Tónlistarfélagskórinn (1943-53)

Tónlistarfélagskórinn í Danmörku 1948

Tónlistarfélagskórinn var starfræktur af Tónlistarfélaginu í Reykjavík á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, hann var fremstur blandaðra kóra í sinni röð, starfaði í nokkur ár og sendi frá sér nokkrar plötur með kórsöng.

Kórinn var formlega stofnaður haustið 1943 og hét raunar Samkór Tónlistarfélagsins en var sjaldnast kallaður neitt annað en Tónlistarfélagskórinn, reyndar hafði hann þá verið starfandi óformlega um tíma en félagar úr ýmsum kórum (líklega mestmegnis karlakórum) höfðu verið kallaðir til í einstök verkefni sem síðan varð að Tónlistarfélagskórnum.

Stofnfélagar voru fimmtíu og fimm talsins og fjöldi hans hélst yfirleitt í kringum fjörutíu til sextíu manns. Fjölmargt þekkt söngfólk var í kórnum og meðal þeirra eru hér nefnd Ingibjörg Þorbergs, Jón Múli Árnason, Þuríður Pálsdóttir og Ásgeir Hallsson. Kórinn var aðili að Landssambandi blandaðra kóra frá árinu 1946.

Tónlistarfélagskórinn söng víða undir stjórn Victors Urbancic sem hélt allan tímann um stjórnvölinn, mest á höfuðborgarsvæðinu en einnig fór hann í ferðir um landsbyggðina, og reyndar einnig til Danmerkur þar sem hann hlaut mikla viðurkenningu á kóramóti.

Kórinn sérhæfði sig í stærri kórverkum og varð reyndar eins konar frumkvöðull í þess konar söngstarfi hér á landi, þannig færði kórinn þegar á öðru starfsári sínu upp Jólaoratoríu Bachs og síðar Jóhannesar Passíuna ásamt Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur (síðar Sinfóníuhljómsveit Íslands) en í kjölfarið fylgdu verk eins og Stabat Mater eftir Rossini, Sköpunin eftir Haydn og Requiem eftir Mozart auk íslenskra verka eins og Frið á jörðu eftir Björgvin Guðmundsson. Þá kom kórinn að uppfærslu á óperum og óperettum, m.a. fyrstu íslensku óperettunni Í álögum eftir Sigurð Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson. Allt telst þetta stórvirki og stórafrek í sögulegu samhengi tónlistarinnar hér á landi.

Tónlistarfélagskórinn hætti störfum í upphafi árs 1953 þegar Victor Urbancic bauðst að stjórna nýstofnuðum Þjóðleikhúskór, þá hafði hann átt í deilum vegna þess að sjálfstæði Tónlistarfélagskórsins var ógnað og hann fékk ekki að syngja fyrir eigin styrktarhóp eins og ætlað var í upphafi. Fjölmargir söngvarar úr kórnum fylgdu honum yfir í hinn nýja kór.

Efni á plötum