Bootlegs (1986-91 / 1998-)

Bootlegs

Hljómsveitin Bootlegs getur að nokkru leyti talið til þeirra sveita sem vakti íslenskt rokk af nokkurra ára svefni á síðari hluta níunda áratugarins, hún er um leið ein af þeim langlífustu í þungu rokki og er enn starfandi.

Rétt er að nefna áður en lengra er haldið að þegar Bootlegs var stofnuð (snemma vors 1986) hafði ríkt nokkur stöðnun í íslensku tónlistarlífi, gleðipoppið var við völd í ballmenningunni og lítið rokk til staðar, Drýsill hafði reynt að vekja athygli með plötu sinni 1985 en varð lítið ágengt en hins vegar blómstraði jaðarmenningin nokkuð á þessum tíma með sveitum eins og S.h. draumi, Sogblettum og síðar Bleiku böstunum o.fl.

Í Músíktilraunum hafði gleðipoppið verið ríkjandi um tíma og þar birtist Bootlegs í fyrsta sinn vorið 1987. Sveitin kom úr Garðabænum og hafði verið stofnuð sem fyrr segir vorið 1986 en meðlimir hennar í upphafi voru þeir Ellert Ingimundur Þorkelsson (Elli) bassaleikari, Kristján Ásvaldsson (Stjúni) trommuleikari og Jón Örn Sigurðsson (Senior) gítarleikari og söngvari. Reyndar mun hafa verið annar gítarleikari í blábyrjun, Ríkharður Örn Kristjánsson sem var þá fluttur erlendis og var ekki með í Músíktilraununum.

Bootlegs lék hratt þungt rokk sem skilgreint var sem speed metal, og vakti nokkra athygli fyrir framlag sitt þótt ekki kæmist sveitin áfram í úrslit. Meðal áhorfenda var hins vegar Guðmundur Hannes Hannesson gítarleikari sem hreifst af bandinu, setti sig í samband við þá félaga og gekk stuttu síðar í Bootlegs. Þannig skipuð herjaði sveitin strax á áhugafólk um rokk með því að leika á tónleikum um sumarið víða um borg, m.a. á Rykkrokk tónleikunum við Fellahelli og einnig í hljómsveitakeppni sem haldin var í tengslum við útihátíð í Húnaveri um verslunarmannahelgina. Þeir poppskríbentar sem fylgdust með sveitinni voru sammála um að hún hefði tekið stórt skref upp á við með tilkomu Hannesar gítarleikara.

Á Músíktilraunum 1987

Þrátt fyrir þetta fljúgandi start fór minna fyrir sveitinni um veturinn 1987-88 en búast hefði mátt við og töldu margir daga hennar taldir en hún birtist aftur um vorið 1988 á Músíktilraunum og nú skyldi gera aðra atlögu að þeirri keppni. Sveitin var skipuð sömu fjórmenningum og síðast hafði spurst til, og menn voru nú á því að tónlistina mætti jafnvel fremur flokka undir thrash metal en speed metal að þessu sinni, þeir Bootlegs-liðar sungu nú á íslensku en ári fyrr hafði sveitin flutt Músíktilraunaprógramm sitt á ensku. Það dugði ekki til, Bootlegs komst ekki áfram í úrslitin og þetta árið sigraði gleðibandið Jójó frá Skagaströnd, fyrra árið (1987) hafði Stuðkompaníið borið sigur af hólmi og 1986 Greifarnir.

Sveitin hélt á vit tónleikahalds um sumarið eins og ári fyrr og í blaðaviðtali voru þeir nokkuð kokhraustir og sögðust eiga efni á þrjár til fjórar plötur. Við svo búið fór Bootlegs á fullt við að vinna efni á plötu og biðu margir eftir því að hún kæmi út. Einhver bið varð þó á því að hún léti sjá sig en sveitin varð þó miklu virkari næsta vetur (1988-89) en þann á undan.

Allt er þá er þrennt er og Bootlegs mætti til leiks í þriðja skiptið í Músíktilraunir Tónabæjar (1989). Um svipað leyti barst sú frétt að sveitin hefði landað útgáfusamningi við Smekkleysu en sú útgáfa stóð þá í ströngu við að kynna íslenska tónlist erlendis og voru t.a.m. Risaeðlan, Bless og Ham í þeim pakka. Sveitin komst loks í úrslit tilraunanna og reyndar gott betur því hún hafnaði í öðru sæti á eftir hinum hafnfirsku Laglausum, Bróðir Darwins frá Akranesi varð í þriðja sæti. Með þeim Músíktilraunum mætti segja að þungt rokk hafi barið að dyrum keppninnar því sveitirnar í efstu sætunum voru mun þyngri en verið hafði árin á undan.

Bootlegs

Bootlegs varð þessi viðurkenning augljós hvatning, bæði útgáfusamningurinn og annað sæti Músíktilraunanna, og hún lék víða um sumarið. Þá æfði með þeim um tíma gítarleikarinn Gunnar Bjarni Ragnarsson en var ekki fastur liðsmaður (ekki fyrr en síðar). Sveitin endurtók leikinn og lék í Húnaveri og Rykkrokk-tónleikunum en mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu þó.

Það var síðan um haustið 1989 sem platan kom út á vegum Smekkleysu, hún fékk titilinn WC monster og fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu. Í uppgjöri DV um áramótin 1989-90 var hún í hópi bestu platna ársins að mati gagnrýnenda þar. Sveitin hlaut aukinheldur pláss á safnplötu Smekkleysu World domination or death, sem var ætluð til kynningar á tónlist útgáfunnar fyrir erlendan markað. Þess má geta að lögin á WC monster voru bönnuð á útvarpsstöðvunum Bylgjunni og Stjörnunni, þetta var hreinlega of þungt fyrir þær.

Bootlegs hlaut þannig nokkuð almenna góða kynningu þótt um hálfgerða jaðartónlist væri að ræða  en hún vakti líf í hjörtum rokkþyrstra ungmenna og fleiri slíkar sveitir spruttu upp um land allt, sjálfsagt má að einhverju leyti rekja dauðarokksbylgjuna eins og hún hefur gjarnan verið kölluð til sveitarinnar, en hljómsveitir sem spiluðu hart og þungt rokk spruttu upp eins og gorkúlur næstu árin. Þar má nefna sveitir eins og Sororicide, Strigaskór nr. 42, Suicidal diarrhea, Baphomet og Torture svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.

Þá fékk Bootlegs ágæta athygli í sjónvarpsþættinum Á tali með Hemma Gunn vorið 1990 og kom þá fyrir sjónir hins almenna sjónvarpsáhorfanda en hætt er við að sumir af eldri kynslóðunum hafi orðið bumbult af. Um það leyti hafði sveitin einnig reynt að komast inn í Landslagskeppnina sem var lagakeppni sambærileg undankeppni Eurovision og haldin í nokkur skipti á þessum árum, en varð ekki ágengt. Framlag sitt höfðu þeir sent inn undir nafninu Dauði og djöfull.

Músíktilraunir voru haldnar í Tónabæ þetta vorið sem endranær en Bootlegs voru ekki með að þessu sinni enda höfðu þeir skilað sínu þar, tónlistin var orðin mun þyngri í keppninni en áður og sigurvegarar keppninnar urðu Nabblastrengir sem voru á svipaðri línu og Bootlegs, önnur hafnfirska sveitin í röð sem sigraði keppnina. Þeir félagar höfðu varla tekið við verðlaununum fyrir sigurinn þegar Bootlegs hafði rænt þá söngvaranum en það var Jón Símonarson, títt nefndur Junior. Flestum þótti sveitin styrkjast enn við þessa viðbót og hún fór mikinn um sumarið 1990, lék á tónleikum sem aldrei fyrr og meðal annars í Húnaveri um verslunarmannahelgina og á tónleikum tengdum landgræðsluátakinu Rokkskógum.

Þeir félagar gerðu um sumarið einnig samning um plötu við útgáfufyrirtækið Steina en útrásarátak Smekkleysu hafði runnið út í sandinn, það að Steinar skyldi gefa út plötu með sveitinni þótti vera viðurkenning fyrir sveitina enda voru flestir vinsælustu tónlistarmenn og hljómsveitir landsins á mála hjá útgáfunni. Sveitin fór því í hljóðver um haustið og platan var tekin upp af Nick Cathcart-Jones í Sýrlandi og Grjótnámunni. Platan kom út fyrir jólin 1990 og bar heiti sveitarinnar, hún hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í DV, Þjóðviljanum og Degi. Platan var tólf laga en tvö aukalög voru á geisladiska-útgáfu hennar.

Bootlegs

Hluti upplags plötunnar var gallað að því leyti að á plötumiðanum  stóð auk nafns Bootlegs, Greifarnir – Blautir draumar, Hlið 3 (og Hlið 4 á hinni hliðinni). Sá hluti upplagsins hlýtur að teljast nokkuð sjaldséðari og verðmætari en hitt. Annars hefur mönnum verið tíðrætt og sérstaklega í seinni tíð um hversu slæmt umslag plötunnar er en það hefur iðulega verið nefnt meðal þeirra verstu þegar slíkar umfjallanir birtast í blöðum, sem er reglulega.

Fljótlega á nýju ári 1991 bárust þær óvæntu fréttir að Hannes gítarleikari og Jón Junior söngvari væru hættir í Bootlegs, Jón Örn Senior tók þá við söngnum aftur en Gunnar Bjarni Ragnarsson tók sæti Hannesar, hann hafði komið lítillega við sögu sveitarinnar sumarið 1989 og verið í millitíðinni í hljómsveitinni Boneyard.

Bootlegs fylgdi plötunni minna eftir en ella vegna mannabreytinganna og reyndar fór lítið fyrir henni næstu mánuðina, um sumarið var þó meira líf í henni, þá fór sveitin m.a. til Kaupmannahafnar og lék þar ásamt fleiri íslenskum sveitum á vegum Steina á Íslandshátíð sem haldin var til kynningar á íslenskri tónlist. Bootlegs lék þá sem fyrr á Rykkrokk og átti einnig að koma fram í Húnaveri um verslunarmannahelgina, tvennum sögum fer reyndar af hvort sveitin mætti á svæðið en það gerði þó að minnsta kosti gítarleikarinn Gunnar Bjarni sem kynntist þar og lenti á spjalli við Pál Rósinkrans sem þá söng með hljómsveitinni Nirvana. Það spjall leiddi ekki löngu síðar til samstarfs í hljómsveitinni Jet black Joe eins og frægt er orðið.

En dagar Bootlegs voru brátt taldir (í bili) og í nóvember 1991 hætti sveitin eftir fimm og hálfs árs samstarf, áður hafði sveitin að taka upp Pink Floyd slagarann Another brick in the wall í eigin útsetningu og kom sú útgáfa út vorið eftir á plötu með tónlistinni úr kvikmyndinni Veggfóðri.

Í Danmörku

Þótt Bootlegs væri hætt voru þeir félagar hvergi nærri hættir í rokkinu og Gunnar Bjarni gítarleikari varð þeirra mest áberandi í Jet black Joe sem fyrr var getið, Ellert bassaleikari og Jón Junior söngvari birtust ári síðar í Dos Pilas ásamt Sigurði Gíslasyni  gítarleikara sem átti eftir að leika með Bootlegs síðar, þá komu Jón Junior og Kristján (Stjúni) trommuleikari nokkrum árum síðar í hljómsveitinni Stunu.

Þótt Bootlegs væri hætt störfum héldu menn greinilega sambandi og til umræðu kom árið 1996 að halda upp á tíu ára afmæli sveitarinnar með tónleikum, það varð ekki að sinni en tveimur árum síðar gerðist það hins vegar (vorið 1998) og þá var blásið til tónleikahalds á Gauki á Stöng. Þeir Hannes, Ellert, Kristján, Gunnar Bjarni og Jónarnir tveir fylltu Gaukinn og þeir tónleikar voru teknir upp með útgáfu í huga, ekki var þó um frekara tónleikahald að ræða í bili.

Bootlegs síðari tíma

Boltinn var þar með farinn að rúlla aftur og þrátt fyrir að sveitin starfaði ekki samfleytt hefur hún komið saman reglulega en þess á milli tekið hlé um lengri eða skemmri tíma. Árið 2002 kom sveitin fram í nokkuð breyttri mynd, þá voru Jón Örn söngvari og gítarleikari og Gunnar Bjarni gítarleiakri í sveitinni en höfðu með sér Hrafn Björgvinsson (Krumma) bassaleikara (Mínus o.fl.) og Frosta Jón Runólfsson trommuleikara  (Fídel, Klink o.fl.). Öllu „venjulegri“ skipan var á sveitinni árið 2004 þegar Jónarnir Senior og Junior voru í henni og Ellert en nýr Kristján [?] á trommunum. Árið 2005 lék sveitin á Iceland Airwaves og gaf út um það leyti tónleikaupptökurnar frá 1998 undir nafninu Bootlegs live, sveitin var nokkuð virk um það leyti og allt til 2007 og síðan eftir 2010 en síðan þá hefur sveitin starfað nokkuð samfleytt. Þeir félagar komu t.a.m. fram á Rokkjötna-hátíðinni 2012 og höfðu þá til aðstoðar með sér Karlakór Sjómannaskólans í flutningi á laginu Krummi svaf í klettagjá. Sveitin hefur síðustu árin að mestu verið skipuð upprunalegum meðlimum en svo virðist sem Sigurður Gíslason gítarleikari hafi eitthvað leikið með sveitinni hin síðari ár.

Ítalska metal-útgáfan Minotauro sendi árið 2014 frá sér veglegar endurútgáfur á plötunum WC monster og Bootlegs ásamt heilmiklu af aukaefni í formi tónleika-upptaka frá árinu 2006, aukaefnið var alls tólf lög á plötunum tveimur sem gefnar voru út í takmörkuðu upplagi með eins konar mini-lp umslagi.

Árið 2015 sendi Bootlegs síðan frá sér plötuna Ekki fyrir viðkvæma sem kom út á vegum EG music, á geisladiski og takmörkuðu vínylupplagi (150 eintökum). Á þeirri plötu er m.a. að finna lagið Ó Reykjavík sem Vonbrigði hafði gert skil í myndinni Rokk í Reykjavík en þess má geta að Jóhann Vilhjálmsson söngvari þeirrar sveitar er gestasöngvari Bootlegs í laginu.

Lög með Bootlegs hafa verið endurútgefin á safnplötum Smekkleysu, Alltaf sama svínið: Smekkleysa í 15 ár (2002) og Lobster or fame (2003).

Efni á plötum