Dos pilas (1992-96)

Dos pilas1

Dos pilas

Grunge hljómsveitin Dos Pilas var stofnuð haustið 1992 í Reykjavík af þeim Ingimundi Ellert Þorkelssyni bassaleikara, Sigurði Gíslasyni gítarleikara (Bleeding Volcano), Davíð Þór Hlinasyni gítarleikara og söngvara (Sérsveitin o.fl.), Heiðari Kristinssyni trommuleikara (Sérsveitin, No time o.fl.) og Jóni Símonarsyni söngvara (Bootlegs, Nabblastrengir o.fl.).

Sveitin varð fljótlega áberandi í spilamennsku og eftir að lög með henni komu út á fjórum safnplötum (Bandalaög 6: algjört skronster, Grensan, Algjört möst og Ýkt stöff) um sumarið og haustið 1993 bauðst henni tveggja plötu samningur við Spor, þá hafði einkum lagið Better times notið vinsælda um sumarið.
Því varð úr að Dos Pilas sendi frá sér sjö laga stuttskífu, samnefnda sveitinni vorið 1994, á henni var að finna lögin sem höfðu komið út á safnplötunum árið áður en einnig nýtt efni sem féll í ágætan jarðveg. Platan fékk t.a.m. þokkalega dóma í DV, ágæta í Morgunblaðinu og mjög góða í Degi en fremur slaka í tímaritinu Eintaki. Hún var síðan gefin út ári síðar í Þýskalandi undir titlinum Dos Pilas og þar hafði lagaröðinni verið breytt.

Samhliða þessu spilaði sveitin nokkuð um sumarið og vakti eftirtekt að hún skyldi skella sér í sveitaballabransann til að vekja á sér athygli.
Sama haust (1994) kom síðan breiðskífa út, hún hlaut nafnið My own wings og var unnin með Guðmundi Jónssyni og Nick Cathcart-Jones. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, DV og Degi en sæmilega í Helgarpóstinum.

Dos Pilas3

Dos pilas

Þrátt fyrir þessa velgengni fjaraði smám saman undan sveitinni 1995 og vorið 1996 hætti hún störfum, hélt lokatónleika sína.
Sveitarmeðlimir voru þó síður en svo hætti í tónlist því þeim Heiðari og Davíð átti eftir skjóta upp í hljómsveitinni Buttercup litlu síðar og Jóni söngvara í sveitum eins og Stunu og Solid IV.

Þótt margir vilji meina að með Dos Pilas hafi komið ferskir vindar inn í íslenska rokktónlist voru fleiri sem bentu á að hún væri einungis ein af mörgum sem spiluðu grunge og hefði því ekkert nýtt fram að færa. Það breytir því þó ekki að eftir liggja tvær plötur og fjölmörg lög á safnplötum.

Lög með sveitinni hafa einnig komið út á safnplötunum Icelandic rock favourites (2000) og Spor kynnir nýja íslenska tónlist fyrir jólin 1994 (1994), auk áðurnefndra platna.

Efni á plötum