Stútungar (1991-92)

Stútungar

Hljómsveitin Stútungar spilaði um nokkurra mánaða skeið á ballmarkaðnum veturinn 1991 til 92 en sveitin sem var sextett var skipuð þungavigtarmönnum úr poppinu, úr hljómsveitunum Rikshaw og Sniglabandinu.

Meðlimir Stútunga voru þeir Richard Scobie söngvari, Dagur Hilmarsson bassaleikari, Einar Rúnarsson hljómborðsleikari, Björgvin Ploder trommuleikari, Þorgils Björgvinsson gítarleikari og Sigurður Kristinsson gítarleikari, flestir sungu þeir líklega ásamt Scobie.

Stútungar störfuðu frá því um haustið 1991 og fram í mars 1992 en þá fór Richard Scobie utan til Bandaríkjanna og Sniglabandið sem þá hafði verið í pásu tók til starfa á nýjan leik.