlistarhátíð landsins en hún hefur verið haldin árlega samfleytt síðan sumarið 1988.

Það var að frumkvæði Árna Ísleifssonar sem hátíðin var sett á laggirnar en hugmyndin ku hafa fæðst er þeir Steinþór Steingrímsson (KK-sextett o.fl.) áttu samtal á gönguferð um Egilsstaði, Árni var þá nýfluttur austur.

Árni hélt utan um hátíðina allt til ársins 2005 er hann stýrði henni í síðasta skipti en Jón Hilmar Kárason hafði tekið við framkvæmdastjórn hátíðarinnar 1996. 2007 var Árni sæmdur gullheiðursmerki FÍH á hátíðinni fyrir framlag sitt til hennar en hann var þá áttræður.

Enn er Jazzhátíð Egilsstaða haldin sem aldrei fyrr og hefur fært svolítið út kvíarnar á síðustu árum, annars vegar er hún nú ekki lengur bundin við Egilsstaði eingöngu heldur allt Austurland og hefur því gengið undir nafninu Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi undanfarin ár, hins vegar er hátíðin ekki lengur einskorðuð við djasstónlist heldur kemur annars konar tónlist einnig við sögu á henni.

Það tónlistarfólk sem heiðrað hefur Jazzhátíð Egilsstaða með nærveru sinni og tónlist skiptir nú orðið þúsundum en árlega koma við sögu hennar fjöldinn allur af þekktu og óþekktu, íslensku sem erlendu tónlistarfólki.