Bonjour (1983)

Bonjour

Bonjour var ekki starfandi hljómsveit en þegar tveir bræður gáfu út níu laga plötu haustið 1983 kölluðu þeir sig Bonjour.

Bræðurnir tveir Páll og Sigurbjörn Sigurbjörnssynir sendu frá sér plötuna Mammon í minningu bróður síns, Árna sem þá var látinn, en einnig komu við sögu á plötunni Rafn bróðir þeirra sem sá um hljóðritun og systir, Aðalheiður sem söng raddir á plötunni. Páll og Sigurbjörn sömdu tónlistina utan eitt lag sem Árni hafði samið.

Bonjor fékk til sín nokkra valinkunna tónlistarmenn til að leika með sér á Mammon, Magnús Stefánsson, Vilhjálm Guðjónsson og Sigurð Gröndal, en sjálfir sáu þeir um sönginn. Platan hlaut slaka dóma í DV og Morgunblaðinu en heldur skárri í Þjóðviljanum

Löngu síðar var gerð stutt heimildamynd um Sigurbjörn sem þá var heimilislaus í Keflavík, og bar myndin nafnið Bonjour Mammon eftir plötunni. Tónlist af henni ómaði þá m.a. í bakgrunninum.

Efni á plötum