Sérsveitin [2] (1989-91)

Sérsveitin

Sérsveitin vakti töluverða athygli á árunum í kringum 1990, sendi frá sér lag í útvarpsspilun, spilaði töluvert á tónleikum en lognaðist svo útaf án þess að meira yrði úr hlutunum.

Sérsveitin var líklega stofnuð í Breiðholtinu snemma á árinu 1989 og tók þá um vorið þátt í Músiktilraunum Tónabæjar. Meðlimir sveitarinnar voru þá Davíð Þór Hlinason gítarleikari, Heiðar Kristinsson trommuleikari, Axel Bragason bassaleikari, Gísli Jóhann Sigurðsson hljómborðsleikari og Rósalind Gísladóttir söngkona. Sérsveitin komst ekki í úrslit keppninnar.

Sveitin fór á fullt í spilamennsku um sumarið og lék t.a.m. um verslunarmannahelgina á bindindismóti í Galtalæk og útihátíð í Húnaveri fyrir norðan þar sem hún hafnaði í öðru sæti (á eftir Bootlegs) í hljómsveitakeppni sem þar var haldin. Um veturinn fór minna fyrir Sérsveitinni en vorið 1990 birtist sveitin á nýjan leik í Músíktilraunum skipuð sama mannskap nema að í stað Axels bassaleikara var mættur Ingólfur Júlíusson. Sveitin hafði fljótlega eftir tilraunirnar vorið á undan auglýst eftir bassaleikara en ekki liggur fyrir hvort Ingólfur kom þá strax inn í sveitina eða hvort einhver annar var í millitíðinni.  Sveitin komst í úrslit keppninnar og hafnaði í öðru sæti á eftir Nabblastrengjum en tónlistin í keppninni var þá um það leyti að þróast yfir í mun þyngra rokk Um það leyti kom sveitin einnig fram í sjónvarpsþættinum Á tali með Hemma Gunn og flutti þar frumsamið efni en sveitin sendi frá sér lag sem fékk einhverja spilun í útvarpi um það leyti, þá lék sveitin í Galtalæk eins og sumarið á undan en einnig á tónleikum Listahátíðar í Reykjavík og Rykkrokk tónleikunum í Breiðholti.

Eins og veturinn á undan hafði Sérsveitin hægt um sig veturinn 1990-91 en var þó meðal hljómsveita sem léku á stórum jólatónleikum sem útvarpsstöðin Útrás stóð fyrir um haustið. Sveitin var enn starfandi um vorið 1991 en einhvern tímann á miðju ári var hún lögð niður og ICUP var stofnuð upp úr henni, sú sveit starfaði ekki lengi en þeir Heiðar trommuleikari og Davíð Þór gítarleikari birtust litlu síðar í Dos Pilas og svo löngu síðar í Buttercup.