
Moskvítsj
Upplýsingar um hljómsveitina Moskvítsj úr Hafnarfirði eru af fremur skornum skammti en hún virðist hafa komið fyrst fram opinberlega þegar hún keppti í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1993, sveitin komst ekki í úrslit keppninnar. Meðlimir hennar voru þá Þorvaldur Einarsson gítarleikari, Gísli Árnason bassaleikari og söngvari, Páll Sæmundsson gítarleikari og Björn Viktorsson trommuleikari. Sveitin hafði árið áður keppt undir nafninu Auschwitz.
Moskvítsj spilaði áfram eftir Músíktilraunir og var nokkuð virk um vorið, þá léku þeir félagar í nokkur skipti ásamt Ham. Minna fór fyrir sveitinni um sumarið en hún birtist aftur um haustið og lifði eitthvað fram á árið 1994.
1996 voru tvö lög með sveitinni á safnplötunni Drepnir sem var gefin út af nokkrum ungum menntaskólanemum í Flensborgarskóla í Hafnarfirði en Moskvítsj var þá löngu hætt, meðlimir sveitarinnar á þeim upptökum voru áðurnefndir Þorvaldur, Gísli, Páll og Björn en einnig var þá gítarleikarinn Karl G. Jónsson í henni.