Ný plata með lögum Jórunnar Viðar

Erla Dóra Vogler söngkona og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari eru um þessar mundir að senda frá sér geislaplötuna Jórunn Viðar – Söngvar, en Jórunn hefði orðið hundrað ára þann 7. desember nk. sem er einmitt opinber útgáfudagur plötunnar og þá standa fyrir dyrum tvennir útgáfutónleikar.

Þær Erla Dóra og Eva Þyri hafa síðastliðna mánuði fagnað aldarafmæli Jórunnar Viðar með tónleikahaldi henni til heiðurs, í Iðnó, Hofi á Akureyri og Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði en einnig í íslenska sendiráðinu í Berlín.

Platan Jórunn Viðar – Söngvar hefur að geyma sönglög Jórunnar sem sum hver hafa sjaldan eða aldrei verið flutt áður opinberlega, þar má nefna Únglíngurinn í skóginum II og Ung stúlka, í bland við þekktustu lög hennar og þjóðlagaútsetningar en alls eru tuttugu og sex söng- og þjóðlög á plötunni.

Jórunn Viðar tónskáld (1918-2017) nam sín fræði í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Austurríki auk þess sem hún lærði hér heima líka. Hún samdi fjölda laga sem margir þekkja s.s. Það á að gefa börnum brauð, Kall sat undir kletti og Únglíngurinn í skóginum, auk þess að semja tónlist fyrir kvikmyndir og ballet. Jórunn hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín og má þeirra á meðal nefna heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og Hina íslensku fálkaorðu.

Erla Dóra og Eva Þyri gefa plötuna út sjálfar en útgáfan var styrkt af Samfélagssjóði Landsbankans og hljómdiskasjóði FÍT, auk áheita á Karolina fund. Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon önnuðust upptökuþáttinn en Álfheiður Erla Guðmundsdóttir tók ljósmyndir og hannaði umslag plötunnar.

Hér er hægt að fylgjast með verkefninu á Facebook og þar er einnig hægt að panta plötuna.