Fálkar [1] (1997-2004)

Fálkar

Keflvíska hljómsveitin Fálkar starfaði um nokkurra ára skeið í kringum aldamótin, þó með hléum því tveir meðlimir hennar dvöldust um tíma erlendis í námi. Sveitin sendi frá sér tvær plötur og meðlimir hennar áttu síðar eftir að starfa í fremstu röð tónlistarmanna hér á landi.

Fálkar (einnig kölluð Fálkar frá Keflavík) var stofnuð árið 1997 og það sumar tók sveitin þátt í Rokkstokk hljómsveitakeppninni þar í bæ, sveitin gerði engar rósir í keppninni en tveir meðlimir sveitarinnar voru hins vegar einnig í hljómsveitinni Danmodan sem sigraði hana. Það voru þeir Guðmundur Freyr Vigfússon bassaleikari og Karl Óttar Geirsson trommuleikari, en hinir meðlimir Fálka voru Sigurður Halldór Guðmundsson orgelleikari og Guðmundur Kristinn Jónsson gítarleikari. Að öllum líkindum var annar trommuleikari í upphafi í sveitinni en nafn hans er ekki þekkt.

Sveitin spilaði nokkuð um sumarið 1997 og fram á 1998 en fór þá í nokkurra mánaða pásu og birtist aftur um sumarið 1999 þegar þeir félagar voru meðal gestasveita á Rokkstokk-keppninni það árið. Í kjölfarið fóru þeir Fálkar á fullt í spilamennsku þar sem þeir léku instrumental fönkrokk eins og þeir skilgreindu tónlistina sjálfir, þeir léku víða um land og m.a. í Bláa lóninu á tónleikum í tengslum við Iceland Airwaves um haustið 1999, þar komust þeir í kynni við útsendara bandarísks útgáfufyrirtæki sem hófu að fylgjast með þeim með það í huga að gefa út efni með sveitinni.

Í kjölfarið fóru Fálkar í hljóðver og hljóðrituðu fjögur lög sem þeir ætluðu sem kynningarefni fyrir Ameríkanana, þar létu þeir reyndar ekki staðar numið heldur tóku þeir upp fimm lög í viðbót sem Rúnar Júlíusson í Geimsteini var reiðubúinn að gefa út með þeim. Öll lög plötunnar voru instrumental erlendar ábreiður sem höfðu fengið íslenska titla í meðförum þeirra félaga.

Platan hlaut nafnið Ástarkveðja frá Keflavík og kom út snemma sumars 2000 eða um svipað leyti og sveitin opnaði tónlistarhátíðina Reykjavik music festival sem haldin var í Laugardalnum. Hún hlaut ágæta dóma í tímaritinu 24/7 og Morgunblaðinu, og þokkalega í DV en vakti ekki mikla athygli.

Það lá fyrir að Fálkar myndu leggjast í dvala um veturinn en tveir þeirra, Guðmundur og Sigurður voru þá á leið í nám á Ítalíu. Ekkert gerðist því hjá sveitinni fyrr en sumarið 2001 að þeir birtust á nýjan leik og með sex laga skífu sem bar titilinn Fálkar frá Keflavík. Þar sló í gegn í flutningi sveitarinnar Sigur rósar slagarinn Flugufrelsarinn sem í meðförum þeirra hafði fengið kántríbúning, Fálkar fengu leikarann og Radíus-bróðurinn Stein Ármann Magnússon til að syngja Flugufrelsarann og eins og rétt mætti ímynda sér var lagið nærri því óþekkjanlegt. Tónlistin var mun blandaðri á þessari nýju plötu en hinni fyrri og var helmingur laganna frumsaminn. Platan fékk þokkalega dóma í tímaritinu Sándi og Morgunblaðinu.

Fálkar frá Keflavík

Fálkar léku nokkuð opinberlega þetta sumar og m.a. undir á útgáfutónleikum hjá Gálunni (Júlíusi Frey Guðmundssyni). Sveitin fór aftur í pásu um haustið þegar þeir Guðmundur og Sigurður héldu aftur suður á bóginn og voru þar um veturinn. Eftir það fór minna fyrir Fálkum, þeir félagar voru eitthvað að spila um sumarið 2002, m.a. á Ljósanótt í Keflavík og um haustið kom út nýtt lag með sveitinni á safnplötunni Ástin og lífið, en þar léði þeim rödd sína Ragnheiður Gröndal í gamla diskóslagaranum Í Reykjavíkurborg sem að sjálfsögðu var ekki lengur neitt diskólag þegar Fálkar höfðu farið höndum sínum um það.

Fálkar voru á þessum tíma orðnir nokkuð þekktir hljóðversspilarar og upptökumenn, og því voru verkefnin af ýmsu tagi þannig að sveitin varð nokkuð útundan, eitthvað komu þeir við sögu í kvikmyndinni Usss árið 2003 og reyndar komu þeir fram í ársbyrjun 2004 og spiluðu eitthvað opinberlega. Í viðtali um það leyti sögðust þeir félagar vera að vinna að nýrri plötu en sú plata hefur enn ekki litið dagsins ljós frekar en Fálkarnir sjálfir.

Lög með sveitinni hafa komið út á fáeinum safnplötum, þar má nefna Geimsteinn 33 1/3 ára: 1976-2009 (2009) og 25 ára (2001), sem báðar komu út á vegum Geimsteins.

Efni á plötum