Nabblastrengir (1989-90)

Nabblastrengir

Nabblastrengir

Hljómsveitin Nabblastrengir (Umbilical cords) úr Ölduselsskóla í Hafnarfirði hvarf jafnskjótt og hún birtist í íslensku tónlistarlífi en hún sigraði Músíktilraunir og virtust allir vegir færir.

Sveitin var stofnuð haustið 1989 í Hafnarfirði en um vorið 1990 mætti hún til leiks í Músíktilraunir Tónabæjar og Rásar 2 undir nafninu Nabblastrengir (sums staðar ritað Naflastrengir). Valdimar Gunnarsson gítarleikari, Jón Símonarson söngvari, Magnús Oddsson gítarleikari, Gísli Helgason trommuleikari og Starri Sigurðarson bassaleikari skipuðu þá sveitina en hún sigraði Músíktilraunirnar að viðstöddum fimm hundruð manns í Tónabæ. Sveitin skaut þar aftur fyrir sig sveitum eins og Strigaskóm nr. 43 og Trössunum.

Þrátt fyrir sigurinn gekk Nabblastrengjum fátt í haginn í kjölfarið, fljótlega eftir sigurinn í keppninni bauðst Jóni söngvara að ganga til liðs við hljómsveitina Bootlegs og þar með var strax mesti broddurinn farinn úr sveitinni. Þeir sem eftir voru auglýstu eftir nýjum söngvara en ekki liggur fyrir hvort þeir fundu staðgengil fyrir Jón.

Nabblastrengir spiluðu eitthvað áfram en áður en árið var á enda hafði sveitin hætt störfum, meðlimir hennar voru þó síður en svo af baki dottnir og birtust í hinum ýmsustu sveitum í kjölfarið, Jón sem fyrr segir í Bootlegs en síðar í sveitum eins og Stunu, Solid I.V. og Dos Pilas, Valdimar í Nir-vana, Solid I.V. og Edrú, og Starri í Jet Black Joe.

Nabblastrengir höfðu fengið hljóðverstíma í verðlaun í Músíktilraunum og tóku upp eitt lag að minnsta kosti en það kom út á safnplötunni Húsið árið 1991.