Stæner (1998-99)

Steiner vorið 1998

Hljómsveitin Stæner (einnig ritað Steiner) úr Hafnarfirði sigraði Músíktilraunir vorið 1998 en ólíkt flestum sigurvegurum keppninnar á þeim árum rættist lítið úr sveitinni og hún dó drottni sínu um ári síðar.

Stæner var stofnuð í Hafnarfirði fáeinum vikum áðu en hún keppti í Músíktilraunum en þar komst sveitin í úrslit á atkvæðum dómnefndar. Í úrslitum tilraunanna gekk allt upp og þeir félagar tryggðu sér sigurinn með góðri frammistöðu, söngvari sveitarinnar Magnús Leifur Sveinsson var aukinheldur kjörinn besti söngvari keppninnar en hann var jafnframt gítarleikari sveitarinnar, aðrir meðlimir Stæner voru þeir Kári Kolbeinsson trommuleikari og Kristján Hafsteinsson bassaleikari. Þess má geta að á úrslitakvöldinu hafði sveitin sér til fulltingis Odd Snæ Magnússon hljómborðsleikara en hann gekk til liðs við sveitina strax eftir sigurinn, þá munu þeir einnig hafa haft með sér aðstoðarmann sem lék á didgeridoo en nafn hans er ekki þekkt.

Stæner

Stæner spilaði nokkuð eftir sigurinn í Músíktilraunum og fljótlega bættist fimmti liðsmaðurinn í hópinn sem hét Kristján [?] rétt eins og bassaleikarinn, ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða hljóðfæri hann lék á en svo virðist sem hann hafi ekki verið lengi í sveitinni. Um sumarið lék sveitin eitthvað á sveitaböllum, m.a. ásamt Skítamóral en mestmegnis þó á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu. Lag kom út með þeim félögum á safnplötunni Flugan# en að öðru leyti vakti sveitin ekki ýkja mikla athygli.

Um haustið urðu þær mannabreytingar á Stæner að Helgi Stephensen gítarleikari gekk til lið við sveitina en um það leyti fór að verða stopulla milli þess sem hún spilaði á tónleikum, undir lokin munu Egill Rafnsson trommuleikari og Jón Tryggvi Unnarsson [gítarleikari?] eitthvað hafa komið við sögu sveitarinnar en hún var líklega alveg hætt störfum um vorið 1999.