Tópaz [1] (1999-2002)

Tópaz

Hljómsveitin Tópaz frá Keflavík gerði ágæta tilraun til að komast inn á sveitaballamarkaðinn um aldamótin, sendi frá sér lög og myndbönd og vakti athygli fyrir framlag sitt í kvikmyndinni Varði fer á vertíð en lognaðist útaf áður en eitthvað meira gerðist.

Sveitin var stofnuð haustið 1999 í Keflavík og fór þá þegar að vekja athygli í heima- og nágrannabyggðalögum. Næsta sumar (2000) sendi sveitin frá sér lag og myndband og keyrt var heilmikið á því, sveitaballarúnturinn það sumarið var skrásettur í kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Varði fer á vertíð, þar sem Hallvarður Ásgeirsson (Varði) slóst í för með þeim, og fékk Tópaz heilmikla athygli út á það. Jafnframt sendu þeir félagar einnig frá sér jólalag fyrir jólin 2000 þar sem þeir fengu unga og efnilega söngkonu, Ragnheiði Gröndal, í lið með sér. Hún varð þó aldrei meðlimur sveitarinnar.

Næsta sumar var með svipuðu sniði, sveitin gerði víðreist um landið og þriðja sumarið (2002) gerði Tópaz enn eina tilraunina til að slá í gegn en hafði ekki erindi sem erfiði og sveitin lognaðist útaf um haustið þrátt fyrir að hafa þá tekið upp efni til útgáfu á breiðskífu, ekki liggur fyrir hversu langt á veg sú vinna var komin.

Fjölmargir meðlimir fóru í gegnum Tópaz og mannabreytingar voru sjálfsagt einn stærsti þáttur þess að hún náði ekki almennilega til landsmanna. Gunnar Ingi Guðmundsson bassaleikari og Ellert Rúnarsson söngvari (Hrói höttur og munkarnir) voru líklega rauði þráðurinn í sveitinni og héldu henni gangandi. Guðbjartur Árnason trommuleikari (Svívirðing o.fl.) lék með sveitinni framan af og Ingvar Valgeirsson gítarleikari og söngvari (Undir áhrifum, Smack o.fl.) var með þeim sumarið 2000, um haustið hafði Vilhelm Grétar Ólafsson (Flugan o.fl.) tekið við trommuslætti. Sumarið 2001 voru Helgi Hannesson hljómborðsleikari (Soul 7) og Þór Fitzgerald gítarleikari (Moonstyx o.fl.) í sveitinni en undir það síðasta var Tópaz tríó þeirra Gunnars og Ellerts, en Díanna Dúa Helgadóttir (Chernobyl) hafði þá tekið við söngnum. Fleiri hafa mögulega (og áreiðanlega) komið við sögu sveitarinnar en upplýsingar um þá liggja ekki fyrir að svo stöddu.